21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3410)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 482 liggur fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. Þar kemur fram að nefndarmeirihlutinn leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 465, en á því þskj. er frv. ásamt þeim breytingum sem gerðar voru á því í hv. Ed. Þetta er nokkuð afbrigðileg meðferð á máli, enda er hér um að ræða sjöundu umr. málsins.

Þetta mál á sér nokkra forsögu. Það var lagt fram á haustþingi, var síðan breytt í meðferð þessarar hv. deildar með tilliti til þess að nýjar þjóðhagsforsendur bentu til þess að laun hækkuðu minna á milli ára en gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhagsforsendum og forsendum fjárlagafrv. eins og þær litu út þegar fjárlagafrv. var lagt fram á s. l. hausti.

Með tilliti til þessa flutti meiri hluti hv. n. brtt. við frv. þegar það var til umr. hér í hv. deild. Málið var síðan sent til hv. Ed. Skömmu síðar fóru fram kjarasamningar. Eftir að gengið var frá kjarasamningum hefur Þjóðhagsstofnun reiknað upp á nýtt atvinnutekjur í heild á þessu ári. Kemur í ljós að gert er ráð fyrir að þær muni hækka um 19.5% í stað 16% sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlun Þjóðhagsstofnunar skömmu fyrir jól og aftur endurtekið í janúar s. l.

Nefndarmeirihlutinn leggur til að frv. verði samþ. eins og það kemur frá Ed., enda er frv. þannig í samræmi við þá stefnu ríkisstj. að skattbyrði beinna skatta til ríkisins skuli vera sú sama á árinu 1984 og var á árinu 1983. Er þá skattbyrði reiknuð á þann veg að tekið er hlutfall greiddra skatta af tekjum greiðsluársins.

Herra forseti. Það er óþarfi að hafa fleiri orð um þetta mál af því það er öllum kunnugt, en nokkuð brýnt er fyrir skattstofur að fá um þetta endanlegar upplýsingar í lagaformi frá hv. Alþingi. Því legg ég til að málinu verði hraðað hér í gegnum hv. deild.