21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3991 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umr. fer fram og að hún skuli hafa verið vakin hér. Það er greinilega upplýst í umr. að matinu hefur verið breytt í framkvæmd, það staðfestir forstöðumaður

Framleiðslueftirlits sjávarafurða í bréfi sínu varðandi þetta mál til ferskfiskmatsmanna, hvað sem öllum fyrri afneitunum líður. Hann talar um það í bréfi sínu að orðið hafi misskilningur. Það væri fróðlegt að fá upplýst hver hafi þá misskilið hvern því að í sama bréfi ásakar hann ekki ferskfiskmatsmennina um að hafa misskilið sitt hlutverk, heldur eiginlega þjóðfélagið um að hafa misskilið sig.

Ég verð að segja að þetta mál er allt hið undarlegasta og gott er að gripið skuli hafa verið í taumana því að auðvitað verða hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu að geta treyst þeim loforðum sem ráðh. gefa í viðkvæmum málum eins og þessum.Það er vissulega athugunarefni hvernig það gat gerst, eftir það bréf og þá yfirlýsingu sem sjútvrh. hafði gefið í sambandi við fiskverðsákvörðun, að engu að síður væri brugðið út af því sem þar var ákveðið og lagt fyrir. Ég legg til að hæstv. sjútvrh. kanni það mál nokkru nánar, hvernig það má vera að þegar yfirlýsing liggur fyrir sé ekki eftir henni farið, eins og hér hefur greinilega gerst.