21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að þeir sem hér hafa staðið upp og mælt með því að gildandi reglugerð um ferskfiskmat væri ekki virt hafa talað undir rós. Þeir hafa talað um að vegna þess að þetta hefur verið í óstandi á undanförnum árum eigi að vera svo áfram, allt annað sé óréttlæti, mér skilst nánast brot gagnvart sjómönnum.

Ég vil undirstrika að ég lít svo á að íslenskir sjómenn hafi ekki beðið um að reglugerðin væri ekki virt. Hvenær hefur það verið samþykkt að ekki eigi að vera samræmt mat í landinu? Hefur nokkurn tímann annað verið á dagskrá en vera skuli samræmt mat á fiski í landinu? Það hefur aldrei verið neitt annað á dagskrá. Það væri nær að spyrja Noregsfarann . . . (Gripið fram í: Spyrðu Jónas frænda þinn.) Ég hygg að þegar þm. standa hér upp hver um annan þveran og mæla með því að reglugerð sé ekki virt varðandi ferskfiskmatið . . . (Gripið fram í: Þetta er alger misskilningur. Það er þveröfugt.) (Gripið fram í: Að vilja virða reglugerðina.) Það er verst að því er lýst yfir að menn vilji virða reglugerðina. Þá er rétt að við tökum sem fyrst upp umr. í þinginu um reglugerðina þar sem ákvæðin koma alveg skýrt fram, þar sem það liggur ljóst fyrir að Framleiðslueftirlit sjávarafurða er aðeins að fara eftir reglugerðinni, en er stöðvað í þeirri vinnu sinni vegna þess að menn eru lagðir á flótta fyrir hótunum frá örfáum mönnum um að flotinn ætli að fara í land. Það er allt sem hefur gerst.

Mig undrar það að við, sem lifum á matvælaframleiðslu, skulum láta okkur detta í hug að slaka á á þessum vígstöðvum. Það má vel vera að menn geti fiskað örfá atkvæði út á halda uppi slíkum málflutningi, en það er ekki í samræmi við þarfir þjóðarinnar, svo mikið er víst.

Ég hélt satt best að segja að mönnum væri ljóst að ef Framleiðslueftirlit sjávarafurða er að brjóta reglugerðina er það dómstólamál, þá á að sjálfsögðu að kæra það fyrir dómstólum og dómstólar að dæma í málinu. En vegna þess að það er ekki að brjóta reglugerðina er sú leið ekki fær hjá þeim aðilum sem hafa orðið fyrir því að fiskurinn er dæmdur niður. Þess vegna er þess krafist af framkvæmdavaldinu að það taki að sér dómsvaldið og skipi mönnunum að framkvæma ekki lög. (Gripið fram í: Þú verður að skýra þetta fyrir manninum.) Nafni minn, hv. 7. þm. Reykv. — (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann hvort hann treysti sér til að ljúka ræðunni á stuttum tíma?) Mjög lítið er eftir. Ég treysti mér ekki til að veita honum nægilegar upplýsingar um sjávarútvegsmál og mat á fiski í þeim tíma sem forseti skammtar, en það gæti verið fróðlegt fyrir hann að kynna sér hver er munurinn á dauðblóðguðum fiski og fiski sem hefur verið blóðgaður eins og á að standa að þeim málum.