01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 20 ber hv. 3. þm. Vestf. fram fjórar spurningar um byggingar Osta- og smjörsölunnar. Þessar spurningar voru sendar henni og eru svörin á þessa leið:

1.Osta- og smjörsalan sf. stendur ekki í neinum byggingarframkvæmdum og hefur engar áætlanir uppi í þeim efnum næstu árin a.m.k.

2. Árið 1978–1979 byggði Osta- og smjörsalan hús sitt við Bitruháls og flutti inn í það í ársbyrjun 1980. Húsið er að grunnfleti 4 106 m2. Hluti þess er tvílyftur. þannig að samanlagður gólfflötur er 5 026 m2. Meginhluti hússins er hár til lofts vegna kæli- og frystigeymslna, þannig að rúmmál hússins undir þaki er talið 24 217 m3. Heildarbyggingarkostnaður þess nam 1 432 millj. gkr. og framreiknað samkv. skattalögum per 31.12.82 er þessi byggingarkostnaður 46.8 millj.

Byggingarnar voru fjármagnaðar m.a. með stofnfé frá aðildarfélögunum, en fyrirtækið er sameignarfélag allra mjólkurbúa landsins og SÍS.

Þessu til viðbótar eru hér fyllri upplýsingar:

Heildarverðmæti seldra vara á s.l. ári nam 411 millj. kr. hjá þessu fyrirtæki. Hið nýja húsnæði, sem eins og áður greinir var tekið í notkun í ársbyrjun 1980, hefur reynst vel og bætti úr mjög brýnni þörf þar eð eldri aðstaða í gömlu mjólkurstöðinni við Snorrabraut var orðin alls ófullnægjandi og háði mjög starfseminni. Nýting hins nýja húsnæðis hefur verið mjög góð, enda stærð þess og gerð miðaðar við ákveðnar forsendur sem hafa staðist fyllilega, enda gert ráð fyrir stækkunarmöguleikum síðar ef frekari umsvif gæfu tilefni til slíks.

Til viðbótar vil ég svo gefa örlítið nánari skýringar á þessu.

Osta- og smjörsalan var stofnuð 1958, en á árunum á undan hafði skapast mjög alvarlegt ástand í sölu mjólkurafurða, því sum mjólkurbúin urðu að selja afurðir sínar með afslætti og löngum gjaldfresti. Sölukostnaður búanna var mjög hár, t.d. 10% til heildsala, og gjaldfrestur allt að þrír mánuðir og í sumum tilfellum urðu búin að sætta sig við enn lengri tíma. Gæðaeftirlit var í lágmarki og vöruþróun lítil sem engin. Ávinningurinn af starfi Osta- og smjörsölunnar kom strax í ljós. Sölukostnaðurinn stórlækkaði, hefur verið flest árin 3– 4%.

Fyrirtækinu er ætlað að inna af hendi þjónustu sína, umboðsstarfsemina, fyrir sannvirði að mati stjórnar þess og er því ekki gert ráð fyrir að það safni rekstrarágóða umfram það sem þarf til að standa undir rekstri þess og tryggja því æskilega rekstraraðstöðu, vöxt og viðgang. Umboðslaun er fyrirtækið fær eru 4% af verðmæti seldra vara á innanlandsmarkaði og 1% af útflutningi. Tekjuafgangi er síðan skipt upp í árslok milli mjólkurbúanna eftir viðskiptaveltu. Á árinu 1982 nam endurgreiðslan, tekjuafgangurinn, 14.9 millj.kr., sem dregst þá frá þessum 4%.

Starfsemi Osta- og smjörsölunnar var frá upphafi í gömlu mjólkurstöðinni við Snorrabraut, en hún varð fljótlega of lítil og óhentug til starfseminnar. Einnig skorti mjög geymslurými og voru því leigðar frysti- og kæligeymslur á einum þremur stöðum í borginni, sem vissulega var mjög óhagstætt.

Pökkun á ostum hófst 1970 og var þeirri starfsemi komið fyrir til bráðabirgða í bílskúrum við Snorrabraut. Það var því mjög brýnt verkefni að leysa húsnæðisvanda fyrirtækisins til frambúðar. Var þá ákveðið að leita eftir lóð, jafnframt því sem ákveðið var að leggja 1/2% af söluandvirði í framkvæmdasjóð til að standa undir væntanlegum byggingarkostnaði. Framkvæmdasjóður myndaði síðan stofnfé fyrirtækisins þegar eignaraðild og skipulagi þess var breytt 1978, en þá gerðust öll mjólkursamlögin beinir eignaraðilar að fyrirtækinu. Eignaraðild er í hlutfalli við viðskiptaveltu hvers samlags við Osta- og smjörsöluna. Samband ísl. samvinnufélaga og Mjólkursamsalan voru upphaflegir stofnendur og eigendur frá 1958–1978, að þessi breyting var gerð.

Við bætta aðstöðu hefur staða fyrirtækisins í markaðsmálum styrkst mjög verulega og hefur það skilað sér í aukinni sölu afurða, en undanfarin ár hefur magnaukning t.d. í ostum verið 10–12% árlega og er nú ostaneysla landsmanna hátt í 9 kg pr. íbúa, en var aðeins rúm 3 kg um 1970.

Niðurstöðurnar af þessu má draga saman í örfáum orðum: sölukostnaður lækkaði úr 10% niður í 3–4% af innanlandssölu og 1% af útflutningi, auk þess að áður var dráttur á greiðslum til mjólkurbúanna og bættist sá kostnaður við 10% heildsölukostnaðinn. Byggingarkostnaðurinn er um 11% af eins árs heildarveltu miðað við verðlag 1982. Ef deilt er í með 22 árum er byggingarkostnaðurinn 1/2% af árlegri veltu á þeim tíma.

Þessar staðreyndir, hvað mikill ávinningur er fyrir neytendur og framleiðendur af þessari byggingu og því skipulagi sem stendur að baki henni, ættu því að vera augljósar. Það hefur verið vel á málum haldið og reksturinn verið til jafnmikillar fyrirmyndar og ytra útlit byggingarinnar, sem vekur athygli allra vegfarenda fyrir góða umgengni og snyrtimennsku og hefur verið verðlaunuð að maklegheitum af Reykjavíkurborg. Jafnframt benda þessar staðreyndir til þess að okkur sé mikill ávinningur að hafa slíkt fyrirmyndarskipulag á öðrum sviðum þar sem því er hægt við að koma.