21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (3430)

196. mál, lausaskuldir bænda

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef leyft mér, herra forseti, að flytja brtt. við 196. mál, sem er á þskj. 427, svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

„1. Á eftir 1. gr. komi ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:

Lánveitingar skv. lögum þessum skulu sérstaklega miða að því að leysa fjárhagsvanda þeirra bænda sem hafa nýlega hafið búskap, staðið í gagngerri uppbyggingu eða endurbótum á bújörð sinni eða búa við sérstaklega erfiðan fjárhag vegna fjölskylduaðstæðna.

2. Á eftir 4. gr. (er verði 5. gr.) komi ný grein er verði 6. gr. og orðist svo:

Innlánsstofnun er skylt að taka við bankavaxtabréfum er gefin verða út skv. lögum þessum. Seðlabankinn endurkaupir þessi bréf.“

Það er ljóst, herra forseti, að þó að Alþingi setji með lögum þeim sem hér um ræðir á þskj. 352 ákveðinn ramma um framkvæmd þeirra skuldbreytinga sem hér eru til umr. er engu að síður fjölmargt sem falið er framkvæmdaaðilum málsins, þ. e. bankaráði Búnaðarbanka Íslands og landbrh. eða ríkisstj., eins og hér er gerð till. um. Þar má nefna lánstíma, lánakjör, þóknun til útgefanda bankavaxtabréfanna, hlutfall peningalána og hlutfall skuldabréfa, útvegun fjármagns í þessu skyni og meðferð bankavaxtabréfanna að útgáfu þeirra lokinni. Þetta er allt saman falið framkvæmdaaðilum málsins í hendur og lög ekki látin kveða á um það.

Það má eflaust deila um að hve miklu leyti rétt sé að Alþingi setji með lögum reglur í slíkum tilvikum eða að hve miklu leyti eigi að fela það framkvæmdaaðilum málsins í hendur. Ég tel þó aldeilis nauðsynlegt að kveða nokkru nánar á um þau tvö atriði sem hér eru fluttar brtt. um.

Í fyrsta lagi á að tryggja alveg sérstaklega að tillit verði tekið til fjárhagsvanda yngri bænda og þeirra sem hafa, eins og segir í tillögugreininni, nýlega hafið búskap eða staðið í gagngerri uppbyggingu eða endurbótum á bújörð sinni. Einnig vil ég með þessari brtt. tryggja að tekið verði sérstakt tillit til þess ef bændur með miklar lausaskuldir búa í ofanálag við sérstaklega erfiðar fjölskylduaðstæður. Ég hef hér sérstaklega í huga barnmörg heimili og þann mikla kostnað sem t. d. er oft fylgjandi því að senda börn í skóla frá sveitaheimilum. Ég tel eðlilegt að þeir sem við slíkar aðstæður búi fái forgang um fyllstu aðstoð sem heimil er lögum þessum samkvæmt.

Þeim sem kunna að telja þessa grein óþarfa bendi ég á að í frv. þessu til l. er hvergi kveðið á um hversu víðtæk aðstoðin á að vera við hvern og einn bónda. Það er ekki sagt hvort breyta eigi öllum lausaskuldum þeirra sem til þess hafa veð í föst lán eða hluta af skuldum þeirra eða skuldum upp að vissri hámarksupphæð. Þetta eru allt saman möguleikar sem hugsanlegir væru í þessu sambandi og svo mætti framvegis telja. Þetta ásamt fjöldamörgu öðru, eins og ég hef áður bent á, er falið framkvæmdavaldinu í hendur.

Síðari brtt. varðar meðferð á bréfum þeim sem gefin verða út. Það hefur verið undan því kvartað að aðstaða lánadrottna bænda til að losna við viðkomandi bréf hafi verið misjöfn og þar af leiðandi áhugi þeirra á því að taka við bréfunum sömuleiðis. Sumar innlánsdeildir og minni sparisjóðir hafa getað endurselt bréfin í Seðlabankann, en aðrir ekki. Hér er gerð till. um að leysa þetta á einfaldan hátt þannig að aðstaða allra verði jöfn. Með þessu móti mundu bændur losna við að heimta loforð af lánadrottnum sínum um væntanleg bréfakaup og sparisjóðir og innlánsdeildir jafnt sem bankar eða bankaútibú gætu óhrædd tekið við bréfunum. Það væri hugsanlega nóg í þessu sambandi að Seðlabankinn endurkeypti ákveðið hlutfall bréfanna af hverjum og einum og gætu þá framkvæmdaaðilar málsins komið sér niður á það hlutfall sem þeir teldu duga í þessu sambandi, þó hitt væri óneitanlega tryggast, að Seðlabankinn væri skyldur til að kaupa þessi bréf eins og þurfa þætti.

Herra forseti. Það mætti vissulega margt segja um stöðu mála í landbúnaðinum, en í þessu sambandi læt ég nægja að segja að ljóst er af þeim gögnum sem fyrir liggja að þörfin á aðgerðum til stuðnings þeim bændum sem verst eru staddir að þessu leyti er mikil.

Það er þar fyrir utan, að mínum dómi, löngu orðið tímabært að taka til gagngerrar endurskoðunar allt verðmyndunar- og peningakerfi í landbúnaðinum. Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. landbrh., af því svo vel vill til að hann er viðstaddur þessa umr., hvað liði stefnumörkun hæstv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum og/eða hvort láta eigi það duga sem segir um þau mál í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. frá því í vor.

Það má reyndar, herra forseti, segja að ákveðin stefna í landbúnaðarmálum birtist þessa dagana í ýmsum aðgerðum hæstv. ríkisstj. Þannig vantar t. d. verulegar upphæðir í fjárlögum til þess að réttur til útflutningsbóta á landbúnaðarvörum sé fylltur. Skv. viðtali við hæstv. forsrh. í útvarpsfréttum nú fyrir skemmstu stendur til að taka stærstan hluta þeirra peninga, sem færa á til innan fjárlaga í tengslum við kjarasamninga ASÍ og VSÍ, frá niðurgreiðslum, Ríkisstj. hyggst láta taka upp nýjan neyslugrundvöll þar sem vægi landbúnaðarafurða minnkar. Og síðast en ekki síst hefur verið lagt fram hér á hv. Alþingi frv. um virðisaukaskatt þar sem aftur yrði tekin upp skattheimta á matvælum. Allt þetta og reyndar miklu fleira mætti telja til og segir sína sögu, ef þess er gætt að ekkert annað hefur komið frá hæstv. ríkisstj. þarna á móti. þess vegna er von að spurt sé, hæstv. landbrh., hvað liði frekari stefnumörkun ríkisstj. í landbúnaðarmálum og þá á ég ekki við stefnumörkun sem birtist í þeim aðgerðum sem ég hef hér upp talið. Ég er að vonast til þess að eitthvað bitastæðara og heilsteyptara komi um þau málefni frá hæstv. ríkisstj. áður en langt um líður, enda þörfin mikil á slíkri stefnumótun.

Herra forseti. Ég harma það og ég endurtek, herra forseti, að ég harma þann seinagang sem orðið hefur á framkvæmd þessa máls, sem hér er rætt um í dag, þ. e. frv. til l. um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán. Nefnd sú sem starfaði að þessu máli skilaði, eins og kunnugt er, áliti snemma í haust. Því skal hér að nokkru leyti tekið undir þá gagnrýni sem birtist í nál. minni hl. landbn. hvað seinagang á þessu máli varðar. Ég hef engu að síður, herra forseti, skrifað undir álit meiri hl. með þeim fyrirvara sem þar um getur og í framhaldi af því flutt þær brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir. Ég styð þessa aðgerð og vona að hún komist sem fyrst til framkvæmda og ég vona jafnframt, eins og ég hef hér rætt, að ekki verði látið staðar numið, heldur hafist handa um varanlegri úrbætur og úrlausn í þeim vandamálum sem við er að glíma, svo aðgerðir hliðstæðar þeim sem nú er óhjákvæmilegt að grípa til megi heyra sögunni til.