21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4007 í B-deild Alþingistíðinda. (3432)

196. mál, lausaskuldir bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs undir umr. um þetta mál fyrir tveimur dögum, ekki vegna þess að þörf væri mikilla útskýringa á þessu máli umfram þær sem þegar hafa fram komið eftir skilmerkilega ræðu frsm. meiri hl. n., hv. 3. þm. Norðurl. e., heldur til þess að gera örfáar athugasemdir við það sem fram kom í umr. sjálfri

Ég vil rifja upp að hv. 5. þm. Reykv. flutti hér mjög málefnalega ræðu og sanngjarna varðandi þetta mál. Hann skilar þó séráliti þar sem hann leggur til að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Meginröksemdir hv. 5. þm. Reykv. eru þær, að frv. þetta sé óþarft, þetta sé óþörf lagasetning vegna þess að í lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands séu nægar heimildir fyrir hendi til að þessu máli verði hrundið í framkvæmd. Út af fyrir sig er rétt að hafa má ýmiss konar form á lagasetningunni og afla má lagaheimilda og fá fram vilja Alþingis til framkvæmda í tilteknu máli, svo sem eins og þessu er varðar lausaskuldir bænda, á ýmsan hátt og getur verið álitamál hvaða form valið er. Ég vil minna á að um leið og hv. 5. þm. Reykv. hefur kosið að velja þessa forsendu fyrir sinni afstöðu, sem sé að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá, hefur hann flutt frv. til l. um breyt. á lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands þar sem hann gerir ráð fyrir að í þremur atriðum þurfi að breyta þeim lögum til að ná þeim tilgangi sem frv. um lausaskuldir bænda gerir ráð fyrir. Það liggur því fyrir að hv. þm., sem tetur frv. óþarft, hefur þegar lagt fram frv. sem sannar að það þarf lagasetningu til að málinu verði komið í höfn, (Gripið fram í: Það er nauðsynlegt.) ella hefði hann tæpast flutt frv. til þess að leitast við að koma fram breytingum á lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands.

Ég segi það strax að vitaskuld væri hægt að breyta lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands og fella þar inn þau lagafyrirmæli og þau lagaákvæði sem nauðsynleg þættu. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert, hvorki við fyrri lagasetningar um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán né nú. Ég hygg að meginorsökin sé sú, að löggjafinn hafi ekki og jafnvel ekki framkvæmdavaldið heldur, kosið að gera lögin um veðdeild Búnaðarbanka Íslands þannig úr garði að það gengi fyrirstöðulaust og væri hverju sinni sjálfsagt, jafnvel árlega, að gera þær ráðstafanir sem hér er stefnt að með sérstökum lögum, þ. e. að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Ef slík lagaákvæði væru komin inn í lög um veðdeild Búnaðarbanka Íslands gæti stjórn deildarinnar ásamt landbrh. tekið ákvörðun um að nýta sér þau lagaákvæði. Þess vegna sýnist mér að sú leið sem hv. 5. þm. Reykv. mælir með, minni hl. hv. landbn. Nd., feli það í sér að opna þetta mál meira og opna fyrir framkvæmd þess í miklu ríkara mæli en löggjafinn hefur hingað til viljað fallast á.

Ég vil láta þetta koma fram um leið og ég segi að málflutningur hv. þm. var bæði málefnalegur og í honum fólst skilningur á nauðsyn þess að komið væri til móts við bændastéttina í þessum efnum.

Um það sem sagt var varðandi framkvæmd þessa máls, sem sannarlega skiptir veigamiklu máli, vil ég fara um örfáum orðum, þó ekki í löngu máli.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon hefur mælt hér fyrir tveimur brtt. sem hann flytur á sérstöku þskj., þskj. 427. Eftir mínum skilningi gerir fyrri brtt. ráð fyrir að útvíkka nokkuð svið þeirrar fyrirgreiðslu sem hér er gert ráð fyrir, þannig að það verði unnt að breyta í föst lán lausaskuldum sem myndast hafa vegna einkaneyslu og vegna fjölskylduástæðna og annars slíks sem ekki er tengt atvinnurekstrinum. Meiri hl. n. hefur ekki talið fært að útvíkka þetta frv. með þeim hætti. Þess vegna tel ég að þrátt fyrir að í ýmsum tilvikum geti verið um mikla þörf að ræða sé þar um hæpna leið að tefla.

Í annarri brtt. gerir sami þm. ráð fyrir því að innlánastofnunum verði skylt að taka við bankavaxtabréfum og Seðlabankanum einnig skylt að kaupa þessi bréf. Þessi atriði voru mjög rædd í landbn. Nd. Þar kom fram mjög eindregin skoðun nm. á því að nauðsynlegt væri að þessi bréf yrðu með þeim kjörum að þau væru seljanleg.

Svo vill til að nefndin sem undirbjó þetta mál og skipuð var á árinu 1982 hefur gert samþykkt, sem dagsett er 28. febr. s. l., þar sem hún gerir nýjar tillögur um framkvæmd á þessu máli. Ég hygg að rétt sé að lesa samþykkt nefndarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Reynt verði að halda opnu að útvegað verði 40% af þeirri fjárhæð sem endanlega verður skuldbreytt.

2. Þar sem fóðurkaupa er getið í frv. sem tilefnis skuldbreytingar sé átt við fóðurkaup af völdum harðinda eða árferðisáfalla, sem séu umfram venju eða fáist ekki uppgerð sökum tekjubrests af þessa völdum.

3. Útvegað reiðufé gangi að jöfnu yfir alla og þurfi stofnlánadeild þá að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fá forgang innan uppgjörs við hvern skuldara eða/og að lengja lán sín þar sem greiðslu vanskila sleppir. Ástæður þessar eru m. a. þær að vanskil við stofnlánadeild eru nú svo mikil að rýra mundi útgreiðsluhlutfall annarra úr hófi.

4. Kjör reiðufjárhluta lánanna verði hin sömu og á aðfengna fénu að viðbættu 1/2% álagi til veðdeildarinnar.

5. Kjör veðdeildarbréfanna verði verðtryggð skv. lánskjaravísitölu með 2% vöxtum, en ofan á þá 1/2% álag veðdeildar gagnvart skuldurum.

6. Slaka verður á fyrri óskum nefndarinnar um lengd lánanna. Þó verði reynt að fá þau til 12 ára, þar af fyrsta ár afborganalaust. Endanlega fari þetta þó eftir því við hvaða kjörum lánardrottnar fást til að taka við bréfunum.

Um fjárhæðarmörk og hlutfall skuldbreytingarinnar að öðru leyti telur nefndin ekki tímabært að tjá sig fyrr en frekari upplýsingar liggja fyrir.“ Undir þetta skrifar formaður nefndarinnar, Bjarni Bragi Jónsson.

Þessar tillögur undirbúningsnefndarinnar sem fjallaði um þetta mál verða vafalaust hafðar til hliðsjónar þegar ákvörðun verður tekin um lánakjör á þessum lánum, bæði reiðufjárhluta þeirra og eins skuldabréfum, þrátt fyrir að aðrir aðilar eigi samkv. lagafrv. að taka þar ákvörðun um.

Hér var rætt um að gæta yrði þess að aðstaða til að losna við bréfin verði ekki misjöfn, bæði af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og eins kom það fram í máli hv. 7. þm. Reykv. Ég tel að mjög mikilvægt sé að haldið verði þannig á framkvæmd þessa máls að skuldabréfin verði seljanleg, sem fyrst og fremst tryggi það að aðilar sitji nokkurn veginn við sama borð í sambandi við að losna við þessi bréf. Það er rétt að við undanfarnar skuldbreytingar hafa innlánsdeildir kaupfélaga, eða a. m. k. minni innlánsdeildir kaupfélaga og minni sparisjóðir, getað losnað við þessi bréf upp í bindiskyldu Seðlabankans. Um það er ekkert í þessu frv. og ekkert að því er lýtur að framkvæmd málsins kveður á um eitt eða annað í þessa átt. Hins vegar hefur þetta viðgengist vegna þess að Seðlabanki Íslands hefur sett um þetta sérstakar reglur og ég hygg að það komi til ákvörðunar hvernig með það verður farið nú þegar farið verður að ræða um meðferð á lánakjörum á þeim bréfum sem hér er gert ráð fyrir að gefa út. En ég tel hins vegar mjög mikilvægt að forðast að gert verði upp á milli aðila hvað þetta og annað í meðferð þessa máls snertir.

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál frekar. Hér flutti langa ræðu hv. 7. þm. Reykv. og hefur flutt sérstakar brtt. á þskj. 464, þar sem hann gerir ráð fyrir að útvíkka þetta mál mjög, þannig að það taki einnig til lausaskulda launafólks og þar með einnig lausaskulda bænda sem til er stofnað vegna persónulegrar neyslu svo og vegna kostnaðar við byggingu á íbúðarhúsnæði o. s. frv. Hér er farið út á alveg nýja braut. Frv. eins og það er úr garði gert gerir ráð fyrir að gefinn sé kostur á að breyta í föst lán lausaskuldum bænda vegna fjárfestinga til búrekstrar á jörðum á tilteknu árabili svo og lausaskuldum vegna jarðakaupa, véla, bústofns og fóðurkaupa á sama tíma. Hinir síðustu liðir, er snerta rekstrarvörur, eru nokkuð þrengdir í tillögum þeim sem fyrir liggja frá nefndinni sem undirbjó málið. Það á sem sé að breyta í föst lán skuldum sem myndast hafa vegna fjárfestingar í atvinnurekstri og tiltekinna rekstrarvara vegna atvinnurekstrarins. Hér er t. a. m. ekki gerð till. um að unnt verði að breyta í föst lán lausaskuldum sem myndast hafa vegna íbúðarbygginga í sveitum. Ég hygg þó að ýmsir þeir sem byggja íbúðarhús í sveit séu í jafnmiklum fjárhagsvandræðum og þeir sem byggja íbúðarhús í þéttbýli. Ef farið væri út fyrir þessi mörk væri réttast að frv. fæli í sér almenna heimild til að breyta lausaskuldum landsmanna í föst lán, þ. e. þeirra sem gætu aflað veðs. Það er miklu stærra mál en svo að ég sjái fram úr því á þessari stundu.

Mér sýnist meira að segja að það sé jafnvel nokkuð frjálslega farið með að veita veðheimildir í brtt. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, þar sem að hann gerir ráð fyrir að t. a. m. fólki sem býr í leiguhúsnæði verði veitt heimild til að veðsetja hina leigðu eign. Þetta telur þm. e. t. v. að eigi að vera til samræmis við það að bændum sem búa á ríkisjörðum verði heimilað að veðsetja þær jarðeignir. Það stafar vitaskuld af því að í flestum eða öllum tilvikum eiga bændurnir sem eru ábúendur á þessum jörðum jafnvel meginhluta þeirrar eignar sem jörðinni fylgir. Það hefur ekki verið tíðkað að slíta þau veð í sundur eftir eignarhluta. Þess vegna er nauðsynlegt að slík heimild sé veitt. Það gegnir allt öðru máli ef tiltekinn maður leigir sér íbúð í þéttbýli — íbúð sem hann á ekkert í og getur þess vegna ekki með nokkru móti ætlast til að sé veðsett fyrir hans skuldum.

Ég efa það ekki, og það vitum við öll hér á hv. Alþingi, að fjárhagur ýmissa manna í þjóðfélaginu er með þeim hætti að þeir þurfa á aðstoð að halda eða hefðu fulla þörf fyrir aðstoð ef fjármagn reyndist til. Ég tel t. a. m. að það sé augljóst mál að ýmsir séu í vandræðum vegna íbúðakaupa eða íbúðabygginga. Það er út af fyrir sig sérmál sem hefur verið tekið á að nokkru en væri þörf á að taka á miklu betur. Ef það væri gert, að taka á því máli varðandi íbúðabyggingar og íbúðakaup, mundi það ná jafnt yfir launamenn og bændur. Þá mundu bændur einnig fylgja með og fullt samræmi vera í þeirri aðstoð við bændur og launamenn.

Það er sem sagt þarna sem skilur á milli. Annars vegar er um að ræða fyrirgreiðslu vegna atvinnurekstrar, sem margsinnis hefur verið veitt í þessu þjóðfélagi, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, og hins vegar hvort á að veita fyrirgreiðslur vegna lausaskulda fólksins í landinu almennt. Þá er nokkru lengra gengið en svo að í það verði ráðið hve mikla fjármuni er um að tefla og því síður hvað fólkið í landinu á yfir höfuð möguleika á að nota sér slíka fyrirgreiðslu og hefur til þess fullnægjandi veð.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vænti þess að reynt verði að hraða þessu máli og koma til móts við mikla þörf því að ástand í landbúnaði er sannarlega með þeim hætti að ekki er vanþörf á.