21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4012 í B-deild Alþingistíðinda. (3434)

196. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru ekki nema örfá orð sem ég sé ástæðu til að segja hér. Ég vil byrja á því að segja það að hv. 1. þm. Norðurl. v. kom í raun og veru inn á flest þau atriði sem ég vildi ræða um.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti sínar till. eftir að landbn. var búin að skila sínum till. Þar af leiddi að n. hefur ekki skoðað þessar till. á neinn hátt enda ekki ástæða til þar sem þær till. sem hann gerir hér sem brtt. eru komnar áður á sérstakt þskj.

En í sambandi við hans málflutning vil ég endurtaka það sem ég sagði í minni framsöguræðu að frá síðustu lausaskuldabreytingu í þágu bænda, sem var um áramótin 1979–1980, hafa farið fram tvær umferðir skuldbreytinga fyrir íbúðarbyggjendur. Hin fyrri fór fram 1981 og voru íbúðarlán viðskiptabanka og sparisjóða þá yfirleitt lengd í átta ár og svipaðri lánalengd að mestu haldið síðan á lánum ættuðum sem viðbótarlán.

Við valdatöku núv. ríkisstj. var boðið upp á tvenns konar lánalengingu fyrir húsbyggjendur, frestun fram yfir lánstímann á fjórðungi ársgreiðslu íbúðarlánanna og í öðru lagi lausaskuldabreyting vegna þeirra sem byggt hafa eða keypt íbúð í fyrsta sinn undanfarin tvö til þrjú ár. Þessi skuldbreyting hefur verið í gangi að undanförnu og upplýsingar um fjárhæðir liggja ekki fyrir en það liggur fyrir að hátt í 500 aðilar hafa fengið slík viðbótarlán í þessu skyni.

Á síðari hluta ársins 1982 og fram að áramótunum 1982–1983 fór fram víðtæk breyting lausaskulda sjávarútvegsins, ekki aðeins við lánastofnanir heldur einnig viðskiptaaðila útvegsins. Nam heildarbreyting 577 millj. kr. fyrir milligöngu viðskiptabankanna og með sérstakri fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands.

Ég vil að þetta komi fram vegna þess að í málflutningi hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar kom fram að verið væri að gera eitthvað sérstakt fyrir bændur sem aðrir þjóðfélagshópar nytu ekki. Þetta er alger misskilningur. Þess vegna vil ég endurtaka það sem ég sagði um þetta mál í minni framsöguræðu.

Ég þarf ekki að bæta neitt við það sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði í sambandi við 3. gr. laganna. En það er best að lesa hana hér upp eins og hún er til að sýna fram

„Heimilt er hlutaðeigandi ráðh. að leyfa ábúendum ríkisjarða að veðsetja ábúðarjarðir sínar til tryggingar lánum skv. lögum þessum, enda nægi eignir viðkomandi ábúenda í mannvirkjum á ábúðarjörðum þeirra eða öðrum tryggingarhæfum eignum.“

Náttúrlega er það alveg fráleitt að leyfa þeim sem eru í leiguhúsnæði veðsetningu á íbúðunum fyrir nýjum lánum. Hvað eiga þeir í því húsnæði? Þetta er ekkert hliðstætt, þetta er alveg út í hött. Ýmislegt væri hægt að segja í sambandi við þessa umr. að öðru leyti. Hún hefur verið mjög hófleg. Ég ætla ekki að drepa á fleiri atriði til að tefja ekki þetta mál. Ég verð þó að undirstrika það sérstaklega að landbúnaðurinn hefur nú farið í gegnum mjög mikil erfiðleikaár, köldustu ár aldarinnar. Þeir yngri bændur sem hafa byrjað búskap síðan 1975 hafa orðið að sæta allt öðrum lánakjörum en þeir sem voru byrjaðir og búnir með framkvæmdir áður. Ofan á þetta bætist það að markaðsaðstæður hafa verið þannig að menn hafa orðið að draga úr sinni framleiðslu enda þótt fjárfestingarnar hafi verið komnar áður, um 20% yfirleitt. Þess vegna er ekkert undarlegt þó að þungt sé fyrir dyrum margra bænda nú.

Í sambandi við eitt atriði sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og í sambandi við lánakjörin held ég að það verði að reyna að finna út hvernig þessi lánskjör þurfi að vera til þess að lánastofnanir vilji taka við þeim án affalla. Það verður að vera stefnan í þessum málum. Ég efast ekkert um að sú leið finnist. Hvort það verður nákvæmlega eins og till. n. sem fjallaði um þetta mál, það get ég ekki sagt til um á þessari stundu. Því miður efast ég um að það dugi en áreiðanlega verður reynt að framkvæma þetta á þann veg að tekið verði tillit til erfiðleika hjá bændum eftir því sem hægt er að koma því við og þessi lög heimila. — [Fundarhlé.]