21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4031 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

196. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það hafa verið bornar fram hér nokkrar spurningar til mín. Hv. 5. þm. Reykv. spurðist fyrir um afstöðu ríkisstj. til þessa máls. Það hefur komið hér fram að í síðasta mánuði sendi formaður nefndarinnar, sem vann að athugun á fjárhagsstöðu bænda, frá sér till. um það hvernig úrbótum skyldi háttað í framkvæmd. Þar er m. a. lagt til að útvegað yrði nýtt fjármagn, 60–80 millj. kr. Ríkisstj. samþykkti, eins og hér kom einnig fram, að stefna að því að unnt yrði að fara eftir þessum tillögum. Jafnframt var á þeim fundi viðskrh. falið að athuga málið í samráði við Seðlabankann, hvernig unnt yrði að verða við þessum tillögum sem aðstoðarbankastjórinn sendi frá sér.

Þessu máli er ekki lokið enn þá og ég get fullyrt það, að verði lagaheimilda þörf til að ná þessu markmiði, þá verður það að sjálfsögðu lagt fyrir Alþingi.

Hv. 7. þm. Reykv. kom víða við í sínu máli. Ég ætla að drepa á örfá atriði. Hann minntist hér á byggingu vinnslustöðva landbúnaðarins, m. a. nýja mjólkurstöð í Reykjavík. Það er ekki ætlunin að flytja mjólkurvinnslu af Suðurlandi með þessari byggingu. Hins vegar er þetta umfangsmesta heildsöludreifing hér á landi er mér óhætt að fullyrða, þannig að sú starfsemi sem fer fram í þessari byggingu eða á að fara fram í henni er fyrst og fremst heildsöludreifing. Það eru afgreiddar vörur daglega til 700–800 útsölustaða, og fjöldi vörutegundanna er á annað hundrað. Þarna er því vitanlega um gífurlega umfangsmikla starfsemi að ræða sem krefst góðrar aðstöðu til þess að hún geti gengið jafnhratt og þörf er á. Við vitum líka að þarna er um mjög viðkvæmar vörur að ræða sem útheimta á allan hátt góða aðstöðu. Þegar þau húsakynni sem nú eru í notkun voru byggð var það vitanlega ekki nema fyrir lítinn hluta af þeirri starfsemi sem þar fer fram núna. Þá held ég að vörutegundirnar hafi verið sex sem dreift var og umfang starfseminnar að öðru leyti eftir því.

Hv. þm. minntist á fleiri byggingar sem kæmu ekki að fullum notum vegna þess að markaðir hefðu hrunið. Það er því miður alveg rétt að það hefur komið æðioft fyrir hjá okkur að markaðir hafa hrunið svo að mannvirki, sem reist hafa verið til að nýta alla möguleika sem voru fyrir hendi á ákveðnum tíma, komu ekki lengur að notum. Við vitum öll um síldarverksmiðjur á Norðurlandi. Við munum, mörg hver a. m. k., eftir stóru skipi í Reykjavíkurhöfn sem keypt var til að vinna síld. Þannig mætti lengi telja. Því miður ráðum við hvorki yfir markaðsaðstæðum né t. d. sjávarafla hér í landi. Við sjáum ekki svo langt fram í tímann að við getum kannske ávallt hagað okkar fjárfestingu eins og hagkvæmast væri.

Hins vegar er augljóst að sláturhús þurfti að endurbyggja fyrir innlendan markað Íslendinga sjálfra, burtséð frá því hvort mikið er flutt út. En vitanlega verður reksturinn óhagkvæmari þegar nauðsynlegt er af markaðsástæðum að draga framleiðslu saman, eins og gerst hefur í sauðfjárframleiðslunni, þegar fé hefur fækkað á fóðrum um u. þ. b. 200 þús. núna á örfáum árum. En þetta sáu menn heldur ekki fyrir.

Hv. 7. þm. Reykv., sem taldi sig sérstakan sérfræðing í samvinnumálum, verður að hafa sína skoðun á því hvort samvinnufyrirtækin í landinu eru fyrst og fremst stofnuð og rekin til fjárplógsstarfsemi eins og hann orðaði það. Ég vísa slíku með öllu á bug og fullyrði að þessi félagasamtök eru tæki fólksins til þess að þjappa sér saman og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum.

Það kom a. m. k. fram mikill misskilningur hjá hv. 7. þm. Reykv. í sambandi við innlánsdeildir, að það væru einhverjar skuldir við þær. Innlánsdeildir kaupfélaga stunda enga útlánastarfsemi þannig að þar er ekki um neinar skuldir að ræða. Hins vegar hafa kaupfélög neyðst til þess að hlaupa undir bagga með bændum þegar þá skortir rekstrarfé og lána þeim vörur í viðskiptareikning, vitanlega í þeirri von að þeir geti greitt þær þegar afurðir koma, en í hinu harðnandi árferði síðustu ára hefur það brugðist því miður of mikið að afurðirnar yrðu nægar, og sérstaklega að framleiðslukostnaðurinn varð meiri, þannig að þarna er um að ræða vanda sem er orðinn mjög erfiður. Kaupfélögin hafa jafnvel mörg hver greitt rafmagnsreikninga fyrir bændur til þess að þeir þyrftu ekki að sitja í myrkri og kulda, jafnvel þó að þeir eigi þar ekki innistæður fyrir, en því eru vitanlega takmörk sett hvað slíkt getur gengið lengi. En þannig mun áreiðanlega töluverður hluti af þessum skuldum til kominn.

Hv. 7. þm. Reykv. lét undrun sína í ljós vegna þess að innlánsdeildir sætu ekki við sama borð og sparisjóðir. Nú mun það vera nákvæmlega sama regla sem hefur verið notuð við báðar þessar stofnanir í sambandi við endurkaup Seðlabankans, þ. e. það færi eftir heildarlánlánum hverrar innlánsstofnunar. Að því leyti er það sama regla sem gildir um alla, það er eingöngu stærð innláns eða innistæðu í viðkomandi innlánsstofnun. En þarna er ekki um að ræða neina lagasetningu, heldur er þetta samkomulag við Seðlabankann. Og það frv. sem hér liggur fyrir gerir ekki ráð fyrir neinni lagaskyldu. Það eru heimildir til útgáfu skuldabréfa og það er heimild sem skuldareigendur geta, ef þeir vilja, tekið upp í skuldir. En þetta byggist allt á frjálsu samkomulagi milli viðkomandi aðila og það er m. a. af þeim sökum sem það er ómögulegt fyrr en á reynir að gera sér grein fyrir því hver er hin endanlega upphæð sem hér er um að ræða.

Ég þori að fullyrða að viðhorf viðskrh. er það sama og mitt, að við treystum okkur ekki til að lögbinda það að hér skuli skuldabréf vera endurkeypt. Það sem ég segi hér er m. a. það að ég get ekki svarað því hversu mikið fjármagn er hér um að ræða. En þrátt fyrir það er nokkuð vitað um umfang málsins. Það voru rúmlega 600 bændur sem sendu umsóknir til veðdeildarinnar núna fyrir áramótin. Af því má nokkuð ráða hvað þetta verður umfangsmikið.

Það er vitanlega afstætt hvað á að kalla að mál séu afgreidd á skömmum tíma. Það eru þó nokkrar vikur síðan þetta frv. var lagt fram og þá óskaði ég eftir því að unnið væri að afgreiðslu þess eins vel og hægt væri, þ. e. á eins skömmum tíma og unnt væri, en lagði þó áherslu á að n. sú sem fengi það til meðferðar gæfi sér nauðsynlegan tíma til þess. Og það kemur mér á óvart ef neitað hefur verið um upplýsingar í n. Ég vænti þess að hv. 4. þm. Norðurt. e. hafi reynt að koma á framfæri þeim fsp. eða spurningum sem hv. 7. þm. Reykv. hefur óskað eftir að fá svar við. En vegna þess sem ég sagði áður, að ýmis framkvæmdaatriði þessa máls byggist á þeim heimildum sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þá verður ekki hafist handa um framkvæmd þess fyrr en frv. hefur verið samþykkt. Ég vænti þess að það geti gengið með þeim hraða sem mönnum sýnist fært að hafa á málinu hér á Alþingi, en það hefur komið fram í máli margra, m. a. hv. 4. þm. Norðurl. e. að hann teldi þörf á að fá þetta mál fram.