21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

196. mál, lausaskuldir bænda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni stórt og þýðingarmikið mál sem er brýn þörf á að ræða ítarlega og menn skiptist á skoðunum um eftir því sem þörf krefur. Hér eru enn margir þm. viðstaddir, sem vafalaust hafa eitt og annað til málanna að leggja, og þó nokkrir þm. sem enn hafa ekki kvatt sér hljóðs, þannig að sjálfsagt á umr. eftir að standa enn um nokkra stund. En ég ætla ekki að tefja umr. nú frekar en áður.

Ég ætla aðeins að víkja að því að við meðferð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar í fjh.- og viðskn. Nd. bauð ég upp á það fyrir hönd Alþb. að afgreiðslan á ábyrgðum vegna lausaskulda bænda yrði tekin með lánsfjárlögunum. Fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. í fjh.og viðskn. Nd. kærðu sig ekkert um að flýta málinu. Því var hafnað af formanni og varaformanni Sjálfstfl., sem þar voru í fyrirsvari fyrir n. og stjórnarliðinu þar, og af fulltrúa Framsfl. í fjh.- og viðskn. Nd. Stjórnarliðið hafði því á þeirri stundu, því miður vil ég segja, engan skilning á nauðsyn þess að hraða afgreiðslu þessa máls, svo sem fram hefur komið í máli hæstv. landbrh. fyrr í dag og í kvöld að nauðsynlegt sé. Þetta vil ég að komi hér skýrt fram vegna þess að mér finnst að afstaða Framsfl. í þessu máli sé nokkuð sérkennileg þar sem hann annars vegar neitar góðu tilboði stjórnarandstöðuflokks um að flýta málinu í gegn og hins vegar kvartar undan því að málið fái ekki nægilega greiðan gang í gegnum þingið. Ég harma að hæstv. landbrh. skuli lenda í flækju af þessu tagi, en það liggur engu að síður fyrir að áhugi Framsfl. á því að afgreiða málið hratt og fljótt í tengslum við lánsfjárlög var ekki til staðar þar sem boði Alþb. um það mál var hafnað.

Hitt málið sem ég ætlaði að ræða hér, herra forseti, er það, að nokkuð sérkennileg staða er komin upp í þinghaldinu í dag. Það er rætt um það við okkur stjórnarandstæðinga í morgun að á þessum sólarhring verði afgreidd úr deildum tvö eða þrjú mál, í fyrsta lagi vísitala framfærslukostnaðar, og það mál er þegar orðið að lögum, í öðru lagi lausaskuldir bænda, og það mál er nú hér til meðferðar, og í þriðja lagi tekjuskattur og eignarskattur, 7. umr. eftir breytingar sem gerðar voru á því frv. í Ed. Þegar þessi mál hafa verið til meðferðar hefur það yfirleitt alltaf komið í ljós í dag að hæstv. ráðh. sem hlut hafa átt að máli hafa átt ákaflega erfitt með að vera viðstaddir umr. og það hefur ekki orðið til að greiða fyrir gangi mála. Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því að ástæðulaust er fyrir stjórnarandstöðuna að láta bjóða sér að hún tali fyrir tómum sölum klukkutímum saman og stjórnarliðið og ráðh. nenni ekki svo mikið sem líta inn í salina nema stöku maður. (Gripið fram í: Það eru tólf í húsinu.) Þessi framkoma stjórnarliðsins er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Ég skora á hæstv. forseta Nd. og formann þingflokks Framsfl., sem hér situr enn uppi, en formaður hins stjórnarflokksins er sennilega farinn heim að sofa, að þessi mál verði tekin fyrir því það er þarflaust fyrir stjórnarandstöðuna að láta bjóða sér þetta. Það eru til aðferðir í þingstörfum sem koma í veg fyrir að svona vinnubrögð séu liðin. Ég held að það sé líka alveg óhjákvæmilegt að hér komi skýrt fram, a. m. k. af minni hálfu hvað svo sem öðrum liður í þeim efnum, að ef þingstörfin eiga hér í vetur að ganga með skikkanlegum hætti er nauðsynlegt fyrir menn að fara að átta sig á hvernig á að ljúka þessu þinghaldi. Mér finnst vinnubrögð hæstv. ráðh. og framkoma stjórnarliðsins í okkar garð í dag ekki bera þess vott að menn hafi neinn áhuga á að þingstörfin gangi með eðlilegum hætti.

Það ber að harma líka í þessu sambandi að þegar hv. þm. leggja fram efnislegar, skýrar og vel grundaðar athugasemdir og flytja mál sitt sterkum rökum er þeim aldrei svarað hér, nema með eftirgangsmunum. Þegar búið er að marghöggva í ráðh. aftur og fram, klukkutímum saman, m. a. í umr. um þingsköp, þá drattast þeir upp í ræðustólinn til að svara fyrir sig, og stundum er það gert bæði seint og illa, eins og í lánsfjárlagaumr. í gær eða í fyrradag. Hér er auðvitað um að ræða vinnubrögð sem eru algjörlega óþolandi af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það skal a. m. k. skýrt af minni hálfu.

Ég minni á að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur t. d. í dag borið fram mjög þýðingarmiklar spurningar. Ég hef ekki orðið var við að hann hafi fengið svör við þeim fyrr en hæstv. fjmrh. kvaddi sér hljóðs áðan. Ég tel að óeðlilegt sé að þannig sé málum farið. Það er ekki einasta að ráðh. og stjórnarliði sé að mínu mati skylt að svara spurningum, heldur er þeim líka skylt að taka þátt í efnislegum rökræðum um málin. Og það er ekki við hæfi að einstakir þm. veitist að öðrum þm. með skætingi og. offorsi, hverfi svo úr salnum og gefi mönnum ekki kost á að svara fyrir sig. Enn síður er það við hæfi þegar hæstv. ráðh. iðka þennan leik. Og enn síður er þetta við hæfi þegar svo er komið, eins og verið hefur í allan vetur, að stjórnarliðið hefur komist upp með þetta í skjóli þagnarinnar. Þjóðin hefur ekki hugmynd um þau vinnubrögð sem stjórnarliðið iðkar hér. Það er samviskusamlega þagað yfir þeim, m. a. í ríkisfjölmiðlunum, þannig að stjórnarliðið getur hagað sér hér að vild í þessu efni. Þessi framkoma er með öllu ólíðandi.

Ég vil, herra forseti, ítreka þá afstöðu okkar að málið sem um er að ræða, lausaskuldir bænda, fái efnislega og skjóta meðferð og málefnalega hér í þinginu. Þar hefur ekkert staðið á okkur, eins og ég gat um áðan, þar sem við buðumst til þess að hraða málinu mjög í gegnum þingið á dögunum. — En ég kem upp til að beina spurningu til hæstv. fjmrh. Af því að hann lét svo lítið að svara spurningum áðan vil ég beina til hæstv. fjmrh. spurningu til viðbótar við þá sem hann gerði tilraun til að svara áðan. Hún er þessi: Verður tekið erlent lán til að standa á móti breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán? Verður tekið erlent lán í því skyni? Mundi hæstv. fjmrh. vilja vera svo vænn að svara þessari spurningu meðan ég stend hér með jái eða neii? (Fjmrh.: Það hefur ekki verið rætt.) Það hefur ekki verið rætt. Það kemur sem sagt til greina að taka erlent lán? (Fjmrh.: Það er þín túlkun.) Já. En það er bersýnilegt að ráðh. hefur ekki gert það upp við sig og tetur greinilega að það komi til álita. Ég segi þetta vegna þess að bankastjóri Búnaðarbankans skýrði frá því í landbn. Nd., að mér er sagt, að bankinn hefði ekki fé til að skuldbreyta og það yrði þá að koma til erlent fé ef hann ætti að standa við þær kvaðir sem frv. gerir ráð fyrir. Ég minni á að hugmynd um erlent lán í þessu skyni jafngildir því, ef þetta eru 150 millj. kr., að hlutfallið fræga, sem var 59.2% í gær, fer upp í 59.45%. Það saxast á limina hans Björns míns stöðugt, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðh. eru hér að gefa.

Mér þykir mjög alvarlegt ef hæstv. fjmrh. er þannig á vegi staddur að hann sé að opna fyrir erlendar lántökur í þessu efni. Ég hygg að það hafi í rauninni aldrei gerst áður að fjmrh. hafi opnað fyrir slíkt. Ég tel að það sé ekkert annað sæmandi fyrir hæstv. fjmrh. en að koma nú eða við 3. umr. í ræðustól og lýsa því yfir að ekki komi til greina að tekin verði erlend lán í þessu skyni.

Herra forseti. Hér hefur verið rætt um þá tilhneigingu sem virðist hafa verið uppi á liðnum árum til að mismuna innlánsstofnunum í sambandi við breytingar á lausaskuldum bænda. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þá mismunun er að styðja þá till. sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur flutt og gert grein fyrir, þ. e. að þau skuldbreytingarlán sem hér yrði um að ræða verði endurkeypt af Seðlabankanum hvaða innlánsstofnun sem á í hlut. Ég tel þess vegna að þarna sé um að ræða ákaflega athyglisverða till. og ég bið hv. þm. um að hugleiða hana mjög vandlega, m. a. stjórnarliða, þannig að tekin séu af öll tvímæli og menn reki af sér óorðið með því að styðja þá hugmynd sem þarna kemur fram.

En ég fer fram á það að lokum við hæstv. fjmrh. að hann svari spurningu minni úr ræðustólnum fyrst hann treysti sér ekki til að gera það skýrt með frammíkalli áðan, eins og ég fór fram á við hann.