21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4043 í B-deild Alþingistíðinda. (3446)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil gagnrýna harðlega þann hátt sem hafður hefur verið á við umfjöllun um 129. mál þessa þings, þ. e. frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 21 frá 1983 um breytingu á þeim lögum. Þær gagnsæju blekkingar sem ríkisstj. hyggst bera á borð fyrir launafólk í tengslum við þetta mál eru ekki sæmandi. Hvernig dettur ríkisstj. í hug að launafólk treysti eða taki mark á fyrirætlunum hennar þegar hún stendur og skammtar þeim launahækkunarlús með hægri hendinni en klípur svo mestan hlutann aftur af með þeirri vinstri og hirðir til sín með hækkuðum sköttum? Þessi ríkisstj. hefur höggvið of lengi í sama knérunn og þegar gengið of hart að launafólki þessa lands, einkum því sem verst er sett, og er löngu mál að linni. Í von um að öll él birti upp um síðir og af bjartsýni og þrautseigju hefur fólk stutt þessa ríkisstj. En öllu eru takmörk sett og blöskrar nú fleirum en nýjum þm. Vil ég vitna í hv. þm. Ólaf Jóhannesson í umr. um þetta mál í Ed., með leyfi forseta:

„Þær röksemdir, sem nefndar hafa verið í þessu sambandi fyrir því að eðlilegt væri að hækka þessar skattaprósentur, að kaup hafi orðið nokkru hærra en reiknað var með, get ég ekki fallist á. Mér finnst þær óviðfelldnar í hæsta máta. Mér finnst óviðfelldið að ef fólk hefur fengið eitthvað hærra kaup en gert var ráð fyrir, þá sé veifað framan í það um leið að hluti af þessu verði tekinn aftur í stað þess að fara þá eðlilegu leið sem ætíð að tekjur þessa árs verði skattstofn næsta árs og þá verður fólk auðvitað að greiða af þeim hækkunum sem hafa orðið á kaupi ásamt öðrum sínum tekjum.“

Nei, þetta er ekki drengilegt háttalag og þeim mun síður vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur gefið margítrekaðar yfirlýsingar um það að skattar verði ekki hækkaðir. Ekki er þetta nú vinarbragð við neinn mann og gildir þá einu hvort hann er lítill eða stór. Gera verður þá kröfu til hæstv. ráðh. ekki síður en annarra þm. að þeir standi við arð sín. Í þessu sambandi vil ég enn fremur vísa til þess bréfs sem þingflokkum barst í dag frá forseta Alþýðusambands Íslands og formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Með leyfi forseta vil ég vitna í það bréf þar sem segir:

„Við viljum eindregið mótmæla þeirri aukningu á skattheimtu sem meiri hl. þm. Ed. hefur samþykkt. Í þessu sambandi skal vísa til þess, er skýrt kom fram í viðræðum um kjarasamning ASÍ og VSÍ, að ekki væri gert ráð fyrir aukinni skattheimtu. Þá voru og gefnar skýrar yfirlýsingar af hálfu fulltrúa fjmrh. í samningaviðræðum við BSRB um að auknar tekjur ríkissjóðs vegna almennra launahækkana næðu langleiðina til að brúa bilið milli áætlaðra útgjalda ríkissjóðs vegna launahækkana skv. fjárlögum og aukinnar hækkunar skv. þeim samningi sem undirritaður var 29. febr. s. l. Við lítum á þá auknu skattheimtu sem meiri hl. þm. Ed. samþykkti sem hreina ögrun við launafólk og skorum á ríkisstj. og Alþingi að falla frá þessari breytingu.“

Sem fulltrúi Samtaka um kvennalista hef ég áheyrnaraðild að fjh.- og viðskn. Nd. og stend að því nál. minni hl. sem þegar hefur verið flutt hér. Auk þess vil ég ítreka þá brtt. við þetta frv. sem ég flutti við fyrri umr. um þetta mál í Nd. ásamt Kristínu Halldórsdóttur, Guðmundi Einarssyni, Kjartani Jóhannssyni og Svavari Gestssyni hv. þm. Brtt. þessari er ætlað að auka við heimildarákvæði til lækkunar á tekjuskattsstofni. Þau ákvæði fjalla almennt um þá sem vegna aldurs, sjúkleika, eignatjóns eða verulega skerts gjaldþols geta ekki staðið undir skattbyrðum sínum. Og hljóðar brtt. svo:

„Aftan við 6. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna komi nýr tölul. sem orðist svo:

7. Ef gjaldþol manns hefur skerst verulega vegna atvinnuleysis, aflabrests eða af öðrum skyldum orsökum.“

Þessi brtt. er flutt vegna erfiðleika þeirra sem fólk lendir í þegar launatekjur milli ára lækka verulega. Lög um tekju- og eignarskatt taka nú ekkert tillit til aðstæðna fólks þegar svo stendur á að raunvirði launanna lækkar verulega milli ára án þess að fyrri liðir 66. gr. eigi við. Við núverandi efnahagsástand má búast við að fjölmargir launamanna lækki verulega í rauntekjum milli ára og verði gert ókleift að mæta þeirri skattbyrði sem á þá er lögð. Má í þessu sambandi taka dæmi af sjómanni á aflaskipi sem haft hefur verulegar tekjur á þessu ári en þarf að taka kvótaskiptingu samfara verulega lægri tekjum á næsta ári. Einnig má minna á landverkafólk sem horfir upp á aflabrest og tekjurýrnun og mögulega atvinnuleysi.

Meðan staðgreiðslukerfi skatta hefur ekki komist á verður ekki hægt að komast hjá sveiflum sem þessum. Vandi þessi er ekki nýr og hafa margir einstaklingar og fjölskyldur orðið fyrir honum. Hinar miklu samdráttaraðgerðir sem gripið hefur verið til upp á síðkastið kunna að leiða til þess að þetta tillitsleysi laganna við raunverulegar aðstæður bitni á enn fleirum en áður hefur gerst. Þess vegna er brtt. þessi flutt.

Þessi brtt. hefur verið tekin upp í brtt. minni hl. fjh.og viðskn. Auk þess styð ég þær brtt. sem minni hl. flytur að öðru leyti um lækkun á skattaprósentu og endurgreiðslu persónuafsláttar sem ekki nýtist til frádráttar til þeirra sem alverst eru settir í þjóðfélaginu. Sömuleiðis styð ég þá brtt. sem gerir fyrirtækjum að greiða sambærilegan skatt á við einstaklinga.

Það má svo sem skilja hvers vegna ríkisstj. grípur til þessa óyndisúrræðis sem hún hefur gert þó ekki sé hægt að samþykkja eða réttlæta það. Með því að beita forgangsröð offjárfestingar og óhófs — gamalreynd og úrelt forgangsröð það — hefur þessari ríkisstj. tekist að hanna fjárlög sem halda hvorki vatni né vindi. Auðvitað er ríkisstj. kalt og reynir að lappa upp í götin. En hún má ekki bara hugsa um sig og sína: Þá getur farið fyrir henni eins og köngulónni seinheppnu í sögunni forðum sem af skammsýni kippti undan sér lífsgrundvellinum með því að bíta sundur þráðinn að ofan, þann sem hélt uppi vef hennar.