21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson vill fá nánari upplýsingar af fundi þeim sem ég hef áður greint frá að ég átti með samningsaðilum í vinnudeilunni, þ. e. með fulltrúum Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands.

Þessir aðilar báðu um fund að morgni þriðjudagsins 21. febr. og ég bað Þorstein Pálsson, formann Sjálfstfl., að vera einnig á þeim fundi og hafði jafnframt með mér Þórð Friðjónsson, efnahagsráðgjafa ríkisstj., og Jón Sigurðsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar.

Ég greindi frá því hér fyrr í dag að á þeim fundi gerðu samningsaðilar okkur grein fyrir þeim samningum sem tekist hefðu og m. a. till. sinni um láglaunabætur. Þeir tóku jafnframt fram að þeir legðu á það áherslu að ekki yrði aflað tekna til þessara bóta með nýjum álögum. Frá þessu greindi ég í morgun og þetta er aðalatriði málsins.

Á þessum sama fundi gerðum við samningsaðilum grein fyrir því að þótt á þetta yrði fallist væri ríkisstj. að sjálfsögðu frjálst að afla tekna með sömu sköttum eða öðrum leiðum í sambandi við hina almennu efnahagsstjórn og þessu var ekki mótmælt. Ríkisstj. samþykkti á fundi sínum, sem hófst þegar eftir þennan fund með samningsaðilum, að verða við tilmælum fulltrúa ASÍ og VSÍ. Við, þessir sömu aðilar, ég ásamt formanni Sjálfstfl., Þórði Friðjónssyni og Jóni Sigurðssyni, kvöddum fulltrúana þá þegar á okkar fund, gerðum grein fyrir samþykkt ríkisstj. og endurtókum þá enn að að sjálfsögðu bindi þetta ekki hendur ríkisstj. í annarri fjáröflun vegna hinnar almennu efnahagsstjórnar.

Ég vona að ég hafi nú gert glögga grein fyrir þessu. Þessu var ekki mótmælt. Ég hef borið mig saman við formann Sjálfstfl. hvort hann muni eftir því að mótmælt hafi verið og hann minnist þess ekki heldur. Að sjálfsögðu er hv. þm. frjálst að ræða þetta við Þórð Friðjónsson og Jón Sigurðsson sem hann þekkir báða vel.