21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Því hefur verið ítrekað haldið fram í dag af ræðumönnum stjórnarandstöðunnar að núv. ríkisstj. hafi hækkað tekjuskatt á mönnum og það frv. sem hér er til umr. feli í sér allverulegar hækkanir á tekjusköttum. Ég hefði haldið að það ætti að vera óþarfi að mótmæla þessari röngu fullyrðingu enn einu sinni. Það hefur þegar verið gert á skýran og glöggan máta af hæstv. forsrh. og formanni Sjálfstfl. í dag, enda liggur það fyrir í skjölum málsins að greiðslubyrði tekjuskatta á þessu ári verður að meðaltali ekki hærri en greiðslubyrði tekjuskatta á síðasta ári þrátt fyrir þá breytingu sem lögð er til í því frv. sem fyrir liggur. Það ætti að vera óþarfi að þrátta um það á þessum þingfundi meira en orðið er.

En það er kannske ástæða til þess vegna þessara ummæla að minna á það í þessu sambandi að sú ríkisstj. sem við völdum tók nú fyrri hluta sumars hefur þegar lækkað en ekki hækkað tekjuskatta um 250 millj. kr. Það var gert með efnahagsráðstöfunum sem fólu m. a. í sér lækkun tekjuskatta einstaklinga, þ. e. sem sérstök hækkun persónuafsláttar og barnabóta, og þessi lækkun nam eins og ég tók fram 250 millj. kr. Jafnframt voru aðrir skattar lækkaðir á skattþegum, innflutningsgjald af bifreiðum var lækkað um 50 millj. kr., 10% álag á ferðamannagjaldeyri var lækkað sem nam 100 millj. kr., lækkun tolla og vörugjalds af ýmsum nauðsynjum námu 70 millj. kr., niðurfelling söluskatts af innfluttum vélum, tækjum og tölvum nam 80 millj. kr. Þessar skattalækkanir í heild ásamt tekjuskattslækkuninni sem ég nefndi námu alls 550 millj. kr. Það var það sem tekjutap ríkissjóðs nam vegna þessara skattalækkana sem af einhverjum ástæðum virðast hafa gleymst í umr. í dag. Þessar skattalækkanir hafa haft það í för með sér — en þar vegur lækkun tekjuskattsins mest — að innheimtir skattar eru nú 27% af vergri þjóðarframleiðslu á þessu ári. Skatttekjur ríkissjóðs námu 1981 28.8% af þjóðarframleiðslu, 1982 30.2% af þjóðarframleiðslu en munu nú aðeins nema 27% af þjóðarframleiðslu. Hér er því um 2.7% lægra skatthlutfall af þjóðarframleiðslu að ræða en 1982. Ég held að ástæða sé til að rifja þessi atriði upp þegar talað er hér ítrekað um tekjuskatts- og almennar skattahækkanir ríkisstj.

Fyrir síðustu kosningar lögðu fleiri en einn og fleiri en tveir flokkar á það áherslu og gerðu að allmikilvægu atriði í kosningastefnuskrám sínum nauðsynina á því að lækka tekjuskatt á skattþegnum. Sjálfstfl. var einn af þeim flokkum. Allar vonir stóðu til þess að aðstæður hefðu verið slíkar að unnt hefði verið að hefja framkvæmd þeirra fyrirheita sem þá voru gefin. Þegar núv. ríkisstj. tók við ríkisbúinu kom hins vegar í ljós að ástandið á því heimili var miklum mun lakara en nokkurn mann hafði órað fyrir áður en til kosninganna kom. Í öðru lagi bættust við þau gífurlega miklu efnahagslegu áföll sem öllum eru kunn. Afleiðingin af þessu er sú að ekki hefur verið unnt að hefja framkvæmd á þeim fyrirheitum sem voru gefin um lækkun tekjuskattsins. Það má hins vegar í þeirri stöðu, sem upp var komin eftir að ríkisstj. tók við völdum, teljast nokkur áfangi að unnt var þó að koma í veg fyrir að ríkissjóði yrði aflað aukinna tekna með hækkun tekjuskattsins. Hins vegar tókst og hefur tekist, eins og þetta frv. ber með sér, að ná því markmiði að hann stendur þó í stað en eykst ekki.

Hins vegar er alveg ljóst að það urðu mér og ugglaust mörgum öðrum vonbrigði að ekki var þegar á síðasta ári unnt að hefjast handa um lækkun þessa skattstofns. Ekki fer á milli mála að tekjuskatturinn er með ranglátustu sköttum sem á þessa þjóð eru lagðir. Hér er fyrst og fremst um launamannaskatt að ræða og þótt hann sé kannske ekki ákaflega há prósenta af tekjum ríkissjóðs, 10% eða svo, leggst hann engu að síður með miklum þunga á launamenn. Þess vegna er það verðugt markmið núv. ríkisstj. og núv. stjórnarflokka að vinna að því á næstunni að unnt verði að efna þau fyrirheit sem gefin voru um lækkun tekjuskattsins og um afnám hans í áföngum af almennum launatekjum.

Samtök launþega í landinu hafa ítrekað ályktað um nauðsyn þessa og ég vil í þessu sambandi minna á ályktun sem BHM gerði nú í marsbyrjun þess efnis að tekjuskattur verði afnuminn á almennum launatekjum og stefnt að afnámi hans með öllu. Ég vil taka undir þessa ályktun BHM og aðrar svipaðar sem gerðar hafa verið af launþegasamtökum landsins. Ég held að það eigi að vera og hljóti að vera forgangsverkefni fjmrh. og fjmrn. að gera tillögur um og undirbúa áfanga í þessu efni þannig að þessum markmiðum verði náð. Ég efast ekki um það eftir að hafa hlustað á umr. í þessari deild í dag, að í því efni mun ríkisstj. hljóta verðugt fylgi og verðugan stuðning stjórnarandstöðunnar.