21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4047 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. var að fara héðan úr stólnum. Það er fróðlegt fyrir hann að velta því fyrir sér, hvort nokkrar líkur eru til þess að eftir fáeina daga eða vikur komi inn í þingið frv. um hækkun skatta frá ríkisstj. Það er greinilegt að ríkisstj. á við verulegan vanda að glíma þar sem er hallinn á ríkissjóði á þessu ári og þó að tekjuöflun ríkissjóðs sé lágt hlutfall af þjóðarframleiðslu, eins og hv. þm. rakti áðan, eru útgjöld ríkissjóðs á þessu ári með hæsta hlutfalli af þjóðarframleiðslu sem verið hefur. Það er bersýnilegt að þetta bil verður að brúa og það verður ekki brúað nema með því í fyrsta lagi að leggja á skatta, í öðru lagi að skera niður framkvæmdir og spara og í þriðja lagi að taka lán til að reka ríkissjóð. Ríkisstj. hlýtur að vera að velta fyrir sér öllum þessum möguleikum varðandi það að brúa bilið. Hæstv. ráðh. hafa að vísu sumir lýst því yfir að ekki komi til greina að leggja á skatta til að brúa þetta bil. Mér skilst t. d. að hæstv. viðskrh. hafi látið þá yfirlýsingu frá sér fara á aðatfundi kaupmannasamtakanna núna nýlega, að því er blaðafréttir herma. En það var bersýnilegt á ummælum hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu í gærkvöldi að hann útilokar þann möguleika ekki að til skattahækkunar komi til viðbótar við þá hækkun sem hér er á ferðinni. Þess vegna held ég að sú vegferð sem hv. 2. þm. Reykn. hóf með kosningaloforðunum um að afnema tekjuskattinn eigi eftir að verða æðigrýtt, svo að ég segi ekki meira, í fylgd með ríkisstj. sem nú situr í landinu.

Það hefur margt athyglisvert komið fram í umr. hér í dag og í kvöld um tekju- og eignarskatt. Eitt af því athyglisverðasta eru ummæli hv. þm. Þorsteins Pálssonar fyrr í dag um umræðufund hans og forsrh. með forustumönnum verkalýðssamtakanna og Vinnuveitendasambandsins. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson komst svo að orði í ræðu sinni í dag, með leyfi forseta:

„Það var skýrt tekið fram af hálfu fulltrúa stjórnarflokkanna að þó að að þessu skilyrði yrði gengið varðandi millifærslu eða tilfærslu innan ríkissjóðs, þá mundi ríkisstj. á engan hátt binda hendur sínar til stjórnunar ríkisfjármála og annarra aðgerða á sviði tekjuöflunar eða breytinga á útgjaldaáformum.“

Ég heyrði ekki betur en hæstv. forsrh. væri að reyna að gefa sömu yfirlýsingu áðan. M. ö. o. er látið að því liggja að forustumenn launþegasamtakanna, sem hafa sent frá sér yfirlýsingu fyrr á þessum sólarhring, Kristján Thorlacius og Ásmundur Stefánsson, séu ósannindamenn vegna þess að í þeirra yfirlýsingu stendur, með leyfi forseta:

„Við viljum eindregið mótmæla þeirri aukningu á skattheimtu sem meiri hl. þm. Ed. hefur samþykkt. Í þessu sambandi skal vísað til þess, er skýrt kom fram í viðræðum um kjarasamninga ASÍ og VSÍ, að ekki væri gert ráð fyrir aukinni skattheimtu. Þá voru og gefnar skýrar yfirlýsingar af hálfu fulltrúa fjmrh. í samningaviðræðum við BSRB um að auknar tekjur ríkissjóðs vegna almennra launahækkana næðu langleiðina til að brúa bilið á milli áætlaðra útgjalda ríkissjóðs vegna launahækkana skv. fjárlögum og aukinnar hækkunar samkv. þeim samningi sem undirritaður var 29. febr. s. l.

M. ö. o. er ekki nóg með það að ríkisstj. gangi fram í því að hækka skatta þvert á það sem gert hefur verið ráð fyrir af þessum forustumönnum launþegasamtakanna, heldur bíta forvígismenn stjórnarflokkanna höfuðið af skömminni með því að lýsa forustumenn verkalýðssamtakanna ósannindamenn héðan úr þessum ræðustól. Hér er um að ræða gersamlega dæmalausa framkomu og ósæmilega með öllu og ég hlýt að harma að forustumenn stjórnarflokkanna, jafnvel þó að þeir eigi í hlut, komi fram með þessum hætti vegna þess að það er með vinnubrögðum af þessum toga verið að spilla stórkostlega fyrir þeirri samvinnu sem ævinlega þarf að eiga sér stað á milli ríkisstj. og forustumanna verkalýðssamtaka. Ég tel að ummæli hv. þm. Þorsteins Pálssonar og hæstv. forsrh. um misskilning forvígismanna verkalýðssamtakanna séu ákaflega sérkennileg í þessu sambandi. Og þau rök sem þeir flytja fyrir skattahækkunarfrv., sem sé þau að kauphækkanir hafi orðið meiri en gert hafi verið ráð fyrir, eru í rauninni engin rök. Í framhaldi af þeim mætti spyrja eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson gerði fyrr í dag: Hvað verður þá gert ef viðbótarkauphækkanir nást fram síðar á árinu? Verður þá enn breytt skattstiganum og enn hækkaðir skattarnir frá því sem hér er gert ráð fyrir? Röksemdir stjórnarliða í þessu máli eru ekki góðar og snjallar, eins og hv. þm. Gunnar Schram orðaði það áðan þegar hann var að vegsama leiðtoga sína, heldur eru þær hundalógík vegna þess að þær ganga ekki upp, þær bíta í skottið hver á annarri.

Fleira kemur til í þessum efnum sem væri fróðlegt að rekja og ætla ég að gera það með fáeinum orðum.

14. des. s. l. lagði ríkisstj. fram spá frá Þjóðhagsstofnun um þróun heildartekna 1983 og 1984 og um þróun skatta á þessum tveimur árum. Í þeirri spá er gert ráð fyrir að heildartekjur á landinu öllu, einstaklinga á þessu ári, verði 42.1 milljarður kr. og að hækkunin frá árinu 1983 verði 17.6%. Samkv. fjárlögum og sömu upplýsingum Þjóðhagsstofnunar frá því í des. var gert ráð fyrir að skattar hækkuðu ekki um 17.6% eins og tekjurnar á milli ára, sem hefði verið eðlilegt, heldur hækki skattarnir á milli ára, og það eru skattar til ríkisins, um 18% en ekki 17.6% og verði 2390 millj. kr. Skv. spánni í des. er sem sagt gert ráð fyrir að skattar hækki hlutfallslega meira á milli áranna 1983/1984 en Þjóðhagsstofnun sjálf telur að nemi hækkun heildartekna einstaklinga.

Ef við lítum svo á spána frá því í mars 1984 og veltum fyrir okkur hvort þarna hafi verið um að ræða rangan útreikning og mistök í des. lítur dæmið þannig út, að nú er gert ráð fyrir að heildartekjur á þessu ári verði 43 milljarðar 170 millj. og hafi hækkað frá síðasta ári um 20.6%. Í sömu töflu Þjóðhagsstofnunar dags. 12. 3. 1984 er gert ráð fyrir að skattar verði 2460 millj. eða hækki ekki frá fyrra ári um 20.6% eins og tekjurnar heldur um 21.5%. Hér er auðvitað um býsna athyglisvert atriði að ræða vegna þess að það er greinilega sama tilhneiging í báðum tilvikunum, að skattahækkunin er ívið meiri skv. tölum ríkisstj. sjálfrar en tekjuhækkuninni nemur.

Það er einnig athyglisvert í þessu sambandi og í framhaldi af þessum tölum að virða það fyrir sér að í fjárlögum ársins 1984 nema tekjuskattar einstaklinga 2390 millj. kr. Samkv. till. hér eiga þessir skattar að nema 2460 millj. kr. Hækkunin er 70 millj. kr. og hún er umfram fjárlög. Það skyldi þó ekki vera að hæstv. fjmrh., hinn hugprúði riddari gegn aukafjárveitingunum, ætli að nota þessar 70 millj. til að standa undir aukafjárveitingum eða hvað — eða ætlar hann að salta þessa peninga í Seðlabankanum, þær 70 millj. sem þarna ber á milli fjárlaga annars vegar og þeirra tillagna sem hér eru hins vegar? Hér er bersýnilega um það að ræða að verið er að taka nokkru meira fé en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum sem voru samþykkt fyrir skömmu. Það er bersýnilega um það að ræða og útilokað fyrir menn að mótmæla því.

Þegar þetta dæmi er gert upp er það hins vegar greinilegt að hækkun skattanna í beinum krónum frá upphaflegum áætlunum til þeirra sem nú liggja fyrir er upp á 2.88%. Það er tala sem ekki lætur mikið yfir sér, miðað við þau stóru verkefni sem ég fullyrði að blasi við ríkisstj. í sambandi við annan efnahagslegan vanda sem nú er um að ræða og hún hefur sjálf gert grein fyrir.

Í rökstuðningi ríkisstj. með þessu skattahækkanafrv. er vitnað til kjarasamninga ASÍ og BSRB. Það hefur komið fram að kjarasamningar BSRB kosti ríkissjóð brúttó 220 millj. kr. Frá því dragist síðan tekjur af veltusköttum upp á ca. 200 millj. kr., þannig að nettóútgjöld ríkisins vegna þessara samninga séu upp á um það bil 20 millj. kr. Það er greinilegt að með þessu frv. hér, þó að það láti lítið yfir sér, er ríkisstj. ekki aðeins að ná inn öllum kostnaðaraukanum sem stafar af samningum BSRB, heldur nokkru meira eða um það bil 50 millj. kr. umfram það. Það er fróðlegt að athuga að sömu daga og við erum að fjalla um þetta mál hér með þessum hætti er ríkisstj. að henda út úr ríkissjóði 25 millj. kr. handa einu fyrirtæki eða helmingnum af þeim ávinningi sem er um að ræða skv. þessu frv. eins og það hér liggur fyrir, þ. e. með styrk til Flugleiða. Flugleiðum verður gefinn helmingurinn af þeirri skattahækkun sem ríkisstj. er að þræla í gegnum þingið með kvöld- og næturfundum. Þessar tötur segja margt um núv. ríkisstj.

En fleira er í þessu efni sem nauðsynlegt er að rifja upp í þessari umr. Það er gert ráð fyrir að skattar opinberra aðila á þessu ári verið 5910 millj. kr. eða 13.7% af tekjum greiðsluárs. Á síðasta ári voru þessir skattar 12.5% af tekjum greiðsluárs. Þannig hefur ríkisstj. með ákvörðunum sínum ákveðið skattahækkun í landinu upp á 431 millj. kr. Hér er um að ræða nettóskattahækkun upp á u. þ. b. 430 millj. kr. Nú segja hv. talsmenn ríkisstj. og hæstv. ráðh.: Ja, hér er fyrst og fremst um að ræða sveitarfélögin. Það eru þau sem eru að taka skatta umfram það sem var í fyrra. Svarið við þeirri fullyrðingu er að það er rétt að hér eiga sveitarfélögin verulegan hlut að máli. En hvaða sveitarfélag er það sem vegur hér þyngst? Hvaða sveitarfélag er það sem vegur þyngst í skattaálagningunni í landinu annað en það sveitarfélag þar sem hæstv. núv. fjmrh. var forseti í sveitarstjórninni, þ. e. borgarstjórn Reykjavíkur, fyrir örfáum mánuðum? Þar er gengið lengst í skattahækkunum. Þegar þetta er lagt saman verður niðurstaðan sú að lagt er á landslýðinn 430 millj. kr. meira skv. tölum Þjóðhagsstofnunar en gert var á árinu 1983. Þetta eru staðreyndir. Þetta eru tölur sem liggja fyrir í opinberum gögnum.

Ríkisstj. getur haldið því fram að erfitt sé fyrir hana að leiðrétta þessa miklu álagningu sveitarfélaganna. Til þess hefur hún þó ýmis ráð, m. a. nýtingu ónýtts persónuafsláttar upp í útsvar umfram það sem gert hefur verið. Og hún hefur einnig pólitísk tök. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Þorsteinn Pálsson hafi heyrt getið um mann sem heitir Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík. Það er bersýnilegt að sú ákvörðun um skattahækkun í Reykjavík, sem tekin hefur verið, er studd af forustu Sjálfstfl. Hún er studd af hæstv. fjmrh. úr skattalækkunarflokknum. Hún er studd af hv. þm. Þorsteini Pálssyni. Íhaldið hér á Alþingi ber því ábyrgð á þeim gífurlegu skattahækkunum sem borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík er að innleiða með útsvarsálagningu sinni á þessu ári.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson og hæstv. fjmrh. hafa komist þannig að orði, bæði héðan úr þessum ræðustól og í opinberum fjölmiðlum, að við Ólafur Jóhannesson höfum lagt til að skattar hækkuðu um meira en hér er gert ráð fyrir, þeir yrðu 600 millj. kr. hærri en hér eru hugmyndir um. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson orðaði það þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef hér hefði verið beitt þeirri aðferð, sem hv. 3. þm. Reykv. var að leggja til að gert hefði verið, að leggja á skatta s. l. árs með óbreyttum hætti, þá hefðu verið teknar hér 600 millj. kr. til viðbótar af skattgreiðendum.“

Þetta er orðrétt haft eftir hv. þm. Þorsteini Pálssyni. Hann segir að ég hafi verið að leggja það til að hér hefði verið tekið 600 millj. kr. meira. Hér er um dólgslegan útúrsnúning að ræða. Ef hv. þm. Þorsteini Pálssyni dettur í hug að bera svona þvælu á borð úr þessum ræðustól bið ég hann að horfa augnablik á tölulegar staðreyndir, sem sé þær að á árinu 1983 voru skattar ríkisins 2025 millj. kr. Hækkunin sem þið stjórnarliðar eruð að leggja til er upp á 2460 millj. kr. eða talsvert meiri en nemur tekjuhækkuninni á milli ára eins og ég gat um.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa upplýst að þeim hafi dottið í huga að taka 600 millj. kr. í viðbót og það hafi verið rætt í ríkisstj. í fullri alvöru, hafi sem sagt verið gert ráð fyrir að skattarnir færu ekki upp í 2460 millj., heldur upp í 3060 millj. kr. og hækkuðu þannig milli áranna 1983 og 1984 um 50% eða nákvæmlega 49.98% og að þessi hækkun á sköttunum ætti sér stað á sama tíma og tekjur hækka í landinu um 20.6%. Þetta voru þeir að bollaleggja í stjórnarráðinu, þessir piltar, og ræddu um þessa miklu skattahækkun á milli áranna 1983 og 1984 þrátt fyrir þá gífurlegu kjaraskerðingu sem gert hafði verið ráð fyrir. Og þegar þeir eru teknir í bælinu, svo að segja, og bent á hvað þeir eru hér að gera, leggja hér til skattahækkun, koma þeir og segja: Hv. þm. Svavar Gestsson og Ólafur Jóhannesson eru að leggja til að skattarnir verði hækkaðir um 600 millj. kr. Hér er auðvitað um svo yfirgengilegan málflutning að ræða að það sæmir ekki einu sinni talsmönnum Sjálfstfl., í þeirri þröngu og vondu stöðu sem þeir eru í núna, að bera svona þvætting fyrir sig.

Ég held, herra forseti, að staðreyndirnar í þessu máli liggi þess vegna mjög skýrt fyrir. Ríkisstj. er að taka aukna skatta frá því sem gert hafði verið ráð fyrir upp á 70 millj. kr. Hún er í öðru lagi að stuðla að því með stefnu sinni að skattar til opinberra aðila verði 430 millj. kr. hærri 1984 en þeir hefðu átt að vera miðað við sama álagningarstig og var 1983. Þeir eru í þriðja lagi að bera fyrir sig að það séu hinir lágu kjarasamningar verkalýðssamtakanna sem geri nauðsynlegt að kroppa í þessa aura aftur. Með þeim hætti eru þeir að segja upp sinni hlið kjarasamninganna. Þeir eru að sýna fram á að þeim er ekki treystandi þegar allt kemur til alls í viðtölum við verkalýðssamtökin hér í landinu. Ég tek meira mark á þeim yfirlýsingum sem hér liggja fyrir frá forustumönnum verkalýðssamtakanna en þeim ítrekaða áburði forráðamanna stjórnarflokkanna hér í dag og í kvöld að forvígismenn launaþegasamtakanna í landinu séu ósannindamenn í þeirri yfirlýsingu sem hér liggur fyrir.

Ég tel þess vegna að framganga ríkisstj. í þessu máli sé öll hin hraklegasta. Henni væri sæmst að hætta að reyna að knýja málið í gegn með þeim hætti sem hér er nú gert og taka málin til endurskoðunar og athugunar á milli umr., þannig að málið fengi enn frekari meðferð. Okkur munar ekki um að bæta við 8. og 9. umferðinni, sem er gert ráð fyrir í þingsköpum eins og kunnugt er. Hringlandahátturinn í þessu máli er alveg yfirgengilegur.

En það alvarlegasta í umr. í kvöld og í dag er að mínu mati að það skuli hafa verið borið á forvígismenn launþegasamtakanna að þeir séu í yfirlýsingum sínum ósannindamenn þegar þeir tala um að það hafi verið gengið á bak yfirlýsinga með þeirri hækkun á skattheimtu sem hér er um að ræða. g er sannfærður um að vinnubrögð af þessum toga geta dregið dilk á eftir sér.