01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá hv. þm. sem ég sagði. Ég svaraði aðeins spurningunum sem eru á þskj., en fór ekki að búa til spurningar fyrir hv. þm. Ég skal lesa upp þessar spurningar og hvort ég hafi ekki svarað þeim eins skilmerkilega og hægt var. Fyrsta spurningin er svona:

„Á hvern hátt eru byggingar Osta- og smjörsölunnar, sem nú eru að rísa, fjármagnaðar?“

Svarið var: Hjá Osta- og smjörsölunni eru engar byggingar að rísa. (Gripið fram í: Skiptir fyrirsögn ekki máli?) Það eru spurningarnar sem skipta máli.

„2. Hve miklu fjármagni hefur verið varið til þessara bygginga?“

Þarna er ekki um að ræða byggingar í miðjum klíðum, en samt sem áður tilgreindi ég það eins skýrt og ég gat hver byggingarkostnaður hefði verið af byggingum Osta- og smjörsölunnar.

3. og 4. spurning: „Hve miklu fjármagni hefur verið varið til bygginganna á árinu 1983 og hve miklu á að verja á árinu 1984?“ Svarið er „ekkert“ því að ekki er neitt í byggingu.

En ég er reiðubúinn að svara spurningum um Mjólkursamsöluna þegar þær koma fram og ég vænti þess að hv. þm. muni þá bera þær fram. Ég vænti þess að ég geti svarað þeim eins skýrt og ég tel mig hafa svarað þeim spurningum sem eru á þessu þskj.