21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í ágætum greinaflokki í Morgunblaðinu á s. l. hausti eftir prófessor Ólaf Björnsson gerði hann að umræðuefni aðferðir í kjarasamningum á undanförnum árum og lýsti þeim eftirminnilega með einu orði, að þeir hefðu einkennst af hinni svokölluðu „snuðtúttuaðferð“. Það sem hann átti við var einfaldlega að vinnuveitendur og ríkisvaldið sem vinnuveitandi hefðu iðulega skrifað undir kjarasamninga sem væru umfram greiðslugetu atvinnuvega og þetta hefði verið gert vísvitandi í trausti þess að þeir sem launin áttu að greiða gætu síðan komið til ríkisstj. með bakreikning. Hann lýsti því að vinnuveitendur gengju iðulega á fund ríkisstj. og segðu: Við höfum nú skrifað undir kjarasamninga sem fyrirtækin geta ekki staðið við. Ef þessum aukakostnaði verður ekki velt út í verðtagið mun það leiða til stöðvunar og hafa aðrar hörmulegar afleiðingar fyrir launþega sjálfa. Við ætlumst þess vegna til þess að ríkisvaldið undirskrifi samningana með þeim hætti að öllum kostnaðinum verði velt út í verðlag með gengislækkunum og öðrum aðferðum. Þannig að að lokum var skv. þessari snuðtúttuaðferð þannig bundið um hnútana að launþegum var gert sjálfum að greiða þær launahækkanir sem þeir höfðu nýlega tekið við. Skv. þessari aðferð voru laun hækkuð í krónutölu um 3000% á tíu árum þótt raunveruleg kauphækkunaráhrifin í kaupmætti mæld væru brotabrot af þessu. M. ö. o. launþegum var gert sjálfum að greiða reikningana.

Nú var það eitt meginviðfangsefni núv. hæstv. ríkisstj. að þessari snuðtúttuaðferð skyldi varpað fyrir róða. Hér eftir skyldu engir baksamningar gilda. Þess vegna lýsti ríkisstj. því yfir að hún hefði sett hinn fræga ramma um greiðslugetusvigrúm til kauphækkana og það skyldi vera á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins að semja innan þessa ramma og engir bakreikningar skyldu koma.

Það var að vísu frægt að þegar til kjarasamninga var gengið var það gert í fjarveru hæstv. fjmrh. og hann taldi að ramminn hefði verið sprengdur. Engu að síður er það staðreynd — og það má hafa mörg ummæli hæstv. ráðh. um það — að þeir lýstu ánægju sinni með gerða kjarasamninga, lýstu því yfir að þeir hefðu verið gerðir af ábyrgðartilfinningu, lýstu því yfir að að svo miklu leyti sem farið hefði verið umfram þrengstu mörk skiptu þau svo litlu máli `að niðurstaða kjarasamninganna væri viðunandi, þetta væri sigur fyrir ríkisstj. Ráðh. og talsmenn ríkisstj. hver á fætur öðrum mæltu með því að þessir samningar yrðu undirritaðir.

M. ö. o. lá alveg ljóst fyrir að nú átti ekki að grípa til neinna bakreikninga. Með hliðsjón af þessu hlýtur það að vekja furðu í öllum þessum umr., sem orðið hafa út af till. stjórnarflokkanna til þess að hækka aftur skattstiga eftir kjarasamninga, hvað raunverulega fyrir þeim vakir. Það er upplýst að ríkissjóður muni taka í sinn hlut vegna þessara breytinga 70 millj. kr. Sjálfir höfðu talsmenn ríkissjóðs lýst því yfir að kostnaður ríkissjóðs vegna samninganna við BSRB væru nettó 20 millj. kr. Þannig að ríkissjóður hyggst nú taka í viðbót umfram það sem kjarasamningarnir við BSRB kostuðu 50 millj. kr.

Nú er spurningin ekki fyrst og fremst efnahagslegs eðlis. Þessi upphæð skiptir engu máli að því er varðar efnahagsstefnu ríkisstj. Þar erum við að ræða um tölur sem eru svo margfalt, margfalt stærri að þessi upphæð skiptir engu méli að því er varðar það hvort efnahagsstefna ríkisstj. er nær því að standast eða ekki. Við höfum á undanförnum dögum verið að ræða það að fjárlög ríkisins eru úr böndunum. Þar erum við að tala um tæpa tvo milljarða kr. Það liggur alveg ljóst fyrir að lánsfjárlög sem nýlega eru afgreidd eru óraunsæ með sama hætti þannig að þar stendur út af óbrúuð lánsfjárþörf sem nemur varlega áætlað á bilinu 1–1.5 milljarða kr. Við vorum fyrr í kvöld að hlýða á yfirlýsingu hæstv. landbrh. sem sagði að það væri til umr. við Seðlabankann með hverjum hætti yrði útvegað nýtt fé að upphæð 60–80 millj. kr. og þannig mætti lengi telja. M. ö. o. þessi aðgerð ríkisstj., að koma samningsaðilunum í opna skjöldu eftir á með því að ríkissjóður ætlar að taka til sín meiri fjármuni en samningar BSRB kostuðu, láta m. ö. o. opinbera starfsmenn greiða sjálfa þá kauphækkun sem þeir fengu, hún þjónar engum efnahagslegum tilgangi.

En hvaða pólitískum tilgangi þjónar þetta þá? Það er spurning sem ég fæ satt að segja ekki til að ganga upp. Að vísu vita menn að hæstv. fjmrh. var í mikilli fýlu þegar samningarnir voru gerðir og ríkisstj. féllst á niðurstöður þeirra að honum fjarverandi. Manni kemur helst í hug sú sálfræðilega skýring að þetta sé partur af innanhúsdrama ríkisstj., að hæstv. fjmrh. sé enn að skeyta skapi sínu á þeim sem lögðu blessun sína yfir það að farið var lítils háttar yfir rammann. En hvort sem sú skýring er rétt eða ekki þá skiptir það ekki máli. Mér sýnist niðurstaðan vera fyrst og fremst sú að aðgerð af þessu tagi styðst ekki við nein efnahagsleg rök, hún þjónar engum efnahagslegum tilgangi. Hún þjónar þeim einum tilgangi að efna til illinda og úlfúðar, magna upp óánægju og stefna í tvísýnu þeim kjarasamningum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa hver á fætur öðrum lýst ánægju sinni með. Vafalaust verður að segja að út frá markmiðum efnahagsstefnu ríkisstj. hafi þeir vissulega verið innan þess ramma sem ríkisstj. gat gert sér vonir um, enda þarf ekki annað en að vitna til þeirra eigin orða um það, að þeir lýstu ánægju sinni með þá.

Ég hefði haldið að ríkisstj. væri nú í þeirri stöðu að hún ætti að forðast þetta fyrst og fremst eins og heitan eldinn. Vandamálin sem á henni brenna eru mörg, þar er fyrst og fremst við hana sjálfa að sakast. Hún hefur teflt þeim takmarkaða og tímabundna árangri, sem hún hefur náð í viðureigninni við verðbólguna, í tvísýnu aftur vegna þess að hún hefur ekki sjálf efnt það sem á eftir þurfti að koma, þ. e. hún hefur ekki komið sér að því verki að snúa sér að öðrum þáttum efnahagslífsins, hún hefur ekki ráðið við að haga ríkisbúskapnum í samræmi við þessa efnahagsstefnu. Hún hefur svikist um að gera þær róttæku breytingar sem hefði þurft að gera í fjárlagabúskapnum. Hún hefur ekki komið sér að því verki að standa við gefin fyrirheit um niðurskurð og sparnað í ríkisrekstri, hún hefur ekki komið sér að því verki að breyta neinu sem máli skiptir í sambandi við fjárfestingarstýringu og það er þar sem vandinn liggur.

Út af fyrir sig liggur alveg ljóst fyrir að þessi aukna tekjuöflun ríkissjóðs skiptir m. ö. o. efnahagslega séð engu máli fyrir ríkissjóð, breytir engu til eða frá í því hrikalega dæmi sem þar er um að fjalla. Hins vegar skiptir þessi breyting miklu máli fyrir einstaka launþega sem gengu að kjarasamningum í þeirri trú að þeir skattstigar, sem birtir höfðu verið og yfirlýst var að ríkisstj. hygðist standa við, stæðu. Þeim er hins vegar breytt óvænt á seinustu stundu og eftir á og þannig launþegum og verkalýðssamtökum komið í opna skjöldu.

Ég ætla ekki að hafa nein orð um það sem er fullyrðing á móti fullyrðingu, annars vegar af hálfu hæstv. forsrh. og formanns Sjálfstfl. og hins vegar forustumanna launþegasamtakanna, um nákvæmlega hvaða orð þeim fóru í milli. En ekki fer á milli mála að af hálfu launþegasamtakanna var gengið til þessara mjög svo hófsamlegu kjarasamninga í þeirri trú að þær forsendur, sem þá voru þekktar um skatta og skattbyrði, mundu standast. Við þau fyrirheit hefur ekki verið staðið og ég er hræddur um að stjórnarflokkarnir séu ekki búnir að bíta úr nálinni með afleiðingarnar af því.