21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4056 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sá ástæðu til að halda mjög langa ræðu um Flugleiðir og ég teldi út af fyrir sig ástæðu til að fara ítarlega út í það sem hann sagði í þeim efnum. Ég ætla að láta það standa eftir í bókum Alþingis að niðurfelling lendingargjalda Flugleiða núna er gjörsamlega ósambærileg við það sem tíðkaðist í tíð síðustu ríkisstj., fyrst og fremst vegna þess að þá var um að ræða mjög verulegan halla á fyrirtækinu, sérstaklega á Norður-Atlantshafsfluginu, sem þáv. ríkisstj. og Alþingi ákváðu að koma til móts við. Nú er hins vegar um að ræða gullöld og gleðitíð, að dómi forráðamanna Flugleiða, og þess vegna ætti að vera óþarfi, þegar þrengir að ríkissjóði líka úr öðrum áttum, að samþykkja sérstaka styrki handa þessu fyrirtæki. Einu rökin í málinu eru að mínu mati hins vegar þau, og þess vegna greiddi ég ekki atkv. á móti þessari till. við meðferð málsins hér í þinginu, að samgrh. Lúxemborgar lýsti því yfir að því aðeins mundu þeir fella niður lendingargjöld að hið sama yrði gert hér á landi. Það eru þau rök sem gilda í málinu.

Varðandi ummæli hæstv. fjmrh. um skattahækkanir þær sem hann beitir sér fyrir ætla ég ekki að bæta miklu við þau gildu rök sem stjórnarandstaðan hefur þegar flutt í því máli úr þessum ræðustól. Hæstv. fjmrh. vill auðvitað ekki hlusta á að hann sé að hækka skatta. Hann vill ekki viðurkenna það. Hann ber höfðinu við steininn. En staðreyndirnar tala sínu máli um hækkandi tekjur ríkissjóðs. Það er greinilegt að fjmrh. fær út úr þessu brölti, m. a. 7. umr. sem hér stendur yfir, 70 millj. kr. umfram það sem fjárlögin gera ráð fyrir. Þannig er fjmrh. bersýnilega að reyna að tína til sprek upp í gatið stóra með þeim tillöguflutningi sem hér er verið að fjalla um. Þannig getur hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson ekki vikið sér undan því að hann stendur nú frammi fyrir þeirri staðreynd, þegar þann 22. mars 1984, að hann er búinn að gera margar till. um verulegar skattahækkanir á sama tíma og hann hefur lýst því yfir aftur og aftur að hann ætli aldrei að hækka hér skatta. Hygg ég að fáir menn hafi gefið yfirlýsingar með jafnstórum orðum sem hafa staðið jafnstutt og hæstv. fjmrh. hefur gert.