22.03.1984
Sameinað þing: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

184. mál, friðarfræðsla

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það var undarlegt að hlusta á jafnyfirgripsmikla og heimspekilega ræðu og ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur um svokallaða friðarfræðslu með tilvitnunum í ýmsa hugsuði úr tímanna rás, en án þess að minnast einu orði á þann sem kallaður hefur verið friðarhöfðingi, Jesú Krist, — hann sem við byggjum okkar siðfræðslu á. Friðarfræðsla sem er kynnt án orðsins sem Biblían er grundvölluð á er ekki traustvekjandi. Tilfinningin segir manni að þar sé á ferðinni tískutildur rótleysis og ótta. Það er ekki boðlegt að tala eins og engin friðarfræðsla eigi sér stað í skólum landsins, á heimilum landsins. Grunntónninn í fræðslu okkar er friður og mér finnst átakanlegt að bera kennurum þessa lands það á brýn að þeir sinni ekki því er snertir kennslu um frið, kennslu um kærleika, kennslu um rétt hvers manns til að hugsa sjálfstætt, framkvæma sjálfstætt, svo fremi að hann gangi ekki á rétt næsta manns. Í mínu starfi sem kennari og af kynnum mínum af kennurum þessa lands get ég fullyrt að friðurinn er sá þáttur sem er í öndvegi allrar umræðu þegar grannt er skoðað. Það á að kalla hlutina réttu nafni og ef menn vilja auka friðarfræðslu væri nær að auka kennslu í kristnum fræðum, kenna orðið sem leggur áherslu á reisn og djörfung í anda þakklætis, auðmýktar og lítillætis. Nær væri að tala hér um kristnifræðslu en friðarfræðslu. Boðskapurinn um Jesú Krist á ekki að vera neitt feimnismál og það á ekki að setja neitt froðusnakk fram fyrir hann. Jesús Kristur gerði greinarmun á þeim friði sem hann kom til að gefa og þeim friði sem heimurinn gefur. Hann sagði, með leyfi forseta:

„ . . minn frið gef ég yður; ekki gef ég yður, eins og heimurinn gefur.“ Þetta er úr Jóhannesarguðspjalli, 14. kapítula.

Það má einnig minna á það sem Páll postuli segir í Rómverjabréfinu, í 14. kapítula, með leyfi forseta: „Því ekki er guðsríki matur og drykkur, heldur réttlæti og friður og fögnuður í heilögum anda.“

Hvað eru menn að tala um nýja friðarfræðslu hjá börnum þessa lands? Á að fara að kenna 4, 5, 6 eða 7 ára börnum á dagheimilum og í skólum harðvítuga pólitík hversdagslífsins í alþjóðamálum? E. t. v. eigum við von á eftirfarandi auglýsingu í fjölmiðlum: „Á morgun kl. 2 hefst ráðstefna fyrir 4–6 ára börn. Fjallað verður um Equador, Afganistan og Suður-Afríku.“

Í ræðu hv. l. flm. þáltill. um friðarfræðslu fannst mér eins og allt heyrði til ófriðar í okkar landi, að orðið „friður“ væri nýyrði en ekki sú kjölfesta sem kristið uppeldi byggir á. Enginn ætla ég að sé á móti friði. En friðarhreyfingar eru eins misjafnar og mennirnir eru margir og víða sér merki pólitískrar mengunar. Á meðan maðurinn fær að njóta þess að hugsa verður ágreiningur á milli manna og meginhluti lífsins fer í að halda frið í stóru og smáu. Það sem einum finnst friður er ófriður í augum annars, eins og sannleikurinn er hvers manns mat. Samt getum við verið sammála um að elska friðinn. En það er ekki þar með sagt að sjónarmiðin rekist ekki á. Og hver á að skapa nýja reglu um siðfræðslu friðar? Hver á að taka við af þeim sem hefur gefið tóninn í okkar trú? Eiga sálfræðingar, félagsfræðingar, pólitíkusar eða aðrir menn í völtu gengi að skapa hinn nýja tón í þessari grundvallarsiðfræði? Nei, við skulum byggja á því bjargi sem bifast ei og leggja þar áherslu á að skapa vegarnesti fyrir börn þessa lands sem og annarra landa, ef við höfum einhver áhrif í þeim efnum.

Sígauninn lýtur liðandi stund, en geymir ilm liðinna daga í fiðlunni sinni. Við eigum að lúta því að skila landi okkar stærra og betra en við tókum við því. Til þess þurfum við frið, vinnufrið, frið til að hugsa, en við fáum ekki betri friðarboðskap en þann sem býr í þeirri siðfræði sem þjóð okkar byggir á. Ég treysti varlega á friðarkjaftæði mikillar taugaveiklunar sem nú ríður húsum víða um lönd.

Við þurfum vissulega festu og skilning. Við þurfum að auka samúð manna á meðal, en við skulum fara okkur hægt í að dansa eftir þeim takti sem Treholtar heimsins kunna að búa á bak við.

Ógn kjarnorkunnar er vissulega mikil ef henni er misbeitt. En við skulum gæta þess að fylla ekki mannlífið af ótta. Við skulum halda áttum án þess að ætla að frelsa heiminn í einni kokgleypu.

Í hinni helgu bók, þar sem sagt er frá því er lærisveinar Jesú Krists heyrðu um upprisu hans, segir, með leyfi forseta, í Lúkasarguðspjalli:

„En þegar þeir voru að tala um þetta, stóð hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: Friður sé með yður! En þeir urðu skelfdir og hræddir og hugðust sjá anda. Og hann sagði við þá: Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar?“

Við erum sammála um að efla frið, berjast gegn óttanum, en við skulum ekki ganga það langt að ófriður kvikni af friðarhjali. Og ég bið um frið fyrir yngstu borgara þessa lands — frið til þess að þeir geti lifað lífi barnsins, frið frá ógn og skelfingu sem svo víða blasir við og ávallt hefur verið til staðar um allan heim þar sem lífið titrar, í lífi hvers einstaklings. Ég mótmæli því að börnum sé blandað inn í óttann við kjarnorkusprengjuna, ótta við að það sé þess virði að lifa lífinu. Fyrst og fremst með því að ala á bjartsýni, jákvæðum hug og dug eigum við mikla möguleika í framtíðinni. Þegar börn stálpast er óhætt að reifa við þau erfiðar spurningar um lífið og tilveruna. En ekkert er eins brothætt og orð. Orð sem vekur hatur og ótta til lífsins getur virkað eins og kjarnorkusprengja í sál lítils barns. Við skulum treysta foreldrum og öðrum fræðurum barna fyrir friðarþættinum án þess að setja lög um þann tón sem oft verður að spila af fingrum fram. Við skulum gæta þess að skipuleggja ekki pólitíska valdbeitingu á börnum okkar. Miklu nær væri að skipuleggja aukið friðarspjall meðal fullorðinna.

Í umr. um þetta mál á hv. Alþingi vék hv. þm. Halldór Blöndal að Jóhannesi skáldi úr Kötlum sem sönnum friðarsinna í hjarta sínu, en þó með þeirri mótsögn að hafa ort dýrðaróð um Jósef Stalín. Hver á að hafa leyfi til að etja saman andstæðum ef ekki skáld og í þeim farvegi fær lífið að titra í gleði og sorg sem enginn maður kemst hjá að ríma við. Jóhannes skáld úr Kötlum orti annars vegar, með leyfi forseta:

Sovét-Ísland, óskalandið,

hvenær kemur þú?

Hins vegar:

Jesús sonur Maríu er besti bróðir minn,

hann býr í hjarta mínu.

Einum finnst sem þarna liggi úthafsálar á milli,

öðrum bæjarlækur o. s. frv.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði í ræðu sinni með leyfi forseta:

„Það er viss tregða í kurteislegum og varfærnum samræðum fólks að ræða um fjárhagslegan ávinning vígbúnaðarkapphlaupsins. Getur það verið af einhverju sem er svo fjandsamlegt lífi, eitthvað sem ber í sér sæði hörmungarinnar, útrýmingarinnar, stjórnist af gróðasjónarmiðum einstaklinga, fyrirtækjasamsteypa eða stjórnaraðila ríkja?“

Á meðan hver maður fær að halda sínum persónuleika, hugsa sjálfstætt og segja meiningu sína verður uppi ágreiningur sem skarar friðinn, en þar er vart um að ræða lífshættulegan ófrið, vopnaglamur. En þar kviknar hættan í friðarfræðslunni þar sem sjónarmið skarast. Einn kallar rétt, annar rangt. Mér finnst þm. gera harla lítinn greinarmun á þeim ótal þáttum, ótal andstæðum, sem ríkja í einkennum þjóðflokka og þjóða. Sú engilfagra mynd sem þm. dregur af sinni góðu hugsun öndvert við hugsun vondu karlanna heima og heiman stenst ekki vegna þess að málið er ekki svona einfalt. Við getum alveg eins sagt að hlutlaus maður sé sár á hverri þjóð til frelsis og framfara. Og ég vil gera greinarmun á hlutum, greinarmun á skoðunum þótt ég virði allt sem heitir fólk. Ég vil t. d. gera þann greinarmun á að það sé mikill munur á því lýðræði sem við búum við og þeim kommúnisma sem smýgur eins og pest inn í hverja þá þjóðarsál, sem sýnir veikleika í stöðu og stefnu. Ef við getum talað um illt sæði, þá er það drekasæði kommúnismans.

Við Íslendingar getum ekki hugsað fyrir sumar fjarlægar þjóðir, sem búa við allt önnur viðhorf, aðra menningu, aðrar hefðir, aðra viðmiðun. Okkar sannleikur er þeirra lygi. Við venjulegt fólk getum ekki hugsað fyrir kommúnista sem vill sérstakt réttlæti fyrir sig, annað fyrir aðra. Þarna hlýtur friðarfræðslan að skarast og vekja ófrið. Vissulega er þess virði að auka skilning manna á meðal, en umfram allt með réttum formerkjum, þeim grundvelli sem við byggjum okkar siðfræði á, kristinni trú, mannkærleika, ást og umburðarlyndi, en um leið vinnusemi, þar sem okkur ber að taka tillit til þess að virða það að við erum fyrst og fremst veiðimannasamfélag í þessu landi.

Það er sagt að stutt sé á milli ástar og haturs og sama má segja um frið og ófrið. Mörkin eru oft óljós. Ég sá fyrir nokkrum dögum bréf sem hafði borist frá námsmanni, menntuðum manni, Íslendingi sem býr í Svíþjóð, hafði skrifað bók um frið, hafði sent handritið íslensku forlagi. Forlagið sá sér ekki fært að gefa bókina út og svaraði því á þá leið, en menntamaðurinn, höfundur friðarhandritsins, byrjaði sitt bréf á því að blóta útgefanda, forlagi, með orðum sem ekki er hægt að hafa eftir. Það var stutt á milli friðar og ófriðar.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði í ræðu sinni, þar sem hún fjallar um skert raunveruleikamat þeirra sem eiga að vinna að framtíðinni, með leyfi. forseta:

„Það er líkt og tengslin hafi rofnað milli hugar og hjarta. Sami skortur, sama brenglun og hjá vísindamanninum, sem fer í vinnu sína á morgnana og uppgötvar hvernig koma má tíu kjarnaoddum fyrir í einni sprengju í stað sex, fer síðan heim, minnir börnin sín á að bursta tennurnar, býður þeim góða nótt með kossi, elskar konuna sína og sofnar ánægður með afrek dagsins án nokkurrar hugsunar sem setur framtíðaröryggi fjölskyldu hans í samhengi við eigið dagsverk.“

Hvað meinar þm. með slíku hjali? Hvað liggur á bak við það lífsmynstur sem Kvennalistaþm. stillir þarna upp til lítillækkunar karlmanninum? Við hvaða sjálf er þm. að berjast og hvað er það sem truflar? Væri ekki í anda friðar að benda þá á eitthvert atriði sem væri jákvætt fyrir karlmanninn, t. d. það að það munu vera karlmenn sem hafa fundið upp öll þau heimilistæki sem notuð eru í þessu landi og víðar um heim? Er ástæða til að kyngreina mistök á þennan hátt?

Ein ágætiskona, Búbúlína, barðist brjóst við brjóst við mörg stórveldi án þess að æðrast. Er það rétt skilið að þm. sé að berjast við ímyndað karlaveldi af einskærum ótta? Hvaða sýndarmennska er þetta — eða er þetta e. t. v. sams konar sýndarmennska og þm. Kvennalista viðhafa nú með yfirlýsingum um að þær sæki ekki hefðbundnar samkomur þm. sem þó eru e. t. v. það helsta í starfi þingsins sem elur á friði á góðri stundu utan skarkala hversdagslífsins? Hvers vegna gátu hv. þm. Kvennalista verið þekktar fyrir að sækja veislu forseta Íslands en ekki forseta Alþingis? Og hvað var einn þm. Kvennalista að gera á gægjum í Súlnasal umrætt veislukvöld? Það væri fróðleikur að fá svar við því. (Gripið fram í: Ég var að vinna.) Ég var að vinna, segir þm. (Gripið fram í: Það er lögleg afsökun. Það á líka að gera það.)

Auðvitað er það rétt, sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, að óhemju fjármagni er varið til vopnabúnaðar og víst eru það blóðpeningar. En við þurfum fyrst og síðast að gæta öryggis okkar og sjálfstæðis og við getum ekki leyft okkur að vera saklaus lömb í því valdatafli sem ávallt hefur fylgt mannkyninu. Við komumst ekki hjá því að taka afstöðu ef við ætlum að lifa af, þótt okkur ætti jafnframt að vera það ljúft að ala á friði manna á meðal, en ég kann ekki að meta yfirlýsingar þm. þar sem hún leggur að jöfnu það stjórnskipulag sem ríkir í Austur- og Vestur-Evrópu. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Þó eðlilegt sé að glæða með börnum ást og virðingu fyrir átthögum sínum og ættjörð, þá ber að forðast að efla þrönga einangrunarsinnaða þjóðerniskennd eða þjóðarrembu.“

Þarna er mikill áherslumunur á vogarskálum friðarfræðslu og þjóðernisvitundar. Ég tel t. d. að það eigi ekki aðeins að glæða með börnum ást og virðingu fyrir átthögum og ættjörð. Það á að leggja mikið kapp á þessa þætti í fræðslu og uppeldi barna. Í því alþjóðaflatlendi sem ýmsar hreyfingar berjast nú fyrir er okkur lífsnauðsyn að leggja mikla og aukna rækt við átthagafræðikennslu, þjóðrækt og tilfinningu fyrir mikilvægi þess að vera Íslendingur með kjölfestu í sjálfstæði lands og þjóðar, menningu og tungu. Við viljum sýna fólki af öllum þjóðernum tillitssemi og vinarþel. En við viljum ekki fá hingað t. d. 500 þús. manns frá Indlandi eða Ameríku. Þýðir það að við séum ekki friðarsinnar þótt nóg pláss sé í okkar landi? Nei, það þýðir að við viljum hafa reglu á hlutunum og að við viljum að þjóð okkar lifi af. Við skulum ekki vera að sýnast neitt annað en við erum.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, þar sem hún segir að flestum foreldrum og uppalendum sé það sameiginlegt að vilja búa börnum sínum sem best vegarnesti til lífsgöngunnar, vegarnesti til farsældar framtíð þeirra. Við miðum heilbrigði við það að menn vilji frið, en við skulum gæta þess að hafa áhersluatriðin á réttum stöðum og þegar litið er til hinnar fræðingarsinnuðu ræðu hv. 1. flm., friðarfræðslutillögu hennar vakna efasemdir um hvaða sjónarmið liggi að baki, hvort hin nýja hugsun eigi að byggja á dauðhreinsuðum skýrslum, hvort Jesú Kristur og hans boðskapur sé orðinn svo fjarlægur ættingi að ekki skuli taka tillit til orða hans í daglegu lífi okkar.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði í ræðu sinni að nú yrði að taka á, við yrðum að læra að hugsa öðruvísi, skapa nýja hugsun, nýja pólitík þar sem friðarfræðsla skyldi vera meginþáttur. Ég fagna því ef ný pólitísk hugsun er að fara á fætur hjá hv. þm., ný hugsun, sem vonandi verður þá hafin yfir það að ganga erinda drekasæðisins. En á undan friðarþættinum, sem er í daglegu uppeldi allra barna okkar lands, vil ég fyrst leggja áherslu á átthagafræðina, þjóðræktina. Að við leggjum á það áherslu að geta lifað í sátt við menn og land, að við leggjum meiri áherslu á að nýta þá möguleika sem landið gefur til þess að geta lifað af. Í dag ræktum við okkar unga fólk frá landinu. Við menntum það í burtu frá sjávarútvegi, landbúnaði og öðrum mikilvægustu atvinnugreinum okkar lands. Við leggjum beinan veg úr grunnskóla í háskóla án þess að leggja kapp á. alla breiddina sem þarf að vera þar á milli, iðnnámið í öllum greinum, fagmenntunina sem á að skila breidd í þjóðfélagið, aukna verkmenntun.

Íslenskir kristniboðar í Afríku hafa lagt megináherslu á að kenna fólki að það sé til annað afl í tilverunni en hið illa. Þeir kveikja ljós í hjörtum fólks með því að leggja áherslu á hið góða. Við skulum ekki vekja ótta barna. Við skulum gefa þeim frið til að lifa lífi barnsins án þess að rugla þau í ríminu. Allt líf er háð baráttu þótt kappkosta megi að sú barátta fari fram með friði. Það sjónarmið er daglegt brauð í okkar samfélagi, en ávallt komum við aftur að hinni helgu bók og ég vil ljúka máli mínu með því sem segir, með leyfi forseta, í Rómverjabréfi 14. kapítula:

„Keppum þess vegna eftir því sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.“