22.03.1984
Sameinað þing: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4073 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

184. mál, friðarfræðsla

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Till. sú sem hér er til umr. hefur satt að segja vakið meiri og kannske öðruvísi umr. en ég átti von á. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, ræddi um það undir lok sinnar löngu og ítarlegu ræðu að síst af öllu vildum við að okkar skólar tækju mark og mið eða svip af skólum í alræðisríkjunum sem hann svo nefndi. Ég er honum hjartanlega sammála. Við eigum auðvitað að forðast allt slíkt. En hvað er það í rauninni sem þessi till. fjallar um? Í henni segir með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að hefja undirbúning að frekari fræðslu um friðarmál á dagvistunarstofnunum, í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Markmið fræðslunnar verði að glæða skilning á þýðingu og hlutverki friðar og rækta hæfileika til þess að leysa vandamál án ofbeldis og leita friðar í samskiptum einstaklinga, hópa og þjóða.“

Geta menn ekki verið sammála um þetta? Þarf að vera verulegur ágreiningur um þetta? Ég satt að segja hélt ekki. Einhverra hluta vegna hefur þessi tiltölulega einfalda till. orðið til þess að menn hafa kosið að misskilja hana með ýmsum hætti, leyfi ég mér að segja. Hún hefur valdið einhvers konar móðursýkisköstum sums staðar í þjóðfélaginu. Kannske var það vegna þess að þeim þm. sem að till. standa láðist að fá stuðning Morgunblaðsins við málið áður en það var lagt fram á Alþingi. A. m. k. snerist Morgunblaðið við með afskaplega undarlegum hætti þegar till. kom fram.

Í grg. þessarar till. er minnst á það að æ fleiri þjóðir hafi tekið upp svonefnda friðarfræðslu í skólum í anda þeirrar samþykktar sem sameinuðu þjóðirnar hafa gert og sem við Íslendingar erum aðilar að. Fræðsla í þessa veru á sér stað, eftir því sem ég best veit, á öllum Norðurlöndunum og þykir eðlilegur þáttur í skólastarfinu þar. Nú er ég ekki að segja að allt sé gott sem þaðan kemur, alls ekki, en ýmislegt gott kemur þaðan að sjálfsögðu og mér er næsta torskilið hvers vegna menn kjósa að bregðast við þessari till. með þeim hætti sem orðið hefur, vegna þess að í rauninni er þessi till. aðeins árétting á því sem stendur í grunnskólalögunum. Og hvað stendur í grunnskólalögunum? Þar segir í 2. gr. með leyfi forseta:

„Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið.“

Starfshættir íslenska skólans eiga að mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Og það er nákvæmlega það sem þessi þáltill. fjallar um þótt með svolítið öðrum orðum sé. En ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hún hnykkir á þessu og góð vísa verður aldrei of oft kveðin, eins og hv. þm. Árni Johnsen veit kannske manna best. Það er full ástæða til að hnykkja á þessu í tilefni þeirrar umr. sem á sér stað. En ef menn kjósa að snúa út úr þessu og halda að hér eigi að fara að upphefja einhvern kommúnistaáróður í skólum, eins og mér heyrist hér á sumum ræðumönnum, þá er slíkt ekki tilgangur þessarar till. Ég skrifaði a. m. k. ekki undir neitt slíkt og lít ekki á þetta þeim augum. Og ég geri ráð fyrir að sama megi segja um fjölmarga af þeim hv. þm. sem eru meðflm. á þessari till. Ég nefni hér bara af handahófi hv. þm. Gunnar Schram og hv. þm. Salome Þorkelsdóttur. Halda menn að þessir þm. hafi verið að skrifa undir einhvers konar einhliða áróður kommúnista í skólum landsins? Langur vegur frá. Þessi till. fjallar bara um allt aðra hluti. Hún fjallar um kristilegt siðgæði og umburðarlyndi. Hún er bara árétting og ítrekun á því sem stendur í grunnskólalögunum, sem kannske hefur nú ekki verið fylgt eftir á öllum sviðum svo sem skyldi. Mér kemur það því býsna mikið á óvart hvernig menn hafa brugðist við.

Auðvitað skal ég viðurkenna það að það er kannske nokkuð vandasamt hvernig á þessu skuli haldið, eins og allri fræðslu af þessu tagi, t. d. því sem segir í grunnskólalögunum um umburðarlyndi og lýðræðislegt samstarf og að efla skilning á mannlegum kjörum og umhverfi, sögu og sérkennum íslenska þjóðfélagsins og skyldum einstaklingsins við samfélagið. Það er ekki sama hvernig á þessu er haldið. En ætla menn jafnframt að segja hér upp til hópa að íslensk kennarastétt sé ófær um að gera þetta? Ég neita að taka undir það. Auðvitað er þar misjafn sauður í mörgu fé, eins og er í öllum stéttum. En ég treysti íslenskum kennurum til að gera þetta. En þetta á auðvitað að vera fræðsla sem einkennist af þeirri víðsýni sem fjallað er um hér í 2. gr. grunnskólalaganna. Við erum að tala um frið og þá eigum við auðvitað líka að tala um hvernig hefur til tekist að varðveita friðinn í okkar heimshluta. (Gripið fram í.) Vill ekki hv. þm. Árni Johnsen bara biðja um orðið hér á eftir? (ÁJ: Þessi fræðsla á sér stað hvern dag.) Það er nú sjálfsagt allur gangur á því. Ég veit ekki hvaða fræðslu hv. þm. á þar sérstaklega við. Það væri þá æskilegt að hann kæmi hér í ræðustól og gerði frekari grein fyrir sínum hugmyndum en hann gerði áðan í sinni ræðu.

Hluti af þeirri friðarmynd sem við okkur blasir er það hverri utanríkisstefnu Íslendingar hafa fylgt frá stríðslokum. Það er hluti af þeirri friðarstefnu, það er hluti af þeim friði sem ríkt hefur í okkar heimshluta á þeim áratugum sem liðnir eru frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Auðvitað á það að vera þáttur í slíkri fræðslu að segja frá því og skýra hvers vegna hefur verið friður í okkar heimshluta þessi ár. Um það þarf held ég ekki að deila.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessa umr. öllu meira. Ég er búinn að gera grein fyrir því hvern skilning ég legg í þessa till. og vitna til laga um grunnskóla, þar sem fjallað er um markmið skólastarfsins. Ég er búinn að benda á að fræðsla af þessu tagi á sér stað í skólum á Norðurlöndunum, og ég veit ekki til þess að þar hafi hún verið talin sérstakur áróður af hálfu kommúnista, sem eiga litlu fylgi að fagna í þeim löndum og mættu eiga minna fylgi að fagna hér líka, og vonandi verður það er fram líða stundir. Satt að segja undrast ég það offors og þá móðursýki sem fram kemur í máli þeirra sem leggjast gegn þessari till. Ég held að það hljóti að vera á misskilningi byggt. Eins og ég vék að áðan fór þessi till. í hinar fínu taugar Morgunblaðsins og það gerði hvað það gat, sá öflugi fjölmiðill, sem berst inn á nær hvert heimili á landinu, til að gera till. hlægilega eða afkáralega og gera lítið úr þeim sem að henni standa. Vissulega er vald Morgunblaðsins mikið og þeirra manna sem þar stýra pennum. En menn láta það nú ekki kúga sig eða beygja og Morgunblaðið er engan veginn alviturt. Það er jafn misviturt og allt það góða fólk sem þar vinnur.