22.03.1984
Sameinað þing: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4076 í B-deild Alþingistíðinda. (3464)

246. mál, veggangagerð á Austfjörðum

Flm. (Sveinn Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 447 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um könnun á þjóðhagslegu og félagslegu gildi veggangagerðar á Austfjörðum. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram könnun á þjóðhagslegu gildi veggangagerðar á Austurlandi. Sérstaklega skal metið félagslegt og hagrænt gildi þess að vegalengdir milli byggðarlaga styttist og leiði til aukinna samskipta. Tekið skal tillit til þess sparnaðar sem þetta mundi leiða til í snjómokstri og viðhaldi vega auk minni eldsneytiseyðslu og slits á farartækjum. Í könnun þessari skal lagt mat á einstakar hugmyndir að jarðgöngum og þeim raðað í forgangsröð jafnframt því að gildi þeirra í heild sé metið.“ Í grg. eru till. gerð skil.

Á undanförnum árum hefur gætt vaxandi áhuga hérlendis á veggangagerð til lausnar á samgönguvandamálum einangraðra byggðarlaga. Hefur í því sambandi einkum verið litið til nágranna okkar, Færeyinga, sem á s. l. 20 árum hafa gert sem svarar einum Oddsskarðsgöngum á ári. samtals hafa þar verið gerðir um 13 600 m af veggöngum á tímabilinu 1963–1983 skv. frumskýrslum Orkustofnunar. Jarðgangagerð þeirra hefur gengið vel og eru þar nú 10 veggöng í notkun allt að 2500 m að lengd hver göng. Til samanburðar má nefna að jarðgöng hérlendis eru tvö samtals 1.2 km. Nú eru á lokastigi 2.2 km löng göng í Færeyjum til viðbótar því sem að framan gat. Áætlaður heildarframkvæmdakostnaður við gerð þeirra er sem svarar 50 millj. kr. á km en þau eru tvíbreið. Einbreið göng af þeirri gerð sem væntanlega yrði í flestum tilvikum byggð hérlendis eru áætluð kosta 40 millj. kr. á km.

Færeyingar nota til gangagerðarinnar sérbúinn borvagn sem er sagður kosta um 17 millj. ísl. kr. en auk þess eru ámoksturstæki og grjótflutningsbílar. Sömu 18 mennirnir vinna við framkvæmdir þessar á tvískiptri vakt 5 daga í viku og sprengja á þeim tíma um 45 m. Ein af forsendum tiltölulega hagstæðra framkvæmda er sögð vera samfelld verktilhögun með föstu starfsliði. Af þessu þurfum við að draga lærdóm og gera áætlun til lengri tíma um jarðgangagerð. Framkvæmdir yrðu síðan að miðast við fjármögnun sem gerði ráð fyrir samfelldri vinnu.

Fulltrúar Orkustofnunar hafa kynnt sér jarðfræðilegar aðstæður við jarðgangagerð í eyjunum og er skýrsla þeirra um það væntanleg á næstunni. Tæknilegir eiginleikar berglaga eru taldir mjög svipaðir og víða hérlendis, sér í lagi ef farið er í gegnum fjöllin neðarlega. Raunhæfur samanburður á aðstæðum fæst aðeins ef bornar eru saman annars vegar aðstæður í Færeyjum og hins vegar aðstæður á ákveðnum stöðum á Íslandi; t. d. jarðlög eða jarðlagasyrpur á fyrirhuguðum eða hugsanlegum jarðgangasvæðum.

Á vegum Vegagerðarinnar hefur á s. l. árum verið gert átak í athugunum á möguleikum til jarðgangagerðar og væntanlega verður framhald þar á. Nú á n. k. sumri er fyrirhuguð kynnisferð fulltrúa Vegagerðarinnar til Noregs og þátttaka í ráðstefnu þar um ódýra jarðgangagerð. Ljóst er að kostnaður við jarðgangagerð í Noregi er talinn töluvert hærri en í Færeyjum og nær því sem Vegagerðin hefur talið að hér yrði, eða um 85–100 millj. kr. á km í einbreiðum göngum miðað við verðlag haustið 1983. Norðmenn telja kostnað við jarðgangagerð sambærilegan hvort heldur er um að ræða hefðbundnar aðferðir með sprengingum eða heilborun þversniðs. Reynslan af gerð ganga í gegnum Strákagöng og Oddsskarð verður að teljast góð en erfiðleikar og e. t. v. kunnáttuleysi áttu mikinn þátt í því að gerð þeirra varð dýrari en áformað var. Áform um frekari framkvæmdir af þessu tagi hafa því ekki hlotið hljómgrunn og tortryggni gætt í garð þeirra.

Varfærni á þessu sviði er sjálfsögð, en fullyrða má að möguleikar til rannsókna á jarðfræðilegum aðstæðum er í dag betri en áður og tækni til jarðgangagerðar hefur fleygt fram. Það hlýtur því að vera íhugunarefni hvort ekki sé tímabært að kanna þjóðhagslegt, félagslegt og hagrænt gildi veggangagerðar á Íslandi. Með þessari þál. er leitað eftir stuðningi Alþingis til að slík könnun verði gerð vegna hugmynda um veggangagerð á Austurlandi.

Hugmyndir um frekari veggangagerð á Austurlandi hafa verið að mótast á s. l. árum. Á árinu 1982 og 1983 var á vegum Vegagerðarinnar unnið að athugun á bættu vegasambandi milli Vopnafjarðar og Héraðs. Hafa í því sambandi verið kannaðir fimm kostir með jarðgöngum, allt frá 940 m til 6600 m löngum. Þá voru sumarið 1983 kannaðir möguleikar á jarðgöngum frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og þaðan tvær leiðir til Norðfjarðar. Frá Fannardal í Norðfirði var athugaður möguleiki á göngum til Eskifjarðar sem væru í mun minni hæð yfir sjó en göngin í gegnum Oddsskarð.

Enn fremur var athugað með göng frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar, samtals ca. 20 km í göngum. Varðandi göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar var á s. l. sumri gerður samanburður á hagkvæmni jarðganga og uppbyggingu vegar með bundnu slitlagi með ströndinni. Ekki var tekið tillit til félagslegrar þýðingar ganga og aðeins miðað við núverandi umferðarmunstur. Sú könnun sýndi að umferð þyrfti að sjöfaldast til að göngin yrðu hagkvæm.

Lausleg athugun var einnig gerð á göngum milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Einnig var athugaður möguleiki á göngum úr Reyðarfirði og suður í Breiðdal stystu leið, 9.5 km. Enn fremur var kannaður möguleiki á göngum milli Seyðisfjarðar og Héraðs annars vegar og Mjóafjarðar og Héraðs hins vegar. Jarðfræðiskýrsla um þessar rannsóknir liggur ekki fyrir enn þá en fyrstu niðurstöður verða að teljast jákvæðar. Má því ætla að veggangagerð geti hér orðið álíka hagkvæm og í Færeyjum:

S. l. 5 ár hafa austfirskir sveitarstjórnarmenn vakið athygli Vegagerðar ríkisins á þýðingu jarðgangagerðar á Austurlandi. Þeir hafa bent á að hringtenging þéttbýlisstaðanna á Miðausturlandi er betri tenging og betri tenging endabyggðanna við miðsvæðið mundi efla samstöðu og styrkja framtíðaruppbyggingu landshlutans. Samtengingin gerði íbúum og fyrirtækjum kleift að ráðast í verkefni á sviði framleiðslu, þjónustu og menningarstarfs sem þau gætu ekki ráðist í hvert fyrir sig. Þjónustusvæði einstakra stofnana mundi stækka og auðveldara væri að koma á verkaskiptingu milli staða. Tilkostnaður við snjómokstur og viðhald vega mun minnka auk minni eldsneytiseyðslu og slits á farartækjum.

Þá hafa sveitarstjórnarmenn bent á að flytja mætti rafmagns- og símalínur frá veðrasömum fjalltoppum í skjólrík göng og að með slíkri hringtengingu fengist minna viðhald og aukið öryggi í flutningslínum. Það grjót úr göngunum, sem ekki yrði notað til vegagerðar í tengslum við gangagerðina, mætti nota í varnargarða eða til steinsteypu því að víða er skortur á byggingarefni og sprengdu grjóti á Austurlandi.

Ljóst er að hér er um langtímaverkefni að ræða þegar af verður. Nauðsynlegt þykir að benda á mikilvægi þess að kannað sé félagslegt og hagrænt gildi framkvæmda af þessu tagi. Spurningin er ekki eingöngu um það hvort sé hagkvæmara að byggja upp veg með ströndum fram eða fara stystu leið í gegnum fjöllin milli fjarða. Markmiðið er ekki hvað síst að færa þéttbýliskjarna hvern nær öðrum og gera að meiri heild. Samskipti milli staða munu verða auðveldari, atvinnulífi öllu til eflingar.

Á Austurlandi sýna mannfjöldatölur síðustu 4 árin tilhneigingu til áframhaldandi stöðnunar eftir aukningu sem átti sér stað á 10 ára tímabili þar á undan umfram eða jafnt landsmeðaltali. Á síðasta ári varð fólksfækkun í Austur-Skaftafellssýslu um tvo íbúa og einnig fækkaði eða stóð í stað í öllum kaupstöðum fjórðungsins. Straumur fólksins færist nú sem fyrr í æ ríkari mæli til suðvesturhorns landsins.

Á fundum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi undanfarin ár hefur verið rætt um þessa þróun og varað við henni. Ástæður eru að sjálfsögðu margar en þar er helst um kennt háum framfærslukostnaði og einhæfu atvinnulífi. Á mörgum stöðum snýst lífið um fisk og aftur fisk, en kjör þess fólks sem við hann vinnur eru svo léleg að það endist ekki til þess að standa í því endalaust. Er nú svo komið að flytja hefur orðið inn tugi erlends verkafólks til fiskvinnslunnar.

Aflinn hefur verið mikill og verðmæti sömuleiðis. Austfirðir hafa verið aðeins lægri en Vestfirðir með magn og verðmæti á íbúa þar sem það er mest á landinu. En langlægst er það hér á Reykjavíkursvæðinu og við Reykjanes, þangað sem allir vilja þó flytja.

Í fjórðungnum er fólginn 1/3 allrar auðveldlega virkjanlegrar vatnsorku landsins. Það mun væntanlega leiða til stórfelldrar orkunýtingar á næstu áratugum. Nú þegar er ráðgerð stofnun kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði með 150 starfsmönnum auk alls skyldu- og þjónustuliðs, samtals áætlað 500–600 íbúa aukning. Á miðsvæði Austfjarða eru um 6000 manns í nokkrum þéttbýtiskjörnum sem eru aðskildir af talsverðum vegalengdum. Þessar vegalengdir má stytta allverulega og gera samgöngur greiðari. Til þess þarf veggangagerð sem mun kosta umfalsverða fjármuni og tíma. Það er hald mitt að framleiðni fjórðungsins geti staðið undir því að það geti reynst hagkvæmt að ráðast í þessar framkvæmdir.

Herra forseti. Sjálfsagt .þykir að leita eftir og kanna hagkvæmni þessara hugmynda frá þjóðhagslegu og félagslegu sjónarmiði. Könnun sú verður að leiða í ljós hverjar þeirra séu hagkvæmari en aðrar og raða þeim þannig í forgangsröð. Það mun síðar auðvelda alla ákvarðanatöku.

Ég vil svo í lokin leggja til að þáltill. þessari verði vísað til hæstv. allshn. Sþ. og framhalds umr.