01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

385. mál, gróðurvernd

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. landbrh. svohljóðandi spurningar, með leyfi forseta:

„Hvernig miðar framkvæmd gróðurverndar samkv. lögum nr. 17/1965, um landgræðslu, með áorðnum breytingum frá 24. apríl 1982?

1. Hafa gróðurverndarnefndir alls staðar verið kosnar í samræmi við þessi lög?

2. Hefur reynst þörf á að grípa til aðgerða samkv. 23. gr. áðurnefndra laga?

3. Hvernig gengur gerð gróðurkorta og hvenær má ætla að þeirri vinnu ljúki?“

Það er nú um eitt og hálft ár liðið síðan verulegar breytingar voru gerðar á lögum um landgræðslu, sem tryggja eiga framkvæmd gróðurverndar, m.a. með skipun gróðurverndarnefndar í hverri sýslu og hverjum kaupstað. Mér þykir því við hæfi að spyrja hæstv. landbrh. hvernig miði framkvæmd þessara laga eins og þau liggja nú fyrir.

Þá er eðlilegt að spurt sé í leiðinni, eins og gert er í 2. lið, hvort reynst hafi nauðsynlegt að grípa til skjótra verndaraðgerða á grundvelli 23. gr. áðurnefndra laga.

Í þriðja lagi er spurt um gerð gróðurkorta af landinu og hvernig þar gangi. Það er mín skoðun, að slík kortlagning ásamt með beitarþolsrannsóknum og alhliða upplýsingaöflun um ástand og þol gróðurlenda sé ein af forsendum fyrir bættu skipulagi í landbúnaði. Það er mikið í húfi að þessari vinnu verði hraðað svo að hefjast megi handa sem fyrst um brýna endurskipulagningu þessa atvinnuvegar á grundvelli staðgóðra upplýsinga.