22.03.1984
Neðri deild: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Með frv., sem hér er verið að afgreiða, er verið að rétta bændum hjálparhönd í efnahagslegum erfiðleikum þeirra. Það hefur komið fram í umr. að launafólk í þessu landi á enn fremur við efnahagserfiðleika að etja. Verði þessar brtt., sem ég hef hér flutt, felldar er ljóst að þingmeirihl. er að lýsa því yfir að á sama tíma og hann ætlar að bjarga bændum að landi á að skilja þúsundir launafólks eftir á köldum klaka nauðungaruppboðanna. Á hverjum degi geta menn flett dagblöðum og í hverri viku mörgum eintökum af Lögbirtingablaðinu og séð hundruð nauðungaruppboða á eignum fólks sem þessum brtt. er ætlað að bjarga. Launakjör og kjör bænda og launafólks almennt hafa verið tengd saman í gegnum tíðina á formlegan hátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða. Það er því sjálfsögð krafa og siðferðislegt réttlætismál að á sama tíma og stjórnvöld bjarga bændum að landi bjargi þau einnig launafólki að landi. Tilraun er gerð til þess með því að flytja þessa brtt. og því segi ég já.