01.11.1983
Sameinað þing: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

385. mál, gróðurvernd

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 49 í II. tölul. eru þrjár spurningar sem beint er til mín um framkvæmd gróðurverndar og gerð gróðurkorta. Tvær þær fyrstu voru sendar til Landgræðslu ríkisins til að fá upplýsingar og vil ég lesa svörin sem mér bárust þaðan. Það er í fyrsta lagi:

1. „Hafa gróðurverndarnefndir alls staðar verið kosnar í samræmi við þessi lög?“

Svarið er: Gróðurverndarnefndir voru kosnar í öllum sýslum landsins fljótlega eftir setningu laga nr. 17/1965 og hafa þær starfað síðan. Endurskipað er í nefndirnar á fjögurra ára fresti. Þegar lögum var breytt 1982 var öllum viðkomandi aðilum skrifað og nú eru skipaðar gróðurverndarnefndir í öllum sýslum landsins og öllum kaupstöðum landsins nema á Seyðisfirði. Meðfylgjandi er listi yfir gróðurverndarnefndirnar. Starfsmenn Landgræðslunnar hafa samband við nefndirnar og halda fundi með þeim þar sem helst er þörf, og þær eru boðaðar á fundi þá sem starfsmenn stofnunarinnar halda á viðkomandi stöðum. — Ef óskað er eftir getur hv. fyrirspyrjandi fengið listann með nöfnum nm.

2. tölul.: „Hefur reynst þörf á að grípa til aðgerða samkv. 23. gr. áðurnefndra laga?“

Það hefur nokkrum sinnum reynt á lagagr. nr. 23, en það hefur ekki verið gripið til aðgerða í samræmi við breytingar eða viðbót við fyrrgreinda lagagr. frá 24. apríl 1982. Vandamálin hafa verið leyst með því að ná samkomulagi við bændur um nauðsynlegar úrbætur í gróðurverndaraðgerðum.

Ég get bætt því við af eigin kunnugleika af mínu umhverfi, að ég veit að alloft hefur verið leitað til gróðurverndarnefndar og landgræðsluráðunautar og þeir fengnir til aðstoðar, að ég tel með góðum árangri.

Þá er það þriðja spurningin, sem var send til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, og hún er þannig: „Hvernig gengur gerð gróðurkorta og hvenær má ætla að þeirri vinnu ljúki?“

Svarið er þannig: Kortlögð hafa verið um 65% af landinu og eru jöklar þá ekki meðtaldir. Gefin hafa verið út kort af um helmingi þess svæðis. Lokið hefur verið við að kortleggja gróður á öllu miðhálendi Íslands og á hluta af öðru hálendi. Einnig hefur verið lokið við að kortleggja gróður og ræktunarskilyrði á láglendi í sex sýslum og allt að helmingur láglendis í átta sýslum hefur verið kortlagður. Gefin hafa verið út 64 kort af hálendi landsins í mælikvarðanum 1:40000 og 11 kort af láglendi í mælikvarða 1:20000. Hafin er endurkortlagning og endurskoðun korta á þeim svæðum sem fyrst voru kortlögð og þar sem gróðureyðing er örust. Vegna skorts á nákvæmum grunnkortum hefur ekki reynst unnt að ganga frá og gefa út gróður- og byggðakort nema af litlum hluta þess svæðis á láglendi sem kortlagt hefur verið.

Nú er svo komið að þýðingarlaust er að halda áfram að kortleggja gróður og ræktunarskilyrði á láglendi fyrr en úr skorti á grunnkortum hefur verið bætt. Lausn þess máls ákvarðar því að verulegu leyti hvenær eða á hve löngum tíma er unnt að ljúka gróðurkortagerð af landinu öllu. Grunnkortagerð þessi er gagnleg og nauðsynleg fyrir marga aðila og væri æskilegt að þeir hefðu samtök um að reyna að þoka því máli áfram, en kostnaður við það er nokkuð mikill og fjármagn hefur skort til að hraðar mætti ganga.