22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4087 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

196. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að fyrir þingi liggur á þskj. 428 frv. til laga sem ég er flm. að ásamt með hv. þm. Guðmundi Einarssyni. Frv. er efnislega á þá leið að þau tvö ákvæði fyrirliggjandi frv. til l. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán sem raunverulega eru löggjafaratriði eru þar sett fram í formi brtt. við gildandi lög um veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Nú er þetta mál hér til 3. umr. í fyrri deild, en mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvernig þingheimur á að geta tekið afstöðu, að þessu frv. samþykktu, til hins frv. sem felur í sér sömu efnisatriði en er í formi brtt. við gildandi lög.

Nú hef ég heyrt það sjónarmið hjá lögfræðingum að eðlilegra væri, úr því að um sömu efnisatriði er að ræða, að þau yrðu afgreidd sem brtt. við gildandi lög fremur en að samþykktur yrði sérstakur lagabálkur sem þar að auki er að öðru leyti í formi viljayfirlýsingar. Þá er spurningin þessi: Er ekki eðlilegra að þetta frv. verði tekið til umr. og afgreiðslu áður? Ef svo er ekki fæ ég ekki séð að þeir þm. sem kynnu að vilja fallast á að þetta væri eðlilegri leið í málinu geti tekið afstöðu til þess eftir á. M. ö. o. beini ég því til hæstv. forseta hvort ekki er eðlilegra og þinglegra af þessum ástæðum að frv. til l. um breyt. á lögum um veðdeild Búnaðarbanka Íslands á þskj. 242 verði tekið til umr. og afgreiðslu áður en þetta mál, þannig að þingmenn geti tekið afstöðu til þess hvort þeir kjósi fremur þá leið en þá sem hér er farin.