26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4094 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

255. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar fyrir rösklega afgreiðslu á þessu máli og jafnframt endurtaka að naumur tími er til að koma þessum bótum inn í tölvu þannig að þær komi til útborgunar fyrri hluta næsta mánaðar.

En vegna ræðu síðasta ræðumanns, hv. 11. þm. Reykv., vil ég taka fram að það er byggt á afar miklum misskilningi að þetta frv. rugli saman launatekjum og bótum almannatrygginga. Þetta frv. er byggt á almannatryggingalöggjöf sem búin er að vera í gildi að frumstofni frá 1936. Hins vegar eru bótaflokkar fleiri en þá voru og það miklu fleiri. En allt er þetta byggt á tryggingabótum sem eru grundvöllur almannatryggingalöggjafarinnar.

Ég vil líka taka það fram að þó að aðilar vinnumarkaðarins hefðu ekki komið til ríkisstj. og gert þessa samninga sem gerðir voru eða hliðstæða samninga hefðu bætur almannatrygginga orðið að hækka til samræmis við þær bætur. Hins vegar var samið um nokkuð annað, sem snertir beint launamarkaðinn, sem ekki kemur hér inn, en flest er þetta án tengsla við þessa samninga, almenni grunnlífeyririnn, örorkulífeyririnn. Hins vegar eru mæðralaun hækkuð meira og segja má að það sé fyrir tilstilli samninga ASÍ og VSÍ. En hinar almennu hækkanir skv. almannatryggingalögum, grunnlífeyririnn, tekjutryggingin og örorkubæturnar hefðu, þó að aðilar hefðu aldrei rætt við ríkisstj., orðið að mínum dómi að hækka þetta.