26.03.1984
Efri deild: 68. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

255. mál, almannatryggingar

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé í umr. um þetta mál að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig ástandið var um það leyti sem samningar um kaup og kjör fóru fram og að hve miklu leyti þeir koma að gagni til þess að forðast mjög alvarlegt ástand í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Mér finnst verkalýðshreyfingin hafa tekið ábyrga afstöðu. Það er staðreynd að Íslendingar voru algjörlega að missa vald á sínum efnahags- og atvinnumálum. Verðbólgan var komin yfir 100% . Á sama tíma minnka stórlega þjóðartekjurnar og það hefur auðvitað djúpstæð áhrif til hins verra. Erlendar skuldir eru orðnar svo miklar að menn eru sammála um að þær skuli ekki auka. Það lá því alveg í augum uppi að ef ekki hefði verið tekið í taumana — og ekki aðeins af hálfu ríkisvaldsins, það þurfti meira að koma til — þá hefði fjöldinn allur af atvinnufyrirtækjum í landinu stöðvast á næstunni og hundruð og jafnvel þúsundir manna orðið atvinnulausir. Það er undir þessum kringumstæðum sem verkalýðshreyfingin kemur inn í þessa mynd með alveg nýjum og ábyrgum hætti að mínum dómi, með algjörlega nýjum vinnubrögðum. (Gripið fram í: Ertu að tala um nútíðina?) Ég er að tala um atburði seinustu mánaða og í framhaldi af því samningana um kjaramálin sem nú hafa verið gerðir.

Eins og kunnugt er var bannað að gera samninga um ákveðið tímabil. Verkalýðshreyfingin hafði ekki tök á því að ganga til samninga vegna þess að það var bannað um sinn. Mér finnst verkalýðshreyfingin hafa tekið ábyrgt á þessum málum og lagt sitt af mörkum til þess að þjóðin, ég segi þjóðin í heild, næði sæmilegu valdi á framvindu efnahags- og atvinnumála. Og mér finnst full ástæða til að eftir því sé tekið vegna þess að það er ekkert auðvelt verk fyrir þá sem eru forustumenn í verkalýðshreyfingunni. Það verður að segja það eins og er að stundum hafa launþegar og atvinnurekendur gert samninga sem hafa verið langt fyrir ofan það sem nokkur skynsemi er í. Það gerðist bæði 1974 og 1977. Ef slíkir samningar hefðu verið gerðir nú hefði viðleitni ríkisstj. til að kveða niður verðbólguna rokið út í hafsauga og hér hefði verðbólga magnast og áreiðanlega atvinnuleysi í kjölfarið, vegna þess að það lá fyrir að fjöldamörg atvinnufyrirtæki í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar um allt land voru að stöðvast. Mér finnst ástæða til að láta í ljósi þá skoðun að verkalýðshreyfingin hafi hér lagt af mörkum stóran skerf til að reyna að tryggja það að hér kæmist á sæmilegt jafnvægi í efnahags- og atvinnumálum.

Frv. sem við erum hér að ræða um er auðvitað frv. ríkisstj., það er engin spurning, það sem Alþingi fjallar um, en í alveg ákveðnum tengslum við þá samninga sem gerðir hafa verið á vinnumarkaðinum. Það er t. d. ástæða til að minna á það að fyrir nokkuð mörgum árum, líklega einum 15 árum eða meira, voru Finnar í miklum vandræðum. Þeir höfðu misst vald á verðbólgunni og höfðu gífurlegar áhyggjur af framvindu mála. Þá gerðist hjá þeim ekkert ósvipað og hér hefur gerst, að samkomulag náðist milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. um ákveðnar aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og þar með kjaramálum. Mér finnst því ástæða til að undirstrika það að verkalýðshreyfingin hafi hér tekið á. Og hún hafi gert það enda þótt það sé að mörgu leyti mjög erfitt, ekki síst vegna þess að menn búa hér við minnkandi þjóðartekjur í bili, verulega minnkandi þjóðartekjur, og hafi orðið að taka mið af þeirri staðreynd.