26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4106 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

196. mál, lausaskuldir bænda

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég lýsi þegar yfir stuðningi við þetta frv. þó að það sé bráðabirgðalausn að nokkru leyti eins og lausaskuldabreytingarnar hafa reyndar áður verið. Vissulega hefði ýmislegt þurft að vera ljósara í bakgrunni þessa máls en ég læt það að mestu bíða nefndarstarfa og þeirra upplýsinga sem þar er unnt að fá varðandi þetta mál. Ég á sæti í landbn., en bæði við umfjöllun um málið í þeirri nefnd og við 2. umr. má koma að ýmsum atriðum þessa máls enn frekar. Ég vil þó minna á nokkur atriði nú.

Í fyrsta lagi, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. landbrh., er þetta mál í órofa samhengi við alla stöðu landbúnaðar okkar og þó kannske fyrst og fremst kjarastöðu bændanna í heild. Inn í það dæmi kemur sá mikli tekju- og aðstöðumismunur sem ekki er minni þar en hjá öðrum stéttum. Það fer oft lítið fyrir því í umr. hvað aðstöðumunurinn og kjaramunurinn er mikill í bændastéttinni, en ég fullyrði að hann er þar ekki minni en hjá öðrum stéttum af eðlilegum ástæðum.

Lausaskuldabreyting sem þessi getur svo fyllilega átt rétt á sér, en menn vita að hér er ekki um neina allsherjarlækningu að ræða. Málið þarf allt að skoðast í víðara samhengi við heildarmótun á lánamálum landbúnaðarins og kjaramálum bændastéttarinnar þar sem aðstöðu- og kjarajöfnunin yrði í fyrirrúmi.

Í öðru lagi vaknar sú spurning, sem hvarflaði einnig að mér við síðustu lausaskuldabreytingu, hvort öllum sé með þessu sá greiði gerður sem ætlunin er hjá hæstv. ráðh. Hann kom reyndar inn á það áðan að ekki mundi reynast kleift að leysa vanda nokkurs hluta þeirra bænda, sem þó hefðu kannske mesta þörf fyrir það, með þessari breytingu. Nokkur hluti þeirra bænda, sem menn vonast til að þessi breyting taki til, er svo settur að ekkert af þessu tagi fær bjargað þeim.

Þar eru bændur vitanlega ekki einir á báti. Svo er alls staðar um menn í öllum stéttum að þeim fær fátt bjargað út úr þeim vandræðum sem þeir eru í. Ég held að könnun á búrekstrarstöðu einstakra býla þyrfti að fara fram og ég veit reyndar að hún er í gangi. Aðgerðir þyrftu svo að fylgja þar á eftir m. a. að hjálpa þeim bændum út úr vandanum alla leið sem kleift væri að bjarga með áframhaldandi búskap á viðunandi grundvelli, sumum með því einfaldlega að ríkið kaupi jarðir þeirra og veiti þeim þannig aðstoð og sumum jafnvel með því að hjálpa þeim út úr þeirri vonlausu baráttu sem þeir eiga í. Ég þekki því miður nokkur dæmi slíks. Slík dæmi eru sem betur fer ekki mörg en nægilega mörg þó til þess að þau ber svo sannarlega að skoða. Menn sem eru komnir inn í þann vítahring að ekkert fær bjargað efnahag þeirra, vonlaust er að bæta aðstöðu þeirra varðandi bústærðina og annað slíkt og að koma fyrri fjárfestingum þeirra í viðunandi verð. Nýjasta dæmið hef ég austan úr Breiðdal af vildarjörð þar, sem reynt hefur verið að selja í tvö ár árangurslaust, með hinum besta húsakosti þar sem fólk hreinlega kemst ekki frá sinni bújörð þó að það hafi ekki lengur tök á því vegna heilsufars að stunda þar búskap.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með þessu frv., eins og ég tók fram áðan, þótt ófullnægjandi bráðabirgðaaðgerð sé. Ég reikna ekki með öðrum varanlegri úrbótaráðum nú um stundir og hef þau ekki í hendi mér heldur. En ég leiði óneitanlega hugann að síðustu lausaskuldabreytingu sem fólst að verulegu leyti í því, eins og menn þekkja, að skuldum bænda, sem voru á vöxtum, við samvinnufélag þeirra var breytt í verðtryggt lán til lengri tíma. Sú spurning hlýtur að vakna hvort raunveruleg staða margra hafi breyst til batnaðar. Ég veit að sem betur fer varð þetta mörgum mjög til hjálpar en öðrum því miður ekki. Ég nefni sem dæmi að af þeim 306 bændum sem fengu lausaskuldabreytingu síðast eru nú 77, eða 1/4 þeirra, í tveggja ára vanskilum eða meira við lánasjóði landbúnaðarins. Ekki hefur þetta orðið þeim allt of mörgum bændum til þess léttis sem menn ætluðu sér svo sannarlega þá að yrði.

Ég hygg líka að það sé fyllilega rétt, sem hæstv. landbrh. kom inn á áðan, að við lausaskuldabreytinguna nú muni nokkrir tugir bænda ekki ná veðhæfnismarkinu þar sem hreinlega ekki verður hægt að leysa mál þeirra með þeim hætti. Hæstv. landbrh. sagði að það yrði þá að gerast með öðru móti. Ég treysti honum til þess, með þann hug sem ég veit að hann ber til bændastéttarinnar, að sjá svo til að það verði gert því að skv. þeim upplýsingum sem ég hef geta nokkrir tugir bænda ekki notið þessarar lausaskuldabreytingar vegna þess að þeir hafa hreinlega ekki veð sem nægja þeim til þess að geta tekið þessi lán. Það eru margar ástæður sem spila inn í þessi mál. Það eru heilsufarsástæður og óvænt áföll og svo hitt atriðið sem við skulum ekki gleyma, að vitanlega eiga sumir bændur aldrei nálægt búskap að koma fremur en t. d. sumir útgerðarmenn og sumir iðnrekendur, að maður tali ekki um heildsala og aðra slíka.

Ég held því að þrátt fyrir þessa breytingu nú sem er óhjákvæmileg þurfum við í framtíðinni að reyna að temja okkur önnur og markvissari vinnubrögð. Ég skora á hæstv. landbrh. að láta hraða úrvinnslunni á búrekstrarstöðu jarða og tekjustöðu og aðstöðu bænda í heild og meta í ljósi þess hvaða varanlegar ráðstafanir megi koma í stað þess sem nú er verið að gera og óhjákvæmilegt er ef bjarga á fjölmennum hóp bænda. En ég óttast að þetta sé bara bráðabirgðaráðstöfun en ekki til langframa eins og þurft hefði.

Ég ætla að geyma mér stöðu veðdeildar Búnaðarbankans til seinni umr. og ástæður þess að svo er komið að deildin stendur jafnilla og raun ber vitni. Meginorsökin liggur í þeim mikla mun sem var á vöxtum á lánsfé til deildarinnar og á útlánum á árunum 1971–1977. Það mál allt snýst um einhver mestu deiluatriði síðustu ára, verðtrygginguna og hvernig hinir ýmsu atvinnuvegir og stéttir eru og voru í stakk búnir til að bregðast við slíkri breytingu án nokkurrar aðlögunar eins og þurft hefði. Bæði í nefnd og við 2. umr. skal ég ræða það, enda málið mér býsna skylt sem stjórnarmanni veðdeildarinnar þessi ár, að hafa ekki tryggt hag hennar betur en raun ber vitni og hafa þá kannske um leið hugsað meira til þess hverjir yrðu möguleikar bænda til að standa við þær lánsskuldbindingar sem þeir tóku þá við. Því að allir vita að hvergi er verra að standa skil á verðtryggðum lánum en í landbúnaði þar sem tekjur skila sér jafnseint og illa og raun ber vitni.

Hæstv. landbrh. kom inn á það að í þessu frv. væri gerð breyting frá fyrri tíma skuldbreytingum því að ekki væri til tekið um fulla bakábyrgð ríkissjóðs. Að vísu væri ríkissjóður skv. lögum um viðskiptabanka ábyrgur fyrir öllum þeirra skuldbindingum en hér er ekki um það að ræða, enda mun hæstv. fjmrh. hafa alfarið neitað því að svo yrði. Búnaðarbankinn er að sjálfsögðu ekki of góður til að taka á sig þessa ábyrgð, hann hefur á því fulla möguleika.

En þá hlýtur sú spurning að vakna hvort svo skuli gilda um aðrar atvinnugreinar, t. d. við aðrar og enn stórfelldari skuldbreytingar sem þar eiga að eiga sér stað, hvort viðskiptabankarnir eigi þar að vera einir í ábyrgð skv. þeim skilningi að vísu sem hæstv. landbrh. kom hér inn á. Ég hefði t. d. gaman að sjá það hvort Landsbanki og Útvegsbanki yrðu gerðir alfarið ábyrgir gagnvart lausaskuldabreytingum sjávarútvegsins. Ég hlakka til að sjá frv. af því tagi því að vissulega er rétt að jafnt sé skipt á milli banka og hver banki fái sitt hlutverk og sína ábyrgð í þessum efnum. (TÁ: Hvað þýðir pennastrikið?) Nú er hæstv. ráðh. ekki tilbúinn til að svara því, en gaman hefði verið að eiga orðastað við hæstv. fjmrh. út af bréfi sem bankaráð Búnaðarbankans sendi honum út af þessu máli. Þar var gerð athugasemd við að hér væri um hættulegt fordæmi að ræða sem hlyti að ganga út yfir aðra atvinnuvegi en ekki einskorðast við skuldabreytingar í landbúnaði. Ég á seinna eftir að koma betur að því bréfi. Það þótti okkur hins vegar býsna skemmtileg afgreiðsla hjá hæstv. fjmrh. að daginn eftir að honum var sent þetta bréf kom frumritið aftur niður í Búnaðarbanka og stóð á hausnum: „Móttekið 9. febr., lesið, endursent, Albert.“

Ég ætla bara að vona að litli maðurinn fái ekki svona afgreiðslu þegar bréfin fara að koma. En við munum seinna ræða þetta, hæstv. ráðh., þegar málið kemur úr nefnd. En þetta mun vera nokkuð óvenjuleg afgreiðsla, en skýr er hún. Ekki fer það á milli mála.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Við eigum eftir að fjalla um þetta mál í landbn. og ég veit að hv. formaður rasar þar ekki neitt um ráð fram í afgreiðslu heldur gætir þess að við fáum allar þær upplýsingar sem við þurfum að fá. En eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. er allt enn á huldu um fjármögnunina. Einstakir aðilar eiga nú viðræður við Seðlabankann en lengra er það mál ekki komið. Það er því ljóst að þetta fjármagn er í dag ekki tryggt. Vonir standa til þess að það verði tryggt en enn þá hefur hátignin í Seðlabankanum ekki gefið út neitt vilyrði fyrir því að hún hlaupi undir bagga með hæstv. ríkisstj. í þessum efnum.

Ég læt líka aðrar spurningar sem vakna um fyrirkomulag og frekari útfærslu bíða 2. umr. Ég tel að landbn. geti a. m. k. ekki afgreitt þetta mál án skýrra svara um það hvernig það skuli fjármagnað, það sé a. m. k. lágmarkið. Hitt meginatriðið, sem einnig hlýtur að skýrast í nefnd, er varðandi kaup bréfanna og skyldu Seðlabankans í því sambandi eða réttara sagt hvernig hann bregst við gagnvart viðskiptabönkunum varðandi skuldabréfakaupin og bindiskylduna. Ég held að óhjákvæmilegt sé að fá skýr svör við því.

Ég sá við skjótan yfirlestur nú í morgun að landbn. í Nd. hefur borist mjög sannfærandi og vel rökstutt bréf frá bónda einum sem segir í raun og veru alla söguna um þá erfiðleika sem eru á því að viðskiptabankarnir nái að sinna skyldum sínum fyrir hátigninni í Seðlabankanum. Um það verða einnig að fást skýr svör áður en menn taka endanlega fullnaðarafstöðu til þessa máls. Mál þetta er sjálfsagt vegna þeirra erfiðleika sem bændur eiga í og það verður að framkvæma á þennan hátt nú þó æskilegra hefði verið að menn hefðu getað fundið betri og markvissari framtíðarlausn.