26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3512)

196. mál, lausaskuldir bænda

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þar sem ég og minn flokkur eigum ekki sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál mun fjalla vildi ég segja nokkur orð við þessa umr. Svo sem fram hefur komið er það ekki ný bóla að frumvörp af þessu tagi séu borin fram og hafa sætt ákveðinni gagnrýni.

Vitað er að hagur bænda er ekki góður um þessar mundir og kemur þar ýmislegt til. Ég held að sá vandi sem menn standa nú andspænis í þessum efnum eigi margar orsakir og ekki einfaldar. En fyrst og fremst hygg ég þó að ástæða sé til að taka til endurskoðunar allt það kerfi sem komið er upp í kringum og í sambandi við landbúnaðinn. Ég minni á það að í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir 280 millj. kr. til útflutningsbóta sem er að líkindum hærri upphæð en hefur nokkru sinni verið í fjárlögum. Allt bendir til að þessar 280 millj. kr. til að greiða með kjöti sem flutt er út muni hvergi nærri duga ef marka má það kjötmagn sem búvörudeild SÍS, ekki óáreiðanlegri aðili, telur að flytja þurfi út á þessu ári skv. upplýsingum sem nýlega birtust í fréttabréfi SÍS. Þar er talið að flytja þurfi út í kringum 5 þús. tonn af kjöti á þessu ári. Að vísu var ekki svo mikið kjöt verkað til útflutnings, en ef fluttar verða út 5 þús. lestir af kjöti á þessu ári mun sú upphæð sem greiða þarf í útflutningsbætur verða hátt í 500 millj. kr. Það er áreiðanlega löngu kominn tími til að endurskoða okkar landbúnaðarrekstur frá rótum.

Sjálfsagt er það rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að ýmsir eru að fást við búskap sem betur væru komnir við einhverja aðra vinnu. Ég vil aðeins minna á við þessa umr. að við Alþfl.-menn höfum margsinnis lagt til og flutt um það tillögur á hinu háa Alþingi að við fetum okkur út úr þessu kerfi, að við lækkum þessar útflutningsbætur í áföngum samhliða því sem dregið verði úr kjötframleiðslu. Nú er að vísu skylt að geta þess að nokkuð hefur verið dregið úr framleiðslunni þannig að sauðfé mun nú vera u. þ. b. 15% færra en var 1978. En betur má ef duga skal og meira að segja miklu betur. Þannig er hér við mikinn vanda að fást sem ekki er einfalt að leysa.

Ýmislegt fleira hefur verið bent á í þessu sambandi eins og t. d. að það kerfi sem nú er við lýði í þessum efnum skilar neytendum síhækkandi verði jafnframt því sem það skilar bændum stöðugt lækkandi kaupi. Ég hygg að um það þurfi ekki að vera neinn ágreiningur að kerfi sem skilar okkur slíkum árangri getur ekki verið gott kerfi. Samtímis því sem þetta gerist hefur milliliðavaldið í landbúnaði, sem farið hefur mjög vaxandi á undanförnum árum, ævinlega allt sitt á hreinu. Það er bóndinn sem er síðastur í keðjunni og mætir í rauninni afgangi. Hann er ekki of sæll af sínum hlut, það er langur vegur frá. Við höfum lagt til að það fjármagn sem sparast þau ár sem verið er að koma sér út úr þessu útflutningsbótakerfi verði m. a. notað til þess að styðja nýjar búgreinar, sem eru sumar hverjar að ná sér á strik og vaxa fiskur um hrygg, en líka verði komið til móts við bændur í tilvikum eins og hv. 2. þm. Austurl. rakti áðan, þar sem bændur eru, skv. orðum hans, fangar á jörðum sem þeir geta ekki selt og sjá þar afrakstur ævistarfs síns fara fyrir næsta lítið. Þarna þarf þjóðfélagið að koma til móts við menn og veita aðstoð og fyrirgreiðslu. Þetta viljum við að verði gert. Við leggjum líka áherslu á að þó svo menn tali hér hátt um að eitt og annað megi gera með pennastriki — hv. þm. Helgi Seljan vék áðan að afgreiðslu fjmrh. á bréfi sem hann tilgreindi og er sú afgreiðsla satt að segja með eindæmum — þá gerast hlutirnir í þessum efnum ekki með neinum pennastrikum vegna þess að hér er verið að fást við fólk, búsetu fólks og vandamál sem eru í eðli sínu erfið og viðkvæm. Þess vegna þurfa þessar ráðstafanir aðlögun og tíma. Okkur er það mætavel ljóst að hér gerist ekkert í grænum hvelli, heldur þurfa menn að ætla sér ákveðinn tíma. En meginmálið er að byrja á þessu og taka ákvörðun um að breyta núverandi kerfi.

Því miður óttast ég að meðan tveir núverandi stjórnarflokkar sitja við völd verði ekkert gert í þessum efnum vegna þess að sumpart virðist samstjórn þessara tveggja flokka oft laða fram það versta í báðum — og þá er ég ekki að tala um einstaklinga, tek það skýrt fram. Hún virðist oftast laða fram það lakasta í báðum og það lakasta hjá báðum í þessum efnum er að standa vörð um kerfið, tryggja þá hagsmuni, ímyndaða eða raunverulega, sem þar eru fyrir hendi.

Að vissu leyti mætti segja að við þyrftum að gera byltingu á þessu sviði. Við þurfum að breyta verulega því kerfi sem nú er við lýði í þessum efnum. Undan því verður ekki lengur vikist. Menn tala um það fullum fetum að það verði að viðhalda byggð í landinu. Ég er ,ekkert sannfærður um að það eigi að viðhalda byggðinni í landinu nákvæmlega eins og hún er núna á þessari stundu. Ég er alveg sannfærður um að við værum betur komin ef ekki væri stundaður búskapur á ýmsum þeim markajörðum, ef svo mætti segja, þar sem skilyrði eru erfið.

Íslenskur landbúnaður verður að una því eins og aðrar atvinnugreinar að á hann sé lögð mælistika hagkvæmninnar. Við getum að vísu kannske ekki gengið eins langt og sumir vilja í þeim efnum, sem vilja að við í mjög vaxandi mæli byggjum á innflutningi. Ég er ekki sammála þeirri stefnu. Við verðum að hafa hér traustan og öflugan landbúnað en hann á ekki og má ekki miðast við annað en að fullnægja okkar innanlandsþörfum. Útflutningur á að vera undantekning og á einungis að koma til greina þegar hann getur orðið hagkvæmur. Það getur hann sjálfsagt orðið á ýmsum sviðum en ekki þar sem útflutningurinn er mestur núna eins og t. d. á dilkakjöti. Sá útflutningur er okkur í senn afar dýr og afar óhagkvæmur. Við þurfum að leita nýrra leiða í íslenskum landbúnaði og það er orðið mjög brýnt.