26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

196. mál, lausaskuldir bænda

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr., — tek að því leyti undir orð hv. þm. Helga Seljans að ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og þá gefst tími til að meta þær aðstæður sem liggja að baki þeirri skuldbreytingu sem hér þarf að eiga sér stað. Það vill líka svo til að þær umr. sem hér hafa farið fram kalla ekki á mikil andsvör. Það verður að segjast eins og er að mér finnst að sá tónn sem í umr. er sé með vissum hætti jákvæður, eðlilega sé til staðar meiningarmunur. Það er augljóst mál að þessu máli þarf að hraða. Að því leyti sem það kemur í minn hlut mun ég reyna að vinna að því að svo verði.

Það er hins vegar ekki úr vegi að minna á örfá atriði í þessu sambandi og sem hafa þá komið fram í þessum umr.

Það er þá það fyrsta að talað er um orsakir fyrir þessari skuldasöfnun. Menn hafa sett fram viss sjónarmið í þeim efnum. Ég held að það sé alveg augljóst mál að meginástæðan fyrir þessari skuldasöfnun sé sú verðbólga sem hefur geisað í landinu á s. l. árum. Ég tek undir það, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan, Helgi Seljan, að það sem var gert árið 1979, að skuldbreyta þá yfir í verðtryggð lán, er vissulega meiri háttar afrek, sem bændastéttin hefur unnið, að komast þó fram úr því með þeim hætti sem raun ber vitni um.

Ég verð að segja alveg eins og er að sú áætlunartala sem er talað um sem heildarfjárþörf vegna þessarar skuldbreytingar finnst mér lág og eins er sá hópur bænda sem er tilgreindur ekki stór. Mér hafa sýnst kjör bænda ganga það niður á s. l. árum að undrum sætir hvað þeir hafa þó komist með sinn búrekstur. Þeir hafa að vísu m. a. mætt erfiðleikunum með því að stórminnka fjárfestingu, sem eins og allir vita er að langmestu leyti uppi borin af þeim sjálfum, en reyndar er hún líka greidd með lánum. Fjárfesting í landbúnaði er núna komin verulega niður fyrir þau mörk sem þörf er á einungis til að viðhalda verðmætum. Það er svo annað mál að þar er ekki nein vá fyrir dyrum. Það er eðlilegt að menn dragi úr fjárfestingum þegar þrengir að. Það hafa bændur sannarlega gert.

Mér finnst ástæða til að vekja líka athygli á því, þegar fjallað er um skuldbreytingar af þessu tagi og jafnvel koma fram efasemdir um tryggingar og veð fyrir skuldum, að mér er sagt að tæpast sé nokkurt dæmi um að þau lán, sem hafa verið veitt af þessu tagi, hafi tapast, þar hafi bændur staðið í skilum. Ég held að hollt sé fyrir menn að muna það og vita. Sú skuldbreyting sem hér er farið fram á og þær skuldbreytingar sem farið hafa fram áður gagnvart landbúnaðinum eru einnig miklu smærri í sniðum en í öðrum atvinnuvegum.

Það hefur hér verið á það minnst að breytta hætti þurfi í landbúnaðarmálum almennt. Hv. síðasti ræðumaður komst svo að orði að samstarf stjórnarflokkanna tveggja væri gjarnan með því marki brennt að það laðaði fram það versta í hvorum þeirra fyrir sig. Auðvitað þarf ekki að spyrja um árangur því að enginn er fullkominn. Og þegar það neikvæða af þessu tagi, eins og hér er lýst, fellur saman þarf ekki að búast við góðri niðurstöðu. Ég held hins vegar að þetta sé rangt. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega minna á að útflutningsbótatryggingakerfinu komu á þeir tveir flokkar sem við hv. þm. Eiður Guðnason tilheyrum. Það var viðreisnarstjórnin sem kom á núverandi sölukerfi í landbúnaðarmálum. Við megum með engum hætti neita því. Það er svo annað mál að á síðustu árum hefur verð þróast með þeim hætti að vissulega er þörf á endurskoðun. Núverandi landbrh. hefur einmitt gert ráðstafanir til þess að farið verði að endurskoða landbúnaðarlöggjöfina á mjög breiðum grundvelli. Ég held að menn ættu að geyma sér allar stórar yfirlýsingar um slæma niðurstöðu hjá núverandi stjórnarflokkum fyrr en því verki lýkur.

Það er svo annað mál að ýmsar yfirlýsingar á s. l. árum hafa vissulega ekki skilað miklu, en það er líka best að láta það liggja á milli hluta. Það bjargar engu í þessu dæmi sem fjallað er um að þessu sinni.

Það væri að sjálfsögðu hægt að taka miklu lengri tíma í að fjalla efnislega um málefni landbúnaðarins, milliliðakostnað, útflutningsbætur, samdrátt í framleiðslu og annað sem að þeim málum lýtur, en það væri einungis til að tefja tímann og ég vona satt að segja að það gefist seinna tími og hann rýmri til að fjalla um þau mál hér.