26.03.1984
Efri deild: 69. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

196. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti: Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér og ætla ekki að fara að hefja umr. um þau atriði sem menn hafa vikið óbeint að.

Ég vil leggja áherslu á að að undanförnu hafa verið gerðar ýmsar breytingar í landbúnaði, en mér er ljóst að leggja þarf meiri áherslu á að marka stefnu og miða við aðstæður þó að þarna sé ekki hægt að gera neinar skyndibreytingar eins og hv. 5. landsk. þm. tók fram.

Ég vil benda á að ef menn hefðu sagt fyrir fimm árum að það yrði mikið vandamál þó að fé fækkaði um 200 þús. og mjólkurframleiðslan drægist saman úr 120 millj. lítra niður í 105–106 hefði slíkt verið talin fjarstæða. Aðstæðurnar eru nefnilega alltaf að breytast. Það sem við teljum að nægi í dag getur orðið annað á morgun við gerbreytt viðhorf.

En ég læt þá máli mínu lokið núna og vænti þess að unnið verði vel í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar.