26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4131 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

255. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir ákveðnum hækkunum bóta almannatrygginga og tengist þessi ákvörðun m. a. þeim samningum sem fyrir nokkru voru gerðir á milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Þegar hefur verið tekin afstaða til þeirra hækkana sem hægt er að framkvæma með reglugerðarbreytingum en þær hækkanir snerta almennan grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega, svo og hækkun á ráðstöfunarfé vistmanna á dvalarstofnunum aldraðra.

Aðrar breytingar en þessar kalla á breytingu á lögum um almannatryggingar og þess vegna er þetta frv. fram komið.

Það var samkomulag á milli ríkisstj. og þeirra aðila sem ég nefndi áðan að úrbótum handa þeim hópum sem hér um ræðir verði best náð með sérstakri hækkun barnalífeyris, mæðra- og feðralauna, hækkun tekjutryggingar lífeyrisþega almannatrygginga, hækkun frítekjumarks og lækkun skerðingarprósentu, hækkun heimilisuppbótar og hækkun á ráðstöfunarfé vistmanna á dvalarstofnunum aldraðra.

Í frv. er fjallað um barnalífeyri og gerð till. um að óendurkræfur barnalífeyrir verði hækkaður úr 1615 kr. á mánuði í 2015 kr., eða að árlegur barnalífeyrir verði 27 180 kr. Rétt er að benda á að gert er ráð fyrir að meðlagsgreiðslur fylgi þessum greiðslum svo sem verið hefur, enda þótt lög um almannatryggingar geti ekki um það, enda falla ákvarðanir um slíkar greiðslur undir barnalög en venjan hefur verið sú að þessar greiðslur héldust í hendur. Gert er ráð fyrir því að mæðra- og feðralaun hækki þannig að með einu barni verði þau 1263 kr. á mánuði í stað 513 kr. en með tveimur börnum í 3309 kr. á mánuði í stað 1809 kr. og með þremur börnum 5869 kr. á mánuði í stað 3619 kr.

Hvað snertir tekjutryggingu eða uppbót á lífeyri er gerð till. um að tekjutryggingin hækki úr 3861 kr. á mánuði í 4728 kr., eða sem nemur 22,5%.

Með reglugerðarbreytingu er gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrir eða grunnlífeyrir hækki um 7% þannig að heildarhækkun grunnlífeyris og tekjutryggingar verður því um 15.5% skv. frv. og reglugerðinni um hækkun bóta. Hér er leitast við að gera hlut þeirra sem lægstar hafa tekjurnar sem bestan, þ. e, hækkun tekjutryggingar sem er miklu meiri en hækkun grunnlífeyris.

Hvað snertir svokallað frítekjumark, þ. e. þær tekjur sem bótaþegi má hafa á ári án þess að réttur hans til tekjutryggingar skerðist, er gert ráð fyrir því að hafi bótaþegi tekjur umfram 29 084 kr. á ári skerðist uppbótin hér eftir um 45% þeirra tekna sem umfram það eru, en skv. gildandi lögum er miðað við 55 % skerðingu. Í almannatryggingalögum er heimilt að hækka frítekjumarkið með reglugerð. Reglugerð sú sem nú er í gildi gerir ráð fyrir að frítekjumarkið hjá einstaklingum sé 26 440 kr. Þannig er með þessu frv. lagt til að það hækki sem nemur 2 644 kr., en gert ráð fyrir að hjónalífeyrir verði hlutfallslega óbreyttur og tekjuhugtakið verði óbreytt frá því sem verið hefur.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að heimilisuppbót hækki um 10% og verði 1422 á mánuði. Þessa uppbót fá einhleypingar sem njóta óskertrar tekjutryggingar og eru einir um heimilisrekstur.

Í frv. er gert ráð fyrir breytingu á 19. gr. gildandi almannatryggingalaga til að taka af allan vafa um að tekjufjárhæð vegna tekjutryggingar skuli miðast við tekjur á árinu 1982 og að þeim fjárhæðum skuli breytt 1. júlí árlega til samræmis við hækkanir bóta og annarra tekna á milli ára, en um það hafa ekki verið ákvæði í lögum áður.

Þá er lögð til sú breyting varðandi síðustu mgr. um ráðstöfunarfé vistmanna á dvalarstofnunum aldraðra að heimildin skuli miðast við 25% grunnlífeyris- og tekjutryggingar en í gildandi lögum takmarkast heimildin við lágmarkslífeyri, þ. e. eingöngu grunnlífeyri.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. Það hefur verið rætt og afgreitt frá Ed. og enn fremur hefur um þessar bætur verið tilkynnt í Sþ. En ég legg á það mikla áherslu að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu vegna þess að það er orðinn mjög þröngur tími til þess að útgreiðslur bóta geti átt sér stað þar sem það er í síðasta lagi í þessari viku sem það þarf að liggja fyrir að við næstu greiðslu bóta verði þetta frv. orðið að lögum. Ég vænti því að hv. þd. afgreiði þetta mál af þessum ástæðum með mjög snörum hætti.