26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4134 í B-deild Alþingistíðinda. (3529)

255. mál, almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir sagði um frv. þetta áðan, þannig að mín aths. er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og snertir 5. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir mjög þýðingarmikilli breytingu á 51. gr. almannatryggingalaganna.

Þar er gert ráð fyrir að vasapeningar svokallaðir verði framvegis ekki takmarkaðir við það að vera 25% af lágmarkslífeyri, eins og þetta hefur verið skv. lögum, sem hefur að vísu ekki verið hlítt, heldur er í frv. ríkisstj. gert ráð fyrir að lágmarkslífeyrir, þ. e. vasapeningar, verði 25% grunnlífeyris og tekjutryggingar. Viðmiðunargrundvöllurinn stækkar því mjög verulega frá því sem verið hefur og þess vegna skapar þessi brtt. frv. möguleika til að rýmka þessa vasapeninga frá því sem gildandi almannatryggingalög gera ráð fyrir.

Hins vegar tel ég að nauðsynlegt sé af þessu tilefni að fara fram á það við hæstv. heilbr.- og trmrh. að hann íhugi hvort ekki er rétt og nauðsynlegt að samræma með óyggjandi hætti lágmarksskilgreiningu almannatryggingalaganna annars vegar á vasapeningum og hins vegar laganna um málefni aldraðra. Í lögunum um málefni aldraðra frá 1982 er gert ráð fyrir að menn skuli halda eftir til eigin þarfa 25% tekna sinna, þ. e. þeir sem eru á dvalarstofnun fyrir aldraða, en þeir sem eru aftur.á hjúkrunardeild 15% tekna sinna. Í þessu frv. gerir ríkisstj. aftur á móti ráð fyrir að menn haldi eftir 25% grunnlífeyris og tekjutryggingar. Þetta þarf auðvitað ekki að vera alveg sambærileg tala, heldur getur hún verið aðeins mismunandi, en það á að vera óþarfi fyrir okkur að vera með tvær skilgreiningar á þessari viðmiðun.

Þetta var, herra forseti, sú aths. sem ég vildi gera, sem er eingöngu tæknilegs eðlis, en ég spara mér umræðu um pólitíska hlið málsins til 2. umr. til að greiða fyrir því að mál þetta komist hið fyrsta til meðferðar í n. — En ég fer alvarlega fram á það við hæstv. heilbr.- og trmrh. að þetta mál verði athugað sérstaklega.