26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3534)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á þskj. 486 kemur fram afstaða mín og okkar Alþb.-manna til frv. sem hér er nú á dagskránni. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur mælt fyrir áliti minni hl. þar sem við leggjum til að frv., sem er 159. mál Ed., verði fellt, en það er sama afstaða og ég hafði til frv. sem er 160. mál Ed., um frádrátt frá skattskyldum tekjum fyrirtækja. Ég vil taka það fram vegna 160. máls að þar hefur komið fram sú till. frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að því máli verði vísað til ríkisstj. Þar sem sú till. kemur fyrst til atkv. mun ég fyrir mitt leyti greiða henni atkv. þegar þar að kemur og greiða síðan atkv. á móti frv. Ég mun hins vegar, falli frv. ekki, styðja þá brtt. sem fram er komin varðandi það að þetta nái til fleiri fyrirtækja en færri. Ég tel þá till. til bóta, ef eitthvað er, á frv. sem hér er lagt fram og hefur verið kallað af einum talsmanni ríkisstj. hér í dag hreint kák, eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson komst að orði í umr.

Ég tel að rétt sé að rifja upp hverjar eru meginástæðurnar fyrir afstöðu okkar til þessara frv.

Í fyrsta lagi tel ég að það sé óeðlilegt á sama tíma og lífskjör í landinu eru skert stórlega og félagsleg þjónusta að veita fyrirtækjum sérstök skattfríðindi. Það er fráleitt með öllu að gera slíkt og er í andstöðu við mína pólitísku stefnu og skoðun. Ég tel að með þessu móti sé ríkisstj. í rauninni að hygla fyrirtækjunum á kostnað fólksins og þannig að afhjúpa eðli sitt sem stuðningsaðili fjármagnsins þegar þessu tvennu lýstur saman, annars vegar fólkinu og hins vegar fjármagninu.

Í öðru lagi tel ég að þetta frv. sé mjög gallað tæknilega séð. Það kom fram hjá skattstjóranum í Reykjavík og hjá formanni Félags endurskoðenda að frumvörpin sem hér liggja fyrir verði mjög erfið í framkvæmd og flókin. M. a. kom það fram hjá öðrum þessara aðila, ég hygg skattstjóranum í Reykjavík, að eftirlit með framkvæmd þessara lagaákvæða yrði mjög erfitt og dýrt. Það mundi kalla á fleiri menn til þess að fylgjast með sköttum og skattaframtölum fyrirtækja en þegar er um að ræða. Það mundi með öðrum orðum bæta við báknið meðan ávinningurinn af þessum frv. er auðvitað mjög óljós.

Þriðja atriðið sem ég nefni varðandi afstöðu mína til þessara frumvarpa er fólgið í því að ekki er vitað um það tekjutap sem þau munu hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Þess vegna tel ég að í flutningi svona frv. af hálfu ríkisstj. komi fram ábyrgðarleysi gagnvart stöðu ríkissjóðs, sem hæstv. fjmrh. hefur gert þingi og þjóð grein fyrir með mjög ítarlegum hætti síðustu vikurnar.

Í fjórða lagi tel ég að þetta frv. sé fyrst og fremst fyrir þá sem kunna á kerfið. Ég held að það sé verið að búa til „Glistrupssmugur“ í íslenska skattakerfið handa þeim sem kunna að nota sér það, en það eru fyrst og fremst þeir sem hafa sérfræðiþekkingu á rekstri fyrirtækja. Við þekkjum af umræðum frá liðnum áratug hvernig þekktur danskur stjórnmálamaður hagnýtti sér smugur í danska skattakerfinu til að koma undan fjármunum í stórum stíl. — Þetta vildi ég nefna hér, herra forseti, sem meginástæðurnar fyrir því að ég er andvígur þessu frv.

Ég tel hins vegar að það sé alveg rétt, sem hér hefur komið fram, bæði hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni og hv. þm. Jón Baldvini Hannibalssyni, að þetta frv. snertir grundvallaratriði þjóðmálaumræðunnar. Það snertir spurninguna um hvar áherslur manna eru í sambandi við þjóðmál og stjórnmálaátök yfirleitt. Í þessum efnum er spurningin ekki hvað er gott eða hvað er vont, heldur er spurningin hvar menn kjósa að hasla sér völl og hvar menn hafa trú á að unnt sé að finna lausnir á þeim fjölmörgu vandamálum sem samfélögin eiga alltaf við að glíma.

Ég set þetta gjarnan þannig upp, að annars vegar sé um að ræða sjónarmið okkar sósíalista og vinstri manna, sem teljum að vinnan sé uppspretta auðæfanna og þeir sem vinnuna inna af hendi eigi að eiga sem mestan ráðstöfunarrétt á þeim verðmætum sem vinnan skapar á hverjum tíma. Með þessu móti teljum við að leggja beri áherslu á sem best kjör þeirra sem skapa verðmætin og vinnuna vinna og við teljum að það sé nauðsynlegt að leggja áherslu á félagslegar umbætur til að stuðla að sem bestum lífskjörum hins vinnandi manns. Þetta er okkar sjónarmið og við teljum jafnframt að það sé nauðsynlegt að ákvarðanir í þjóðfélaginu séu teknar á þessum grundvelli, þ. e. þeim að launamennirnir og þeir sem verðmætin skapa, sem eru yfirgnæfandi meiri hluti hverrar þjóðar, ráði sem mestu um sín kjör, þ. e. menn ákveði sjálfir hvernig þeim verðmætum er ráðstafað sem þeir sjálfir skapa. Þess vegna er það sem flokkar eins og vinstri flokkar og sósíalískir flokkar eru lýðræðisflokkar. Það eru flokkar sem leggja áherslu á að fólk hafi vald á hinu nánasta umhverfi sínu á vinnustaðnum og annars staðar og hafi einnig full tök á stjórnkerfi landsins á hverjum tíma. Þess vegna leggja slíkir flokkar að jafnaði og yfirleitt alltaf mjög mikla áherslu á nauðsyn þess að lýðræðislegar leikreglur séu í heiðri hafðar og m. a. hljóta slíkir flokkar, ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir, að leggja áherslu á það sem kallað er „plúralistískt“ samfélag, þ. e. samfélag þar sem mönnum gefst kostur á að velja um stjórnmálastefnur og stjórnmálamenn á hverjum tíma. Þess vegna getur það kerfi sem vitnað var til hér fyrr í dag af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, þar sem er í raun og veru bönnuð öll verkalýðshreyfing og stjórnarandstaða, ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem ég hef, a. m. k. ekki í þessum efnum, og ég tel það eigi í rauninni ekkert skylt við það sem ég kalla sósíalisma.

Ég tel að það sé eðlilegt að þessi grundvallaratriði séu rædd einmitt í tengslum við þetta frv. og það skiptir ákaflega miklu máli, að mínu mati, að okkur takist af og til, þegar við erum að della um stjórnmál, að fara ofan í grundvallaratriðin og reyna að skiptast á skoðunum með heiðarlegum hætti eins og mögulegt er og aðstæður leyfa.

Þarna dreg ég sem sé markalínur annars vegar hjá þeim sem vinnuna inna af hendi og verðmætin skapa. Hins vegar er svo sú áhersla sem ég kalla áhersla á fjármagnið og fyrirtækin, þ. e. á gróðann eða hagnaðarvonina sem meginhvata hinnar þjóðfélagslegu framvindu á hverjum stað og hverjum tíma. Þessum viðhorfum lýstur svo að segja alltaf saman í mjög skörpum andstæðum, en það er þó ekki þannig að þetta þurfi alltaf að vera í tveimur alveg aðskildum hólfum, heldur er auðvitað hugsanlegt að almenningi á hverjum stað og hverjum tíma nýtist eitt og annað t. d. úr þeim þáttum sem lúta að samkeppni í þjóðfélaginu, lúta að einkarekstri fyrirtækja, svo að ég nefni dæmi, en þá verður auðvitað að setja um það lýðræðislegar leikreglur að skorða slíka starfsemi af þannig að fjármagnið takmarki ekki lýðræðisleg réttindi fólksins.

Ég held að þarna séum við komin að kjarna málsins. Ég held að það sé, svo að ég leyfi mér að nota stórt orð, næstum að segja siðlaust, á sama tíma og verið er að taka næstum þriðju hverja krónu af fólkinu í landinu, að ætla sér að láta fyrirtækin hafa sérstök aukaskattfríðindi. Rök meðhaldsmanna þessa frv. eru þau að með þessu móti sé hægt að bæta atvinnulífið, fjölga atvinnutækifærum og þar fram eftir götunum. Ég sé ekkert slíkt í þessu frv. sem sannfærir mig um það.

Ég segi fyrir mig að ég er til viðtals um að skoða ýmsa hluti í líkingu við það sem menn eru hér að tala um, ef ég væri sannfærður um að það hefði í för með sér að atvinnulífið efldist að marki frá því sem nú er. Í þessum efnum minni ég t. d. á launamannasjóði, sem hafa verið mjög umræddir í því landi Svíþjóð nú um nokkurra ára skeið. Það er mál sem mér finnst að komi fyllilega til athugunar að verði skoðað hér á landi, hvernig hægt er að tengja uppbyggingu launamannasjóða við eflingu atvinnulífsins og þá um leið hugsanlega aukin yfirráð launamannanna í atvinnulífinu sjálfu og áhrif þeirra á vinnustöðum á hverjum stað. Ég tel sem sagt að slíkt komi vel til greina og menn eigi að ræða það af fullri alvöru.

Ég hef á undanförnum árum oft og tíðum rætt þetta við forustumenn og aðra félaga mína t. d. í verkalýðssamtökunum og ég hef tekið eftir því að það eru skiptar skoðanir um þessa launamannasjóði þar. Sumir telja að þeir yrðu sjóðabákn til viðbótar við aðra sjóði og mundu lítinn vanda leysa vegna þess líka að það er flókið að sjá fyrir endann á því hvernig þessu ætti að stjórna. Aðrir telja að þetta væri aftur á móti af hinu góða, það mundi stuðla að auknum áhuga launafólksins á atvinnulífinu. Ég tel að það sé í raun og veru ákaflega mikilvægt að slíkt gerist.

Ef menn ákveða hins vegar að fara út á braut eins og þá sem hér er gerð tillaga um þurfa menn að mínu mati að gera samhliða til þess ráðstafanir, t. d. með breytingum á hlutafélagalögunum, að tryggja að launamennirnir fái aukin áhrif í hlutafélögunum sjálfum, sem þeir vinna hjá. Ég held að í þessum efnum séum við hér á Íslandi mjög langt á eftir. Því hefur oft verið haldið fram, m. a. af mínum flokksbræðrum á liðnum ár.um, að þetta fyrirkomulag, að auka aðild launamannanna t. d. að stjórnun slíkra fyrirtækja, geti beinlínis verið varasamt við ákveðnar kringumstæður vegna þess að það dragi úr baráttuvilja eða þrótti manna í hinum einstöku verkalýðsfélögum. Ég held að þetta sé nokkur misskilningur. Ég held að við séum á því stigi samfélagsþróunarinnar að eðlilegt sé og nauðsynlegt að launamenn komi sem víðast við sögu við framþróun og uppbyggingu atvinnulífsins. Ég held að það verði að vera ljóst fyrir þeim eins og öðrum að markmið launamannanna, markmið sósíalismans og jafnaðarstefnunnar hefur auðvitað verið að launamennirnir sjálfir réðu örlögum sínum á hverjum stað og tíma, auðvitað eftir lýðræðislegum leikreglum, og þess vegna sé það mikil fjarstæða að þeir haldi sig frá atvinnurekstri á hverjum stað og hverjum tíma. Ég held þvert á móti að þar þurfi að verða veruleg breyting á.

Hér snýst ekki deilan um hvort fyrirtæki þurfi við ákveðnar kringumstæður að skila hagnaði eða þau séu jafnvel rekin með tapi. Hér er það ekki heldur þannig, að t. d. vinstri menn líti svo á að ríkið eigi að hlaupa undir og reka hallafyrirtækin. Málið snýst ekki um það og málið snýst ekki heldur um mismunandi skoðanir á hagnaði út af fyrir sig, enda er hagnaður auðvitað tiltekin bókhaldsniðurstaða í fyrirtækjum. Spurningin er miklu frekar um það, hvernig leikreglur eru settar í þeim fyrirtækjum sem hagnað hafa um ráðstöfun hans á hverjum tíma, því að það er eðlilegt að líta á hagnaðinn sem félagslega eign vegna þess að hann er til orðinn fyrir vinnu þess fólks, sem í fyrirtækinu starfar. Þess vegna er það fullkomlega órökrétt, að okkar mati, að líta á hagnaðinn sem eign einhvers einstaklings sem fyrirtækið á. Við teljum að hagnaður, hvar sem hann verður til, hljóti í rauninni að eiga að vera eign þeirra sem hagnaðinn skapa.

Þá kemur aftur að þeirri spurningu sem hv. þm. Guðmundur Einarsson velti fyrir sér áðan og hefur oft gert hér í ræðustól og það er þetta: Mundi verkafólk vera betur komið ef það gæti samið við hvert fyrirtæki fyrir sig, vegna þess að þá viti menn betur hvernig fyrirtækið er á sig komið og þá taki menn tillit til þess í sínum launasamningum o. s. frv.? Ég held að þetta sé ekki góð stefna. Ég hef reynt að hugsa um þetta af allri velvild. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í þessum efnum verði menn að reyna að finna meðalhóf.

Að reyra svo að segja alla verkalýðshreyfinguna og öll fyrirtæki föst í einn og sama kauptaxtann á hverjum tíma er slæmt, bæði fyrir fólkið og fyrirtækin, vegna þess að það stríðir gegn allri eðlilegri þróun að reyra hlutina þannig fasta.

Ég get tekið dæmi af slíkri efnahagsstefnu, að vísu í stærra samhengi en á Íslandi. Í Sovétríkjunum er ástundaður miðstýrður áætlunarbúskapur um alla hluti, m. a. um verðlagningu sem ákveður að það skuli vera sama verð á tertum í Verkhoyansk og í Leningrad. Slík stefnumótun, hvað sem að menn kalla hana, gengur engan veginn upp. Hún er fjarstæða. Og hún er líka fjarstæða að því er varðar launamenn og atvinnurekendur. Hún er líka fjarstæða þar og líka fjarstæða í þessu litla samfélagi Íslandi. Í þessum efnum gildir það sem haft var eftir Mao formanni og seinna Guðmundi J., að það á að leyfa 1000 blómum að gróa og blómstra. (ÓÞÞ: Okkur þykir þetta dálítið dulræn speki.) Það þykir framsóknarmönnum eðlilega, enda eru þeir sjaldan þessa heims nú orðið.

Þessi stefna er að mínu mati í raun og veru fráleit, að ætla sér að reyra fyrirtækin og fólkið inn í eitt og sama bandið að því er varðar kaup og kjör. Hins vegar mega menn ekki láta þetta þróast svo langt að menn verði í öllum tilvikum eingöngu að sæta því sem er hjá hverjum atvinnurekanda fyrir sig. Þarna verða menn að hafa skjól hver af öðrum. Ef sú stefna væri uppi sem hv. þm. Guðmundur Einarsson hefur gjarnan barist fyrir og Bandalag jafnaðarmanna, þá er alveg ljóst að vinnuaflið, fólkið, mundi sækja frá fyrirtækjunum með slæmu afkomuna yfir til fyrirtækjanna með góðu afkomuna. Það þýðir m. ö. o. það, ef við látum þetta eitt standa, að það fæst ekki fólk til að vinna í ýmsum greinum sjávarútvegs, miðað við þær aðstæður sem hafa verið á Íslandi, því þau fyrirtæki hafa yfirleitt verið vendipunkturinn í efnahagslífinu hér og hefur þess vegna verið haldið oft og tíðum við mjög krappar rekstraraðstæður.

Ég held þess vegna að þarna verði menn að finna aðra leið en þá sem þeir þm. Bandalags jafnaðarmanna hafa talað fyrir. Ég hins vegar skil vel þær áhyggjur, sem þeir hafa og ég deili alveg með þeim, að það er beinlínis hættulegt þegar fram í sækir fyrir verkalýðshreyfinguna og reyndar fyrir fyrirtækin líka, að mínu mati, ef menn ganga allt of langt í þessari miðstýringarviðleitni. Þarna verða menn að finna aðrar reglur, og það er vandfundið meðalhófið í þessum efnum eins og öðru.

Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, vegna þeirra ummæla sem hér komu fram í dag hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni um grundvallaratriði þessara mála. Ég er þeim auðvitað ekkert sammála um margt af því sem þeir sögðu, en það er ekki aðalatriðið, heldur vildi ég aðeins geta þess að mér finnst það þess virði í umr. um þetta mál að menn ræði nokkuð um grundvallaratriðin.

En af því að þeir framsóknarmenn eru komnir til sjálfs sín, a. m. k. einn þeirra hér í salnum, hv. ritari deildarinnar, hlýt ég að nota tækifærið og vitna til þess manns sem fer með forustu fyrir samvinnuhreyfinguna hér í þessu landi um þessar mundir, en það er grein sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 25. mars 1984 og heitir: Misskilningur leiðréttur. Um skattamál samvinnufélaga, hlutafélaga og Miklagarðs, eftir Erlend Einarsson forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga. — Og mér þætti nú miklu betra, þó að ég meti mikils ritara deildarinnar, ef hér væru fleiri framsóknarmenn í fyrirsvari í sambandi við þessi mál því þeir hljóta að hafa áhyggjur af því — eða hvað? — Þegar vegið er að samvinnuhreyfingunni með þeim hætti sem Erlendur Einarsson lýsir í þessari grein. Kannske hafa þeir ekki lengur neinar áhyggjur af því og skilja ekki að íhaldið er að draga að þeim dár með flutningi og samþykki þessara frv. hér í þinginu þar sem verið er í rauninni að reisa Framsfl. níðstöng. En það er ekki víst þeir skilji það heldur, ekki einu sinni þeir sem eru á Vestfjörðum hvað þá heldur hinir.

En í grein Erlends Einarssonar kemur margt mjög fróðlegt fram um þessi frv. og það hvernig saumað er að samvinnufyrirtækjunum að hans mati í þessum frv. Það segir svo í grein hans, með leyfi hæstv. forseta:

„Andstæðingar samvinnuhreyfingarinnar mikla mjög fyrir sér það hagræði sem samvinnufélögin hafa af því að mega endurgreiða félagsmönnum sínum hluta af tekjuafgangi í formi afsláttar af viðskiptum áður en tekjuskattur er á lagður. Sérstaklega blæðir þeim það í augum að samþykkja megi að leggja veittan viðskiptaafslátt til félagsmanna sem séreign hvers og eins á stofnsjóðsreikninga þeirra.

Nú er það svo að réttlæti næst ekki alltaf með því að láta nákvæmlega sömu reglur gilda um alla hluti án tillits til aðstæðna. Mismunandi skattaákvæði um hlutafélög og samvinnufélög endurspegla fyrst og fremst eðlismun á þessum tveimur félagsformum sem gera ókleift að beitt sé sömu skattareglum. Í því sambandi er rétt að undirstrika að í samvinnufélögunum er ekki um neitt innborgað áhættufjármagn (hlutafé) að ræða. Af því leiðir að samvinnufélögin geta ekki nýtt sér skattívilnanir hlutafélaga varðandi arð og jöfnunarhlutabréf. Sama má segja um afsláttarheimildir samvinnufélaganna, þær henta ekki hlutafélögunum þar sem félagsréttindi í hlutafélögum eru bundin við fjármagnið, áhættufé eigendanna, en ekki þátttöku í starfseminni, þ. e. umfang viðskipta líkt og í samvinnufélögunum. Þrátt fyrir þennan mismun og mismunandi skattákvæði er að sjálfsögðu sanngirnismál að þegar upp er staðið greiði mismunandi félagsform sambærilega skatta. Við teljum að svo sé, enda hefur aldrei verið sýnt fram á það með rökum að samvinnufélög greiði minni skatta en hlutafélög.

Samanburður á sköttum þessara tveggja félagsforma er hins vegar nokkuð flókinn og engin tök á að gera grein fyrir slíku í stuttri blaðagrein. Því mun ég ekki þreyta lesendur með löngum skýringum þar að lútandi. Óþarft ætti hins vegar að vera að taka fram að hvað aðra skatta varðar en tekjuskattinn gilda nákvæmlega sömu ákvæði um samvinnufélög og hlutafélög og einnig að skattstigar tekjuskatta eru að sjálfsögðu þeir sömu. Á því er hins vegar rétt að vekja sérstaka athygli að á næstunni kann að verða umtalsverð breyting“ — ég vek athygli hv. þm. á þessu — „umtalsverð breyting á skattalegri stöðu hlutafélaga, en þar á ég við þau frv. sem nú liggja fyrir Alþingi, sem fyrirsjáanlega munu stórbæta hag hlutafélaga og eigenda þeirra, verði þau að lögum.

Frv. þessi gera ráð fyrir að hlutafélög geti dregið frá tekjum sínum 10% arð án tillits til afkomu ársins, þ. e. myndað skattalegt tap ef tekjuafgangur viðkomandi árs nægir ekki fyrir arðgreiðslum. Jafnframt verður allur arður skattfrjáls hjá einstaklingunum sem félögin eiga, þó að hámarki 50 þús. kr. hjá hjónum. Hlutafjáreign að fjárhæð 500 þús. kr. hjá hjónum verður eignarskattsfrjáls en með útgáfu jöfnunarhlutabréfa má í flestum tilfellum þannig til haga að félögin verði einnig eignarskattsfrjáls. Er þó ótalið það ákvæði að innleiða skattfrádrátt fyrir það fé sem varið er af einstaklingum til hlutabréfakaupa eða lagt til stofnfjárreikninga einstaklingsfyrirtækja.

Sýnist mér“, segir svo, „að Alþingi þurfi að huga gaumgæfilega að því hvort umræddar breytingar muni ekki ívilna hlutafélögum óeðlilega mikið í samanburði við önnur félagsform, þ. á m. samvinnufélög, verði frv. þessi að lögum.“

Nú óska ég eftir því að hæstv. forseti kalli hingað í formann fjh.- og viðskn. Nd., það mundi vera hv. þm. Páll Pétursson, ég þarf að eiga orðastað við hann augnablik. (Forseti: Ég skal athuga hvort hann er viðlátinn.) Hér er bersýnilega um það að ræða að forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga og forustumenn SÍS telja að mjög sé vegið að samvinnufyrirtækjum með þessum lagafrv. sem hér liggja fyrir. Ég hef ekki orðið var við það þó, að þeim framsóknarmönnum hafi orðið bumbult af þessum trakteringum sem Sjálfstfl. er að matreiða fyrir þá þessa dagana. Það hefur ekki komið fram að þeir framsóknarmenn hafi minnsta fyrirvara í þessu máli. Ég man reyndar ekki eftir því að það hafi neinn framsóknarmaður talað í þinginu í þessum málum, nema hv. þm. Ólafur Þórðarson sem ruddi brautina og braut ísinn, eins og hans var von og vísa, og steig hér í stólinn í dag óhræddur við að ræða um málin. Hann sagði hins vegar, þessi eini talsmaður Framsfl., eini þm. Framsfl. sem hefur þorað að tala í þessum umr., að þetta frv. væri hreint kák. Það eru einu meðmælin sem hafa komið frá Framsfl. þann tíma sem þessi frv. hafa verið á dagskrá núna í eina tvo, þrjá mánuði. Ég kannast ekki við að aðrir þm. Framsfl. hafi sagt eitt aukatekið orð um þessi frv., sem vega að samvinnuhreyfingunni eins og forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga hefur gert grein fyrir í þeirri blaðagrein sem ég var að vitna til áðan.

Ég hef reyndar aldrei verið þeirrar skoðunar að Framsfl. væri sérstakur samvinnuflokkur, hann er í rauninni búinn að yfirgefa öll grundvallaratriði samvinnustefnunnar. Hann hefur snúið baki við samvinnustefnunni svo að segja í einu og öllu. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var auðvitað þannig séð kaflaskipti í sögu Framsfl. að hann er nú úr sögunni sem félagshyggju- og vinstri flokkur í þessu landi og rær hér eftir á hægri miðum og hvergi annars staðar. Auðvitað er þessi afstaða til frv. ríkisstj. núna í góðu samræmi við þá kúvendingu sem hefur átt sér stað í Framsfl. Þeir hafa svikið uppruna sinn, svo að segja, í einu og öllu. Það er ekkert orðið eftir af þeirri stefnu sem Framsfl. þóttist hafa í heiðri fyrir 100 árum þegar menn voru að stofna kaupfélög og berjast við danska kaupmannavaldið. Nú eru hér flutt frv. um fríðindi handa kaupmannavaldinu. Það hefðu Benedikt frá Auðnum þótt fréttir er ég hræddur um. (ÓÞÞ: Hvað hyggur þú flokkinn gamlan?) Framsóknarflokkurinn er allgamall flokkur. En það er eðlilegt að hv. þm. skuli spyrja um þetta. Hann er ekki sögufróðari en frægt er. (ÓÞÞ: Er hann 100 ára?) Þannig er að samvinnuhreyfingin er 100 ára og það var sagt fyrr á öldinni að Framsfl. ætti rætur í samvinnuhreyfingunni. Því er hv. þm. bersýnilega búinn að gleyma. Það er þess vegna greinilega þörf á að ég rifji upp nokkur orð frá forustumönnum Sambandsins um þessi skattafrv., sem hv. þm. er hér að rótast með í gegnum þingið fyrir íhaldið.

Hefur nú gengið í salinn hv. 2. þm. Norðurl. v., formaður fjh.- og viðskn. Nd. og ábyrgðarmaður Framsfl. á þessum frv. um fríðindi fyrirtækja. Þetta eru frv. sem íhaldið hefur í rauninni rekið ofan í Framsfl. Það hefur ekki komið fram að neinn framsóknarmaður hafi séð ástæðu til að kvarta eða til að segja eitt eða neitt eða til að rökstyðja þessi mái. Það er til marks um að Framsfl. er kominn eins langt frá upprunalegri stefnu sinni í þessu máli eins og öðrum og mögulegt er. Þegar talað er um umskipting að því er varðar Framsfl. er mjög lítið sagt og vægt til orða tekið og í rauninni allt of lítið og tekur því varla að hafa það orð um þann flokk eins og hann er á sig kominn nú orðið.

Ég var ekki að vitna í minni mann en forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga sem skrifaði grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýnist mér að Alþingi þurfi að huga gaumgæfilega að því hvort umræddar breytingar muni ekki ívilna hlutafélögum óeðlilega mikið í samanburði við önnur félagsform, þ. á m. samvinnufélög, verði frv. þessi að lögum.“

Þetta er það sem Erlendur Einarsson segir. Og hvernig ætli það sé nú? Hefur Framsfl. gaumgæft þessi mál nákvæmlega hér í þinginu? Hvað hafa þeir gaumgæft þetta mál mikið, þeir félagar hv. þm. Páll Pétursson og aðrir framsóknarforustumenn hér í þinghaldinu? Hvað hafa þeir nú verið að gaumgæfa í þessu máli? hefur Samband ísl. samvinnufélaga með stærstu fyrirtæki landsins á sínum snærum verið beðið um umsögn um málið? Það er nú þannig að frv. af þessu tagi eru oft send til umsagnar ýmissa samtaka. T. d. var það hv. þm. Ragnar Arnalds sem fór fram á að þessi frv. yrðu send til umsagnar Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og verkalýðssamtakanna. En báðu þá þeir framsóknarmenn hv. þm. Páll Pétursson, sem er nú formaður í n. í Nd., eða framsóknarmaðurinn í Ed.-n., ætti það sé ekki hv. þm. Tómas Árnason, um umsögn frá Sambandi ísl. samvinnufélaga eða samvinnuhreyfingunni? Báðu þeir um hana? Liggur hún fyrir? Hvar er hún? Hún liggur ekki fyrir. Þeir báðu aldrei um það. Hins vegar var beðið um eitthvað af umsögnum frá Verslunarráðinu og slíkum aðilum. Það var tryggt að þau plögg kæmu til skila, en að samvinnuhreyfingin væri spurð, hún var ekki spurð, ekki aukatekið orð. Það var hins vegar einhver starfsmaður af SÍS-kontorunum sem var hafður í vinnu um þessi frv. ásamt hv. þm. Þorsteini Pálssyni, en hann var fyrst og fremst í því að skrifa þessa texta upp. Það var ekki álit samvinnuhreyfingarinnar eða Sambands ísl. samvinnufélaga sem kom fram í því. Þannig er bersýnilegt að Framsfl. gerir lítið með samvinnuhreyfinguna og ég er ekki að segja að það komi mér á óvart. (ÞP: Það er nú kominn tími til.) Hann gerir lítið með samvinnuhreyfinguna og er í rauninni enginn sérstakur samvinnuflokkur og hefur ekki verið það lengi, a. m. k. ekki frá 27. maí 1983 þegar stóru undrin gerðust. (ÓRG: Formaður Sjálfstfl. var að kalla fram í og sagði að það væri nú tími til kominn.) Hv. 1. þm. Suðurl. kallaði fagnandi fram í. Það er nú kominn tími til, sagði fyrrv. forstjóri Vinnuveitendasambandsins og gleðst yfir þeirri breytingu sem orðin er á framsóknarheimilinu við þá nýju forustu sem þeir hafa þar nú, þá Steingrím Hermannsson og Pál Pétursson. (Gripið fram i: Það er í eina skiptið sem hann hefur brosað í þingsalnum.) Þar kveður nú við allt annan róm en áður var.

Í rauninni eru mjög athyglisverð þau sinnaskipti sem Framsfl. hefur hér tekið. Það er ekki nóg með að hann hendi hér inn frv. sem vísar arfleifðinni frá Benedikt frá Auðnum á bug gersamlega, heldur kemur Framsfl. þannig fram við Samband ísl. samvinnufélaga að það er ekki látið svo lítið að biðja um umsögn frá Erlendi. Það hefði einhvern tíma þótt fyrirburður á þeim bæ ef Samband ísl. samvinnufélaga væri ekki einu sinni talið þess virði að senda umsögn um málið.

Þetta staðfestir algjörlega hvers lags flokkur Framsfl. er orðinn. Hann er flokkur hægri stefnu, fjármagns og fyrirtækja. Það er liðin tíð að Framsfl. sé samvinnuflokkur, enda er það svo að samvinnumenn hljóta að líta annað en til Framsfl. á komandi árum. Það eru aðrir sem þar hafa forustu í málflutningi.

En nú vil ég gefa hv. þm. Páli Péturssyni kost á því að bæta sig. Þannig eru mál vaxin að hv. þm. Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks Sjálfstfl., benti mér á að e. t. v. yrði 3. umr. um þetta mál að fara fram á miðvikudag. Fyrst svo er er möguleiki á því samkv. þingsköpum að hv. þm. Páll Pétursson skrifi Erlendi, láti nú svo lítið af því að Erlendur er eiginlega að biðja um að fá bréf frá hv. þm. Páli Péturssyni, — brjóti nú odd af oflæti sínu í íhaldsvinnunni og skrifi Erlendi Einarssyni og biðji um skoðun á málinu. Og ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til þess sem nm. í fjh.- og viðskn. og þannig séð undirmaður hv. þm. Páls Péturssonar að mæta á nefndarfundi strax eftir þennan fund í því skyni að ákveða að beðið verði um umsögn frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, en þá óska ég eftir því að það verði gert með þeim hætti, að það komi fram að það sé að frumkvæði Alþb., að fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. hafi farið fram á það að gefnu tilefni. Ég veit að hv. þm. Páll Pétursson er tilbúinn að gera þetta með glöðu geði, ef hann hugsar hvað það er alvarlegt sem hann er hér að beita sér fyrir, að þræla hér í gegnum þingið á kvöld- og næturfundum sérstökum skattfríðindafrv. fyrir fyrirtækin í landinu þegar Erlendur sjálfur segir. „Sýnist mér að Alþingi þurfi að huga gaumgæfilega að því hvort umræddar breytingar muni ekki ívilna hlutafélögum óeðlilega mikið í samanburði við samvinnufélög“, þegar Erlendur Einarsson fer fram á að Alþingi gaumgæfi málið. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess fyrir hönd míns flokks, Alþb., að hjálpa hv. þm. Páli Péturssyni við að gaumgæfa málið. Þrátt fyrir afstöðu íhaldsins og að það rekur á eftir með hnútasvipu svo að segja á hverjum klukkutíma er ég sannfærður um að við þessar aðstæður tekur Páll Pétursson því vel að reyna að koma þessu máli til umsagnar.

Ég kvaddi mér hér hljóðs, virðulegi forseti, fyrst og fremst til að vekja athygli á því í fyrsta lagi að þetta frv. snýst um grundvallaratriði stjórnmálanna og í öðru lagi til þess að vekja athygli á að það hefur greinilega verið farið fram á að samvinnuhreyfingin fái að hafa formlega skoðun á þessu máli. Ég lýsi mig stuðningsmann þeirra sjónarmiða og óska jafnframt eftir því að hv. þm. Páll Pétursson brjóti nú odd af oflæti sínu og noti tímann fram að 3. umr. til að fara fram á það formlega við Sambandið að það sendi inn umsögn um þetta mál.

Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þessi orð verði til þess að þeir framsóknarmenn láti í ljós skoðun á þessu frv. og svari því m. a. hvaða atriði eru það í samvinnuhugsjóninni sem sérstaklega er verið að framkvæma í þessu frv. Ég held nefnilega að það sé í raun og veru verið að stríða gegn samvinnuhugsjóninni og þess vegna sé runnin upp sú tíð, því miður, að það sé ástæða fyrir formann Sjálfstfl. að fagna sinnaskiptum þeirra framsóknarmanna, eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði hér í glaðhlakkalegu frammíkalli áðan.