26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4160 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég stend hér til að þakka fyrir að formaður fjh.- og viðskn. Nd., hv. þm. Páll Pétursson, skuli hafa vikist svo vel undir áskorun mína um að kalla forstjóra Sambandsins til fundar í nefndinni til að ræða um þetta mál, og mér þykir vænt um að hv. þm. skuli vilja virða forstjóra Sambandsins viðlits í þessu efni. Þó að það hafi ekki orðið fyrr en með áskorun fulltrúa Alþb. í n. er það engu að síður vel. Í sambandi við það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að það er út af fyrir sig ekki kallað á Sambandið til umsagnar um öll mál. Hins vegar minni ég á að nýlega var sent til umsagnar frv. til l. um verslunaratvinnu, sem er 14. mál Nd., og ég óskaði þar eftir því að Samband ísl. samvinnufélaga fengi ekki síður en Verslunarráð Íslands að fjalla um það mái. Það var samþykkt í n. og málið sent þangað til umsagnar.

Varðandi spurninguna sem hér er uppi um valddreifingu og m. a. dreifingu eignarhalds á atvinnufyrirtækjunum þykir mér satt að segja miklu lakara að það skuli endilega þurfa að setja málin upp eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði fyrr í kvöld, sem sé þannig, að okkar afstaða er dæmd sem svo að við séum á móti því að fólkið hafi áhrif á atvinnureksturinn, við séum á móti því og Alþb. berjist gegn fólkinu. — Gegn þessu berst Alþb., sagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson. Ég var að gera tilraun til hér fyrr í kvöld að fitja upp á alvarlegri umr. um það sem má kalla grundvallarefniságreining íslenskra stjórnmála. Mér fannst hv. þm. Þorsteinn Pálsson bregðast því að koma til móts við þá tilraun vegna þess að hann fór óðar að gera mönnum upp skoðanir. Hann fullyrti í ræðu sinni að Alþb. væri sérstaklega andvígt því að fólkið fengi að koma nálægt atvinnurekstrinum í landinu, þegar það þó liggur fyrir að afstaða okkar er vitaskuld sú að launamenn og landsmenn allir þurfi að tengjast atvinnurekstrinum með beinum hætti vegna þess að við berjumst fyrir því samfélagi að fólkið ráði sjálft hvernig verðmætunum er ráðstafað, m. a. þeim verðmætum sem verða til í atvinnulífinu í landinu á hverjum tíma. Þetta er því auðvitað útúrsnúningur hjá hv. þm. Þorsteini Pálssyni. Sá maður sem ekki þekkir sína andstæðinga á mjög erfitt með að fóta sig í stjórnmálum samtímis, að mínu mati. Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé að ítreka þetta með mjög alvarlegum hætti.

Það er líka rangt, sem hann segir í þeim útúrsnúningsstíl sem hann hefur tamið sér úr stjórnmálaskóla Heimdallar, að Alþb. berjist gegn því að svipaðar reglur gildi um samvinnufélög og hlutafélög. Þetta er rangt. Þetta er útúrsnúningur og ósannindi. Það sem ég vitnaði til áðan var að forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga lýsti áhyggjum sínum yfir því að verið væri að búa hlutafélögunum hagkvæmari reglur í þessu efni en samvinnufélögin hafa haft. Ég var ekki að láta í ljós skoðun mína á því hvort það væri endilega rétt, en ég benti á að það væri eðlilegt við þessar aðstæður að samvinnuhreyfingin, sem er mjög stór aðili í atvinnurekstri á Íslandi, væri látin segja álit sitt á frumvarpi af þessum toga. Og að formaður Sjálfstfl. skuli koma upp eftir slíkt og segja sem svo að Alþb. berjist af þessum ástæðum gegn því að svipaðar reglur gildi um hlutafélög og samvinnufélög er argasti útúrsnúningur og þvættingur. Það er auðvitað hægt fyrir menn sem skrifa í blöð í skjóli nafnleysis, eins og t. d. leiðarahöfundar Morgunblaðsins og Staksteinahöfundar, að halda fram ósannindum af þessum toga árum saman, en það gengur ekki þegar menn þurfa að standa fyrir máli sínu, vegna þess að þetta er ósköp einfaldlega rangt.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson heldur því fram að frumvörpin sem hér eru nú á dagskrá stuðli að sérstakri valddreifingu í þjóðfélaginu og muni auka möguleika almennings á því að hafa áhrif á eignarhald fyrirtækjanna. Ég tel að þessi frv. breyti engu í þessu efni. Ég hef enga trú á því, enda hefur hv. þm. Þorsteinn Pálsson ekki nefnt nem dæmi um það. Ég hef enga trú á því að frv. breyti verulega miklu á þessu sviði.

Ég ætla að nefna tvö mál, sem hann stendur að sem flm. hér í þinginu, sem stuðla að meiri miðstýringu, meiri samanþjöppun valds en nokkur önnur þingmál sem hér hafa verið lögð fyrir fyrr og síðar. Annað er orðið að lögum, hitt liggur hér fyrir. Ég tel að frv. um stjórn fiskveiða, sem seinna varð að lögum, feli í sér afdráttarlausara miðstýringarvald en áður hefur verið um að ræða í íslensku atvinnulífi, vegna þess að þar er ekki einasta verið að ákveða hver eru kjör og aðstaða fyrirtækjanna á hverjum stað og tíma, heldur er verið að ákveða í smáatriðum lífskjör fólksins á þessum svæðum. Menn kunna að segja sem svo, eins og ýmsir þm., t. d. hv. þm. Garðar Sigurðsson, þetta er eina leiðin til að skipta þeim takmarkaða fiskafla sem til er. En það er gert með miðstýringarákvörðun. Það er óumdeilanlegt. Og það skýtur skökku við þegar maður eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson kemur annars vegar með þessi frv. hér og segir: Valddreifing, valddreifing, og hins vegar stendur hann að máli af þessu tagi. Hans afstaða í þessu efni gengur ekki upp. Það rekur sig hvað á annars horn.

Annað dæmi af þessum toga er þingmál sem hér liggur fyrir um ríkismat sjávarafurða. Þar er gert ráð fyrir að sjútvrh., að vísu kjörinn af meiri hl. Alþingis væntanlega til að gegna því starfi, ákveði hverjir hafa leyfi til að stunda fiskvinnslu í hverju einasta tilviki. Hér er gengið mjög langt í miðstýringarátt. Menn geta sagt sem svo: fyrir þessu eru ýmis rök. Ég bið menn að vera ekki að snúa þannig út úr orðum mínum að ég vilji ekki hlusta á þau rök sem eru uppi í þessum efnum varðandi það að deila niður á landsmenn m. a. þeim félagslega vanda sem hlýst af takmörkuðum auðlindum. En allavega er ljóst að þessi afstaða annars vegar og hins vegar talið um dreifingu eignarhalds og aukið lýðræði til fólksins í landinu varðandi atvinnufyrirtækin gengur ekki upp. Og það sem var dapurlegt við ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar var ósköp einfaldlega að hann fékkst ekki til að taka þátt í alvarlegum skoðanaskiptum og lagðist þess vegna í víking eftir þeim reglum sem menn læra í stjórnmálaskóla Heimdallar, því miður.

Varðandi þetta mál vil ég ekki hafa mörg orð að öðru leyti, enda er það í sjálfu sér ástæðulaust og umr. hefur dreifst mjög víða eins og gjarnan vill verða á kvöldfundum, sem eru oft góðir. En ég vil láta það koma hér fram að ég tel að samvinnuhreyfingin hafi mjög miklu hlutverki að gegna í okkar þjóðfélagi og þá tala ég í fullri alvöru og ég segi þetta að gefnu tilefni vegna orða sem féllu úr þessum stól áðan. Ég tel að samvinnuhreyfingin hafi gildu hlutverki að gegna og hér á Íslandi hafi samvinnuhreyfingin orðið mjög sterk. Hins vegar hefur það gerst á síðustu árum og áratugum að hlutafélög og vald í kringum hlutafélög hefur orðið til þess að skerða og skemma samvinnuhreyfinguna og það sem hún í upphafi barðist fyrir.

Af hverju er það sem ég tel samvinnufélag betra en hlutafélag? Það er vegna þess að í samvinnufélagi er reglan: Einn maður, eitt atkvæði. Það er ekki spurt um fjármagnseignina. Það er ekki þorskhausalýðræði þar, eins og það hefur verið kallað. Þannig getur hver einn einstaklingur sem gengur inn í samvinnufélag haft bein áhrif á stjórn þessa sama félags. Því miður hefur það þó verið þannig, að bæði hefur ekki verið nógu mikið um það að menn notuðu sér þennan rétt og svo líka hitt að forráðamenn Sambandsins hafa gengið á lagið og skákað í því skjólinu og hafa farið út í það að stofna fjölmörg hlutafélög sem hafa í veigamiklum atriðum vikið frá hugsjónum samvinnuhreyfingarinnar, þeim félagslegu hugsjónum sem hún átti að byggja á í öndverðu.

Ég tel að það skipti ákaflega miklu máli að haldið sé þannig á málum, og ég mæli það í fullri alvöru, að ekki sé gengið á hlut samvinnuhreyfingarinnar og samvinnurekstrarins í þeirri framsókn fjármagnsaflanna sem nú stendur yfir í þjóðfélaginu. Ég skora á menn, jafnvel þó að þeir séu liprir að snatta í kringum íhaldið um þessar mundir, að þeir reyni þó að standa að lágmarki til á verði um það að samvinnuhreyfingin búi a. m. k. við jafnrétti í þessum efnum, þannig að henni séu ekki búnir verri kostir en einkaframtakinu og hlutafélögunum.

Auðvitað liggur það í eðli félagshyggjuflokks eins og Alþb., flokks sem leggur áherslu á vinnuna sem uppsprettu verðmætanna í samfélaginu, á manngildið fremur en peningagildið, að vilja halda utan um og styrkja og efla samvinnuhreyfinguna. Á því getur enginn vafi leikið í okkar huga. Þegar forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga óskar eftir því í stærsta blaði landsins að Alþingi gaumgæfi tiltekið mál má því ekki minna vera en að einn þm. standi hér upp og minni á það og óski eftir því að fjh.- og viðskn. Nd. ræði málið og fái þennan mann til viðtals. Nú hefur það orðið til þess að einn af þm. Framsfl. hér í deildinni, Páll Pétursson, hefur séð sig knúinn til þess að verða við þessum áskorunum um að fulltrúi Sambandsins verði kallaður á vettvang. Það má ekki seinna vera vegna þess að málið er hér á elleftu stundu, þar sem Sjálfstfl. og þeir íhaldsmenn leggja ofurkapp á að málið verði afgreitt í snatri alveg næstu daga. Þess vegna tel ég að það sé mjög nauðsynlegt og gott að hv. þm. Páll Pétursson hefur fallist á sjónarmið mitt í þessum efnum.

Það breytir auðvitað engu um það til eða frá hver er svo mín skoðun á tilteknum athöfnum og afstöðu forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga að öðru leyti. Ég vil taka það fram, ef einhverjum hefur dottið annað í hug, að auðvitað skrifa ég ekki upp á afstöðu þess manns í einu og öllu, enda er það ekki það sem er hér á dagskrá, heldur hitt, að það séu viðhöfð þau lýðræðislegu og þinglegu vinnubrögð að þessi stóri rekstraraðili fyrirtækja í landinu, þar sem eru þúsundir manna í vinnu, fái að hafa skoðun frammi fyrir Alþingi á þessu máli. Málið er búið að fara í gegnum Ed. Þar eru framsóknarmenn á fleti fyrir í fjh.- og viðskn. og það eru ýmsir fleiri framsóknarmenn í þeirri deild. Málið er búið að vera til meðferðar í Nd. Það hefur enginn framsóknarmaður látið svo lítið að fara fram á að samvinnuhreyfingin hefði skoðun á málinu, — enginn, ekki einu sinni að málið sé sent til umsagnar. Nú er svo komið að málið verður sent til umsagnar vegna þess að Alþb. hefur krafist þess. Það sýnir auðvitað hug Alþb. til samvinnuhreyfingarinnar og þeirrar frumforsendu sem hún byggir á, en kæruleysið kemur hins vegar upp um Framsfl. í þessu efni. Það kemur þannig upp um að hann hefur gleymt í besta falli, í versta falli jarðað, þær frumforsendur og grundvallaratriði sem hann taldi sig byggja á hér fyrr á öldinni.