26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4163 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri yfirlýsingu hv. 3. þm. Reykv. að það hafi á engan hátt mátt skilja ræðu hans svo fyrr við þessa umr. að hann væri að mæla fyrir mismunandi skattalegri meðferð á hlutafélögum og samvinnufyrirtækjum. Ég viðurkenni það að ég skildi fyrri ræðu hans á þennan veg og svaraði henni í samræmi við þann skilning. Það kom að vísu fram síðar í þessari umr. í ræðu hv. 10. landsk. þm., sem er samflokksmaður hv. 3. þm. Reykv., að öll sú ræða sem hann setti á um samvinnufélögin hefði verið skinhelgin gegnsæ og það kom síðan fram í ræðu hv. þm. að hann hefði síður en svo verið að tala fyrir mismunun á milli þessara rekstrarforma í atvinnulífinu. Ég fagna því að svo skuli vera og tel gott og heillavænlegt ef um það næst góð samstaða að ekki eigi að mismuna rekstrarformum.

En meginástæðan fyrir því að ég kom hér upp á nýjan leik var makalaus ræða hv. varaþm. 7. þm. Reykv. Ræða hans nú eins og oft áður einkenndist af rangfærslum og útúrsnúningum sem hann endurtekur mörgum sinnum í sömu ræðunni. Fullyrðingar hans gengu út á að ræða mín hefði byggst á því að draga fram andstæður fjármagns og vinnu. Þessu fer víðs fjarri. Það sem ég vakti athygli á var að hv. 3. þm. Reykv. dró þessi atriði inn í umr. fyrr í dag. Hann vakti á því athygli að þetta frv. snerist að hans mati um andstæðurnar milli fjármagns og vinnu og ég vakti á því athygli að hann hefði með skírskotun til marxískrar hugmyndafræði flokksins dregið þetta fram.

Ég get alveg lýst því yfir hér að það meginsjónarmið sem liggur á bak við þetta frv. byggist á þeirri hugmynd og þeirri grundvallarhugsjón að hagsmunir fjármagns og vinnu fari saman, að hagsmunir launþega- og atvinnufyrirtækja fari saman. Það hefur verið grundvallarhugmyndafræði Sjálfstfl. frá öndverðu, var það, er það og mun verða og þetta frv. er skref í þá átt að gera þessa hugmynd að veruleika. Ég held að það muni skipta ákaflega miklu máli fyrir framþróun atvinnulífsins, fyrir afkomu launþega í þessu landi, að okkur takist að skapa þjóðfélag þar sem við leitum eftir sáttum milli fjármagns og vinnu, þar sem við aukum þátttöku alls almennings í atvinnulífinu með beinni eignaraðild. Verið er að stuðla að því með þessum hætti.

Hv. m. minntist á fjárfestingarsjóði verkalýðsfélaga. Ég hélt því fram og held því fram að sú leið sem sænskir sósíaldemókratar hafa farið, að þvinga fram fjárfestingu verkalýðsfélaga með sérstökum sjóðum, sé ein leið að heildarsósíalíseringu sem muni leiða til svipaðrar niðurstöðu á endanum í gegnum verkalýðsfélögin eins og menn gerðu í gegnum ríkisvaldið í Sovétríkjunum. Hinir einstöku starfsmenn fyrirtækjanna koma þar hvergi nærri, hvorki í Sovétríkjunum né í sósíalisma sænskra sósíaldemókrata. (Gripið fram í.) Mjög svipaðar aðstæður eru uppi varðandi einstök verkalýðsfélög eins og Verslunarmannafélag Reykjavíkur sem hv. þm. minntist á. Þar er þó á sá munur að þar er ekki um að ræða kerfisbundinn þvingaðan fjárfestingarfarveg. En ég get lýst því yfir hér að ég tel það ekki vera hlutverk verkalýðsfélaga, hvorki með frjálsum hætti né með lögþvingaðri kerfisbindingu, að kaupa hlutabréf í atvinnufyrirtækjum. Og það á auðvitað við Verslunarmannafélag Reykjavíkur eins og önnur verkalýðsfélög.

Ég tel miklu skynsamlegra að opna leiðir fyrir launþega, starfsmenn atvinnufyrirtækjanna, að kaupa sjálfir hlutabréf, þannig að þeir geti ráðið sjálfir yfir því fjármagni sem þeir leggja fram. Heildarfjárfestingarsjóðir að sænskri fyrirmynd útiloka þetta. Þeir gera ráð fyrir því að miðstjórnir heildarsamtaka verkalýðsfélaganna fari með öll yfirráð yfir þeim hlutabréfum sem keypt eru. Við viljum á hinn bóginn stefna að því að einstaklingarnir sjálfir ráði í samræmi við það fjármagn sem þeir leggja fram. Launþegar, sem leggja fram fjármagn til kaupa á hlutabréfum, fái að fara með þau eignaryfirráð sem þau hlutabréfakaup gera ráð fyrir.

Þessi frumvörp gera ráð fyrir því að unnt sé að stofna sérstaka fjárfestingarsjóði í fyrirtækjum með ákveðnum skilyrðum og gert er ráð fyrir því að hver einstakur þátttakandi í starfsmannasjóðum af þessu tagi ráði yfir sínu framlagi til hlutafjárkaupa á aðalfundum. Á þessu er meginmunur.

Það sem ég var einfaldlega að benda á er að komið hefur fram í þessari umr. að Alþb. er andvígt þessari valddreifingu. Það hefur dregið hér fram gildi heildarfjárfestingarsjóða þar sem einstakir launþegar hafa engin áhrif og fá ekki að ráða yfir því fjármagni sem þeir hafa lagt fram, heldur hinir sem valist hafa til þess að sitja í miðstjórnum viðkomandi samtaka.

Ég tel þetta vera óheppilegt. Ég vil stuðla að þessari valddreifingu. En talsmenn Alþb. í þessari umr. hafa mælt gegn því fyrirkomulagi sem hér er lagt til. Þeir geta ekki vikið sér undan því að þeir hafa verið að tala gegn valddreifingu í þessari umr. einfaldlega af því að þeir eru andvígir öllum hugmyndum sem hér eru settar fram. Þeir hafa lagt höfuðáherslu á miðstjórnarsjóði. Um þetta stendur ágreiningurinn og undan því geta þeir ekki vikist.