26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4167 í B-deild Alþingistíðinda. (3544)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Aðeins örfáar aths.

Það er ekki eins flókið og hv. þm. Ólafur Þórðarson vildi vera láta að skilja það sem við höfum verið að gera hér í þingsalnum, hv. þm. Svavar Gestsson og ég. Við höfum hér verið að lýsa í sameiningu teoríu og praxís samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi, höfum lagt til skiptis mismunandi áherslur á teoríuna og praxísinn, en allt þetta ber hins vegar að þeim brunni að teorían er góð en praxísinn hefur mistekist heldur betur á mörgum sviðum eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson virtist reyndar átta sig á í sinni ræðu. (Gripið fram í: Það hefði sparað tíma ef þið hefðuð farið báðir upp í ræðustólinn í einu.) Það er alveg rétt, það hefði getað komið til greina, svo að maður tali nú ekki um tímasparnaðinn á því að fjmrh. og formaður Sjálfstfl. töluðu tveir saman þar sem þeir hittast.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson viðurkenndi það í seinni ræðu sinni að það er alveg rétt, sem ég greindi hér frá, að hann hefði verið að lýsa andstöðu við þá stefnu sem Guðmundur H. Garðarsson og ýmsir aðrir forustumenn Sjálfstfl. í verkalýðshreyfingunni hafa verið að framkvæma. Það liggur þá alveg ljóst fyrir að sú túlkun á málflutningi hans, sem ég var hér að lýsa, er alveg rétt. Hér er kominn upp mjög merkilegur ágreiningur formanns Sjálfstfl. við stærsta verkalýðsfélagið sem sjálfstæðismenn hafa stýrt og það verkalýðsfélag sem fengið hefur flesta trúnaðarmenn í æðstu stöður Sjálfstfl., sbr. borgarfulltrúann Magnús L. Sveinsson og sbr. miðstjórnarmanninn í Sjálfstfl. Björn Þórhallsson. Þessir menn, sem ég hef hér nefnt, hafa allir verið fylgjandi þeirri stefnu sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur framkvæmt og sem nýkjörinn formaður Sjálfstfl. hefur núna lýst að væri af hinu illa og mundi, ef aðrir færu að dæmi Verslunarmannafélags Reykjavíkur, leiða yfir þetta þjóðfélag stórfellda sósíalseringu efnahagslífsins. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson var því í raun og veru að biðja enn um það hér að fara ekki að dæmi Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Hins vegar gætti nokkurs misskilnings hjá hv. þm. varðandi túlkun mína á hans ræðu. Ég sagði hvergi að ræða hans hefði fyrst og fremst snúist um þetta atriði, heldur hefði hann í ræðu sinni vikið nokkrum orðum að því að setja fram þá þjóðfélagssýn sem ég rakti svo nokkru nánar. Hún var alveg skýr þótt hv. þm. reyndi að vefja hana inn í bómull í seinni ræðu sinni. Hún var alveg skýr á þann veg að fjármagnið ætti að hafa skv. þessu frv. meiri rétt en vinnan. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson reyndi svo að breyta áherslum sínum í seinni ræðu sinni með því að segja að stefna Sjálfstfl. væri sú að vinnan og fjármagnið ættu að sitja við sama borð og ættu að eiga samleið. Það er hins vegar athyglisvert að á sama tíma og Sjálfstfl. er hér á Alþingi að létta sköttum af fjármagninu er hann að þyngja skattana á vinnunni. Það er alveg ljóst að skattbyrðin af þeim sköttum sem menn greiða af vinnu sinni, tekjuskattinum, verður allnokkru meiri þegar allt er lagt saman á árinu 1984 en á árinu 1983, en skattabyrðin á fjármagninu léttist hins vegar allverulega. Ef horft er á framkvæmd er fjármagnið látið njóta forréttinda sem vinnunni eru ekki boðin. Það sést best á því að tekjuskatturinn, útsvarið og önnur þau gjöld sem eru greidd af vinnunni einni saman hafa þyngst, en skattarnir af fjármagninu eru Léttari.

Að lokum, virðulegi forseti, held ég að formaður Sjálfstfl. ætti nú að spara sér allt þetta tal um miðstýringu og valddreifingu. Eins og hv. þm. Svavar Gestsson rakti hér stendur Þorsteinn Pálsson að mestu miðstýringarfrv. í íslensku atvinnulífi sem hafa verið sýnd hér á Alþingi ég held frá upphafi. Ég held að í þeim tveimur frumvörpum, kvótafrv. annars vegar og frv. um mat á sjávarafurðum hins vegar, séu fólgnar tillögur um meiri miðstýringu í grundvallaratvinnuvegi Íslendinga en nokkru sinni hafa verið sýndar hér á Alþingi. Það hefur ekki annað komið fram í umr. hér á Alþingi um þessi mál en að bæði þessi frv. séu flutt með stuðningi og fulltingi ráðh. Sjálfstfl., flokksforustunnar og þingflokks Sjálfstfl. Auk heldur eru ekki nema nokkrar vikur síðan hv. þm. Þorsteinn Pálsson stóð hér í ræðustól og sagði að ástæðan fyrir því að hann hefði kosið opinberlega að gagnrýna hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson og lýsa algerri andstöðu sinni við samkomulag það sem hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson gerði við verkamannafélagið Dagsbrún væri í fyrsta lagi, sagði þm., vegna þess að Dagsbrún hefði gengið gegn þeim heildarkjarasamningum sem ASÍ og VSÍ hefðu mótað og það ætti ekki að verðlauna verkalýðsfélög sem gengju gegn slíkum miðstýringarsamningum. Slíkur miðstjórnarmaður, slíkur aðdáandi miðstjórnarvalds og miðstýringar á þessu þjóðfélagi var hinn nýkjörni formaður Sjálfstfl. að hann lagði til opinberrar atlögu við fjmrh. eigin flokks vegna þess að fjmrh. hafði tekið alvarlega stefnuna um samningafrelsi einstakra verkalýðsfélaga.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson ætti að lesa aftur lofgerðarræðuna um miðstýrða kjarasamninga, sem hann flutti hér í þessum ræðustól fyrir nokkrum vikum, áður en hann fer að koma hér upp og ásaka aðra fyrir að aðhyllast miðstjórnarvald. Það hefur ekki nokkur þm. gerst talsmaður og verjandi miðstjórnarvalds í þessu þjóðfélagi á þessu þingi í þá veru sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur gert. Það hefur ekki hvarflað að nokkrum forustumanni í íslenskum stjórnmálum að leggja til atlögu við ráðh. úr eigin flokki vegna þess að hann braut gegn slíku miðstjórnarvaldi nema hv. þm. Þorsteini Pálssyni.

Þegar þetta er lagt saman, kvótafrv., sjávarmatsfrv. og atlaga hv. þm. Þorsteins Pálssonar að Albert Guðmundssyni og þau rök sem hann flutti í þessum ræðustól á Alþingi fyrir þeirri atlögu, er það alveg ljóst að miðstjórnarvaldið í íslensku efnahagslífi og íslenskum kjaramálum á fyrst og fremst einn verjanda, hv. þm. Þorstein Pálsson. Þeir sem hafa barist gegn þessu miðstjórnarvaldi, gegn miðstjórnarvaldinu í stýringu sjávarafurða, gegn miðstjórnarvaldinu varðandi fiskmatið, gegn miðstjórnarvaldinu við gerð kjarasamninga, eru fyrst og fremst Alþb.-þm. hér á Alþingi. Þetta ætti hv. þm. Þorsteinn Pálsson að hugleiða. Það getur vel verið að hann sé fylgjandi einhvers konar smávegis valddreifingu hvað snertir einstaka skattamál hér og þar. Hitt er alveg ljóst hins vegar, að þegar kemur að hinum stóru ákvörðunum í þjóðfélaginu er hann maður hinnar miklu miðstýringar, miðstýringar sem afnemur samningsréttinn, miðstýringar sem sviptir burtu kjarasamningum, miðstýringar sem bannar verkalýðsfélögum að semja, miðstýringar sem heimtar opinberan refsirétt yfir þeim sem leyfa sér að taka alvarlega frjálsan samningsrétt einstakra verkalýðsfélaga, miðstýringar gegn öllum þeim sem dirfast að ganga gegn kjarasamningum ASÍ og VSÍ, miðstýringar í sjávarútvegi, fiskvinnslu og veiðum. Um þetta bera þingtíðindin vitni. Þessi stefnuafstaða er alveg skýr. Hún er reyndar svo skýr að í henni felst höfuðáherslan í málflutningi og stjórnarstefnu Sjálfstfl. á þessum vetri.