26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4169 í B-deild Alþingistíðinda. (3546)

201. mál, vörumerki

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 358 er borið fram stjfrv. til 1. um breytingu á lögum nr. 47 frá 2. maí 1968, um vörumerki. Með frv. þessu er lagt til að felld verði niður heimild til að áfrýja til iðnrh. ágreiningsmálum er varða skráningu vörumerkja. Þess í stað verði lögfest málsmeðferð með skipun sérstakrar áfrýjunarnefndar til að úrskurða í málum sem þessum. Frv. þetta er flutt samhliða frv. til l. um breytingu á einkaleyfalögum um sama efni. Lagt er til að ein nefnd úrskurði í ágreiningsmálum í báðum þessum málaflokkum og að heiti nefndarinnar verði í samræmi við það, áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum.

Lagt er til að nefndin verði skipuð þremur mönnum: Formanni skipuðum til þriggja ára í senn sem vegna eðlis nefndarinnar þykir rétt að verði lögfræðingur. Aðrir nefndarmenn yrðu skipaðir til starfa í nefndinni til að úrskurða í einstaka mátum. Rétt þykir að hafa vissan sveigjanleika í vali annarra nm. en formanns, þannig að skipa megi sérfróða menn eftir eðli ágreinings hverju sinni, og gætu þar eftir atvikum komið til greina menn með sérþekkingu á sviði málfræði, viðskipta, tækni eða lögfræði.

Forsaga þessara ákvæða um kæruheimild til ráðh. er sú, að þegar lög um vörumerki voru samin árið 1968 voru dönsk lög um sama efni höfð mjög til hliðsjónar. Í Danmörku er skrifstofa vörumerkjaskrárritara sjálfstæð stofnun og ekki hluti af ákveðnu ráðuneyti. Í dönsku lögunum er heimild til að skjóta ágreiningsmálum til ráðh. Hér á landi hagar málum þannig, að vörumerkjaskrifstofan er hluti af iðnrn. Ljóst má vera að iðnrh. á hverjum tíma mun ekki úrskurða persónulega í málum af þessu tagi. Í reynd munu því starfsmenn þeir í rn. sem annast vörumerkjamál almennt jafnframt úrskurða í sérstökum kærumálum sem skotið yrði til ráðh. Í málum er varða einkaleyfi og vörumerki er oft um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða. Því þykir rétt að tryggt verði sem ríkast réttaröryggi í stjórnsýslunni við meðferð þeirra mála.

Stjórnvaldskæra á úrskurði vörumerkjaskrárritara til iðnrh. er því óeðlilegt stjórnvaldsúrræði hér á landi, þar sem vörumerkjaskrárritari er jafnframt starfsmaður iðnrn.

Málskot til ráðh. skv. gildandi ákvæðum hér hafa verið fátíð á undanförnum árum, þ. e. 1–2 á ári. Hugsanlega er skýring á því sú, að menn hafa ekki haft trú á kæruúrræði þessu og talið það óraunhæft. Því má búast við að kærumálum þessum fjölgi nokkuð verði frv. þetta að lögum. Ákvarðanir vörumerkjaskrárritara, sem ágreiningur hefur verið gerður um, hafa á undanförnum árum verið á bilinu 15–20 á ári.

Félag umboðsmanna eigenda vörumerkja og einkaleyfa hefur ítrekað óskað eftir breytingu á þessari tilhögun og hefur verið haft samráð við félagið við samningu frv. þessa.

Stjórnskipuð nefnd vinnur nú að heildarendurskoðun einkaleyfalaganna og mun nefnd þessi jafnframt taka vörumerkjalöggjöfina til athugunar. Búast má við að sú endurskoðun taki nokkurn tíma, þar sem hér er um tæknilega og lögfræðilega flókin málefni að ræða. Hin öra tækniþróun liðinna ára hefur kallað á ítarlegri lagaákvæði um einkaleyfi. Sömuleiðis hefur ör vöruþróun og aukin áhersla á auglýsingar og kynningar á vörum undir ákveðnu vörumerki aukið þýðingu laga um vörumerki og kallað á öflugri réttarframkvæmd á sviði vörumerkjamála.

Vörumerkjaréttur er með vissum undantekningum bundinn skráningu merkis. Vörumerkjaskrárritari annast skráningu vörumerkja. Þar sem verulegir fjármunir eru oft lagðir í að kynna vörur undir ákveðnu vörumerki eru nokkrir hagsmunir í húfi fyrir rétthafa vörumerkis að fá vörumerki skráð. Vörumerkjaskrárritari tekur skv. 19. gr. vörumerkjalaga ákvörðun um að synja um skráningu ef hann sjálfur telur merkið ekki hæft til skráningar. Auk þess tekur vörumerkjaskrárritari við andmælum gegn skráningu eftir birtingu vörumerkis skv. 22. gr. og tekur ákvörðun um synjun ef andmælin eru metin gild.

Frv. felur í sér að ágreiningi skv. ofangreindu verði skotið til sérstakrar áfrýjunarnefndar og felld verði niður heimild til að skjóta máli til ráðh., eins og að framan er lýst.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar þessari umr. lýkur verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.