01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Það er kannske erfiðleikum bundið að vekja umr. sem svo langt er um liðið að síðast var á dagskrá, en þó held ég að ég megi til með að fara örfáum orðum um þá umr. sem hér fór fram.

Ég þakka almennt þá umr. sem þetta mál fékk. Ég þakka undirtektir undir flutning þessa máls, sem komu fram hjá ýmsum ræðumönnum. Þó vil ég benda á ákveðin atriði sem að einhverju leyti virtust fara fram hjá mönnum. Það var m.a. eitt af aðaláhersluatriðum þessarar till., sem ég tel mjög mikilvægt, en það er að tengja skuli byggðaáætlanir með lögum því skipulagsstarfi sem unnið er á vegum skipulags ríkisins og sveitarfélaga, þ.e. að gera byggðaáætlanir jafngildar í lögum og t.d. aðalskipulag. Einnig það atriði, að heimamenn á hverjum stað, þ.e. á hverju áætlanasvæði, verði sjálfir ábyrgir fyrir áætlanagerðinni og um leið ábyrgir fyrir vali milli þeirra leiða sem í boði eru eða til mats koma og standi ábyrgir að því að framkvæma þá áætlun.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson er lítið hrifinn af þeim að því er ég taldi frekar hógværu ummælum um Framkvæmdastofnun og störf hennar. Hann hrósar og þakkar Framkvæmdastofnun og kommissörum hennar fyrir störf undanfarinna ára. Hann segir, ef ég má vitna í orð hans með leyfi forseta:

„Ég tel að það sé ómaklega veist í till. að stjórn Framkvæmdastofnunar. Ég tel að í framsöguræðu og eins í greinargerð sé mikið ofmælt, t.d. þetta, herra forseti, svo að ég vitni í greinargerð orðrétt: „Í hugum flestra er byggðastefna í dag nánast samnefnari fyrir aðgerðir sem eru í mótsögn við skynsamleg þjóðfélagsmarkmið.“ Þessu neita ég alfarið“, segir hv. 2. þm. Norðurl. v.

Hann neitar einnig að reynsla undanfarinna ára af Framkvæmdastofnun og kommissörum hennar hafi ekki sannað ágæti þessarar ráðstöfunar og að lánveitingar Framkvæmdastofnunar hafi tekið mið af pólitískum stundarhagsmunum, en ekki efnahagslegum langtímahagsmunum. Hann neitar einnig að starf Framkvæmdastofnunar hafi orðið til hreinnar óþurftar fyrir þjóðarbúið og fer hér upp í ræðustól til að mótmæla þessu orðalagi. Hann heldur því enn fremur fram, að það sé víða farið frjálslega með staðreyndir í greinargerðinni, en tínir reyndar ekki til nein einstök dæmi.

Síðan segir hv. 2. þm. Norðurl. v., með leyfi hæstv. forseta: „Það er mjög til fyrirmyndar að þessi stofnun er ekkert að fela gerðir sínar. Lánveitingar eru allar prentaðar og landsmönnum aðgengilegar og þm. fengnar í hendur. Það tel ég mjög til fyrirmyndar og býsna mikil trygging fyrir því að menn fari varlega og af ráðdeild með fé.“

Nú geta menn bara, ef þeir vilja, tekið þessar skýrslur sér í hönd og lesið þær, og ég vil halda því fram að við þann lestur verði manni hægt og hægt ljóst að flest allar lánveitingar, sem farið hafa fram á vegum Byggðasjóðs, t.d. á liðnu ári, séu ekkert annað en það sem hver annar venjulegur banki hefði getað tekið að sér að annast og eigi ekki heima hjá þessari stofnun. T.d. allur sá aragrúi lána til endurskipulagningar rekstrar fyrirtækja víðs vegar úti um allt land, sem ég held að sé að verða ansi auðsýnt, allavega í dag, að hafa ekki skilað mönnum einu eða neinu. Að maður tali nú ekki um gamla brandara eins og að lána til uppbyggingar rakarastofu.

Ég er ekkert að horfa fram hjá því, að í ákveðnum tilvikum hefur Framkvæmdastofnun skilað árangri, en það er einhvern veginn þannig, að flest það gott sem kemur frá Framkvæmdastofnun þyrfti alls ekki sjö alþm. til að framkvæma. Seta alþm. í stjórn stofnunarinnar kemur hreint og beint í veg fyrir að Alþingi geti rækt sitt eftirlitshlutverk með stofnuninni með raunhæfum hætti.

Ég býst við að ummæli hv. þm. Páls Péturssonar séu viðhöfð í einlægni, þó að þau hljómi reyndar næstum því sem oflof til háðungar. En ummælin eru alveg í fullu samræmi við það sérstæða framsóknarsiðgæði, sem reyndar er orðið að siðgæði Sjálfstfl., þar sem það verður sjálfsagt og eðlilegt að ráða ákveðna ætt manna til að dæma um sín eigin verk. Það er einmitt þessi siðfræði sem hefur ráðið störfum Framkvæmdastofnunar frá upphafi nánast og þess vegna oft verið sorglegt að horfa upp á þátttöku flokka eins og t.d. Alþfl. í stjórn þessarar stofnunar, sem þeir þó oft hafa viljað leggja niður.

Að auki vil ég leggja áherslu á það atriði, sem reynt er að koma til skila í greinargerðinni, sem er það hlutverk yfirvalda, og þá á ég við í þessu tilviki byggða- og áætlanadeildar, að veita fræðslu og ráðgefandi hvatningu til að örva framtak einstaklinga og samtaka þeirra. Fyrsta skilyrði við framkvæmd byggðastefnu er og verður það, að landsmenn sjálfir geri sér grein fyrir því hvaða möguleika þeir hafa, þannig að aðgerðir Alþingis komi einungis til greina þegar aðrir möguleikar hafa verið fullnýttir eða tæmdir.

Hugmyndin um afnám Byggðasjóðs byggir á þeirri skoðun Bandalagsmanna, að ríkið eigi helst ekki að stunda útlánastarfsemi eins og þar hefur verið stunduð undanfarin ár. Þá á ég við hrein og bein styrktarlán til einstakra atvinnufyrirtækja til að halda rekstri þeirra á floti um skamman tíma, án þess að tekið hafi verið á þeim vanda sem viðkomandi atvinnuvegur átti í og reynt að skapa viðkomandi fyrirtækjum þannig einhver haldbær rekstrarskilyrði.

Í máli hv. 5. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar hjó ég sérstaklega eftir ummælum hans um tal mitt, þar sem hann heldur því fram að hugtakið kommissar sé orðið eitthvert það alversta sem hægt sé að hugsa sér og segir, með leyfi forseta: „Ég segi ekki að morðingjar séu ekki skráðir enn á Íslandi verri menn, en það er þá ef þeir hafa notað ósiðsamlegar aðferðir við verknaðinn“. Ég neita ítrekað þeirri fullyrðingu að hér sé verið að líkja kommissörum eða öðrum við morðingja.

Ég hirði ekki um að fara nánar út í mál hv. 5. þm. Vestf., en þakka fyrir fram óvæntan stuðning hans við það stefnumál BJ að embættismenn verði ekki ráðnir nema til fjögurra ára í senn. — Ég verð að lokum að viðurkenna að ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því út úr hvaða hól hv. 5. þm. Vestf. talar. Það kemur þó mjög glöggt fram á hans málflutningi að hann talar ekki út úr sama hól og núverandi stjórnarflokkar búa í, þessa stundina a.m.k.

Þetta mál, sem hér hefur verið lagt fram, er kannske nokkuð háleitt í sinni markmiðasetningu, en ég held að markmiðasetningar ættu að vera það almennt. Að sjálfsögðu verður að setja ákveðin undirmarkmið í kjölfar slíkra tillagna, þar sem hægt er að skilgreina miklu ítarlegar og nánar við hvað er átt. Þá komum við inn á margt sem hér kom fram við fyrri hluta umr. Það er t.d. ekkert markmið í sjálfu sér að öll héruð landsins vaxi jafnt að mannfjölda. Meðan fólkinu í landinu öllu fjölgar jafnt og þétt er samt sem áður óeðlilegt að mjög mikill munur sé á fjölgun landshluta innbyrðis, þegar til lengri tíma er litið. Allflest héruð landsins hafa að mínu mati einhverja möguleika til þess að þar sé starfrækt arðbær atvinnustarfsemi. Mikill fjöldi þess fólks sem frá landsbyggðinni hefur flutt hefur gert það vegna skorts á atvinnutækifærum og vildi gjarnan flytja til baka ef hægt væri. Reynslan hefur reyndar sýnt þetta, þar sem atvinnutækifæri bjóðast.

Byggðastefna er sett fram til höfuðs margs konar ójöfnuði. Í fæstum löndum hefur þó verið skilgreint hversu mikill sá ójöfnuður má verða þannig að hann sé talinn skipta máli. Í mörgum löndum mundi sá mismunur sem verið er að hafa áhyggjur af, t.d. á Norðurlöndum, ekki vera talinn skipta ýkjamiklu máli. Skilgreiningin á því í hverju jafnvægi eða mismunur er fólgið er því ekki einungis háð fræðilegum atriðum. Í raun og veru væri réttara að segja að mælingin sé fræðileg, en mælikvarðinn stjórnmálalegur. Þar með er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að mælikvarðinn á ójöfnuði geti breyst frá einu tímabili til annars. Þau markmið sem sett eru um byggðastefnu fjalla í flestum atriðum um efnisatriði sem hafa áhrif á ýmsa aðra málaflokka.

Margir þættir hins opinbera hafa hlutverkum að gegna sem áhrif hafa á byggðaþróun. Sem dæmi má nefna framleiðslu- og dreifingarfyrirtæki raforku, vegagerð, menntakerfi og heilbrigðisþjónustu. Í byggðastefnu verður m.a. að felast samræming á markmiðum þessara þátta hins opinbera. Samræmd byggðaþróun þarfnast samræmdra átaka allra þeirra aðila sem áhrif hafa á þessa þróun. Þess vegna er ekki hægt að stuðla að markvissri byggðaþróun af hálfu hins opinbera nema með því að gera áætlanir sem fjalla um markmið, þarfir og möguleika áætlunarsvæðanna ásamt till. um þau framkvæmdaratriði sem nauðsynlegt er að samræma. Byggðastefna þarf að byggjast á bestu fáanlegum upplýsingum um núverandi ástand og framtíðarhorfur og framkvæmd hennar þarf á hverjum tíma að geta tekið tillit til breyttra aðstæðna jafnóðum og upplýsingar eru til.

Byggðastefnan þarf að vera innan ramma þjóðfélagsmarkmiða í heild. Þetta hefur viljað gleymast og margir halda því fram, eins og ég sagði hér áður, að byggðastefna eins og hún er stunduð í dag sé hið þveröfuga, þ.e. samnefnari fyrir aðgerðir sem eru í mótsögn við skynsamleg þjóðfélagsmarkmið.

Að lokum vildi ég aftur þakka þá umr. sem þetta mál hefur fengið. Ég verð að játa að orð hv. 2. þm. Austurl. vöktu í mér hroll. Það er ekki bærileg tilhugsun að verða að bíða í jafnvel 1000 ár eftir að þetta mál komi úr nefnd.