27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

428. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er óþarft að rekja sögu þessa máls, það gerði hv. fyrirspyrjandi svo ágætlega. En af því er ljóst að varla er á frv. um fullorðinsfræðslu leggjandi að fara hér inn og út úr þingsal einu sinni enn, án þess að samþykkt væri.

Ég vil skýra frá því að ég hef ekki í hyggju að leggja fram frv. til l. um fullorðinsfræðslu nú á þessu þingi. Ég tel hins vegar að gera þurfi lítils háttar breytingu á öðrum lögum, t. d. lögum um menntaskóla, þannig að þar sé gert ráð fyrir öldungadeildum.

Ég tel að fullorðinsfræðsla eigi ekki nauðsynlega að vera sérstakt fræðslukerfi í landinu heldur eigi fullorðnir að geta fengið aðgang með einhverjum hætti að þeirri fræðslu sem fram er boðin í menntastofnunum af ýmsu tagi. Ég er ekki sannfærð um að heildarlöggjöf tryggi þetta betur. Ég óttast hins vegar að heildarlöggjöf hafi það í för með sér að búið verði til sérstakt skrifstofuveldi til þeirra verka sem ég tel í sjálfu sér að núverandi kerfi geti annað. Vissulega er það í þessu sem svo mörgum öðrum þáttum skólalöggjafar að þar ýrði kostnaðarskipting rekstraraðila vandamálið. Við sjáum ekki fyrir endann á neinum meiri háttar nýjum reglum um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel því að það sem gera þurfi sé að lögfesta þá starfsemi sem fram hefur farið t. d. í öldungadeildum og hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Að öðru leyti sé ekki nauðsynlegt að hafa sérstaka heildarlöggjöf fyrir þennan aldursflokk, fullorðna fólkið í landinu.