27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4178 í B-deild Alþingistíðinda. (3560)

428. mál, fullorðinsfræðsla

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er erfitt að taka mikinn þátt í umr. um svona viðamikið mál í fsp.-tíma. En ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að saga fullorðinsfræðslumálsins, ef svo má til orða taka, hefur verið hálfgerð raunasaga. Ég er þeirrar skoðunar, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að e. t. v. háfi það verið þetta magnaða frv., sem samið var fyrir svo sem tíu árum og hér var sýnt á árunum 1974–1975 eða u. þ. b., sem gerði það að verkum að það sló hálfgerðum óhug á menn við að horfa upp á slíkt bákn, því að þetta var sannkallað bákn. Ég hef verið þeirrar skoðunar að ef gera ætti eitthvað sem virkilega kæmi að gagni í þessum málum þá sé vissulega nauðsynlegt að semja heildarlöggjöf eða rammalöggjöf um þessi efni. En að mínum dómi hefur það ævinlega verið svo alveg frá fyrstu tíð, og því reyndi ég náttúrlega að beita á meðan ég var menntmrh., að slík heildarlöggjöf byggðist á því að nýta allt það kerfi sem fyrir er.

Ég hef orðið þess áþreifanlega var í umr. um þetta mál, bæði fyrr og síðar, að menn láta eins og það sé engin fullorðinsfræðsla til í landinu. Þetta er misskilningur. Ég hygg að fram fari í landinu og hafi lengi gert mjög virðingarverð starfsemi í fullorðinsfræðslu. Það er að vísu mjög erfitt fyrir mig að rekja hér nú. En ég hef áður á Alþingi gert ítarlega grein fyrir þessu einmitt í fsp.-tíma fyrir nokkuð löngu, tveimur árum eða svo, þegar sami fyrirspyrjandi spurði mig svipaðra spurninga eins og verið er að spyrja hæstv. menntmrh. nú. Þá held ég að það hafi komið mjög skýrt í ljós að það er virkilega mikið unnið að fullorðinsfræðslu. Hins vegar er margt ósamræmt í þeim efnum og þarf að bæta þar stórlega um og slíkt má vissulega gera með heildarlöggjöf.

En mín skoðun er svo að lokum sú, sem ég vil að komi fram í þessum örstuttu orðum, að það sem fyrst og fremst vantar eru peningar. Okkur vantar fyrst og fremst peninga til þess að drífa það fullorðinsfræðslukerfi sem hér er og hefur verið komið upp af miklum myndarskap af ýmsum aðilum. Ef slíkt fjármagn væri fyrir hendi þá. er ég sannfærður um að margt mundi leysast nánast eins og af sjálfu sér. Ég geri samt engan veginn lítið úr því að semja þurfi löggjöf um þetta efni og að því var ég að vinna á sinni tíð. Ég fann hins vegar að það var ýmsum erfiðleikum bundið að koma þeim sjónarmiðum fram sem ég vildi að ríktu í því efni. Það varð ýmislegt til tafar að ég gæti lagt fram þess háttar heildarlöggjöf. En að mínum dómi ætti hún að byggjast á því að nýta það sem fyrir er, því að ég tel að það sé margt hér á landi hvað varðar fullorðinsfræðslustarfsemi sem hefur gefið góða raun og mundi gefa enn betri raun ef ríkisvaldið vildi rækja það betur með meiri fjárframlögum.