27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4178 í B-deild Alþingistíðinda. (3561)

428. mál, fullorðinsfræðsla

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin þó ég verði að segja að þau ollu mér miklum vonbrigðum. Ég hélt satt að segja að það væri ekki umdeilt að þörfin fyrir aukna og skipulagða fullorðinsfræðslu væri mjög knýjandi og nauðsynlegt væri að skipuleggja hana með rammalöggjöf eða heildarlöggjöf. Sú grundvallarfræðsla sem fæst í gegnum skólakerfið er hvergi nægjanleg því að örar breytingar í atvinnulífi kalla á margþætta fullorðinsfræðslu, í bóklegu námi sem og starfsþjálfun.

Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að í landinu er fyrir nokkuð fjölþætt fullorðinsfræðsla, hjá Námsflokkum Reykjavíkur, bréfaskólum, Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, Stjórnunarfélagi og öldungadeildum. En það hefur að mínu mati vantað heildarlöggjöf um markmið og leiðir til að stórauka, efla og samræma alla fullorðinsfræðslu í landinu. Því verð ég að segja að mér komu nokkuð á óvart svör ráðh. Ég tel að það þurfi ekki að vera dýrt að koma á skipulagðri fullorðinsfræðslu sem byggði á rammalöggjöf. Það er líka rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að það frv. sem var lagt hér fyrir Alþingi fyrir 10 árum síðan eða svo var heilmikill lagabálkur sem, eins og hann var fram settur, yrði nokkuð kostnaðarsamur í framkvæmd. En ég tel að tillögur þeirrar nefndar sem skipuð var 1978 og frv. í samræmi við þær, sem var lagt hér fyrir 1979–1980, hafi verið mjög aðgengilegt og að ekki hafi verið um mjög kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða ef það frv. hefði verið framkvæmt. Ég held að það sé því misskilningur hjá hæstv. ráðh. að það að koma á heildarlöggjöf eða rammalöggjöf kalli á eitthvert skrifstofuveldi.

Herra forseti. Ég ítreka það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör ráðh. Ég er sannfærð um það að svör ráðh. hér í dag, að hún hyggist ekki leggja fram frv. um fullorðinsfræðslu á þessu þingi, og það sem meira er, að hún telji ekki þörf á slíku frv. eða lögum um fullorðinsfræðslu, muni valda mörgum vonbrigðum.