27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

429. mál, samanburðarkannanir á launakjörum kvenna og karla

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. forsrh. fyrir jákvæð svör hans varðandi þessa fsp. Það er óhætt að segja að það hafi orðið tímamót hjá íslenskum konum í kjarabaráttunni þegar þær bundust samtökum um að vinna að hagsmunamálum sínum á þeim vettvangi. Ég býst við að flestum hafi komið á óvart að mismunur kynjanna í launamálum væri svo mikill og almennur sem raun ber vitni. Það hefur komið fram að yfirleitt eru konur fjölmennastar í lægstu launaflokkunum. Það á sér að sjálfsögðu ýmsar skýringar. En það er t. d. athyglisvert, sem bent hefur verið á, að kennarar eru að verða láglaunastétt. Þeir hafa dregist aftur úr og sú skýring er gefin að þar séu konur orðnar fjölmennari en karlar. Það segir sína sögu.

Prestur einn hafði áhyggjur af því, enda þótt hann væri ánægður með að konum fjölgaði innan prestastéttarinnar, að hann taldi að vegna fjölgunar kvenna í stéttinni væri hætta á að prestar drægjust aftur úr í kjörum, að kjör þeirra yrðu lakari. Þetta segir vissulega sína sögu um viðhorfin. Litið hefur verið á það sem staðreynd að kjör kvenna þurfi ekki að vera þau sömu og karla fyrir sambærileg störf þrátt fyrir alla löggjöf þar um.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að þetta er nú að verða liðin tíð. Konur hafa sjálfar kvatt sér hljóðs og munu sameinaðar vinna að leiðréttingu mála sinna.