27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur leitað svara við spurningum sem fyrir hana voru lagðar, en sú leit hefur ekki borið mikinn árangur að minni hyggju og varnirnar sem bornar eru fram reynst nokkuð fátæklegar. Eftir því sem mér heyrðist reyndist símaskráin haldbærasta lögskýringargagn ráðh.

Í 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands segir, eins og ég tók fram áðan og endurtek, með leyfi forseta: „Heimilt er að skipa deildarstjóra ráðuneytis skrifstofustjóra þess ráðuneytis, og tekur hann þá sjálfkrafa við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans.“

Sem sagt, það kemur alveg ljóst fram í þessu orðalagi að átt er við einn mann, það getur ekki dulist neinum. Þó að ráðh. hafi tekið þannig til orða á Alþingi á sínum tíma að hugsanlegt væri að hann hefði haft í huga þann möguleika að þeir gætu verið fleiri tekur lagagreinin sjálf af öll tvímæli um að hér er átt við skrifstofustjóra í eintölu. Ég tel það ákaflega langsótt, að ekki sé meira sagt, að ráðh. geti hagað sér að vild sinni í samræmi við framkvæmd þessara laga vegna þess að ekki sé berum orðum bannað, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að gera þetta eða hitt, t. d. í þessu tilviki að skipa fjöldamarga skrifstofustjóra í eitt rn. Ég held að það geti verið álitamál hvort það sé ekki beinlínis bannað með þessu orðalagi sem ég vitnaði til. Auðvitað þarf ekkert slíkt til. Ekki væri verið að setja inn í lög ákvæði um að heimilt væri að skipa deildarstjóra rn. skrifstofustjóra ef ekki væri átt við með því að það ætti að velja skrifstofustjórann úr röðum deildarstjóranna. Eða dettur mönnum í hug að deildarstjórar rn. hafi eitthvað minni mannréttindi en aðrir menn, að sérstaklega þurfi að taka það fram í lögunum að líka sé heimilt að veita þeim stöðuna en auk þess öllum öðrum? Þá hef ég ekki skilið starf deildarstjóranna rétt ef líta á svo á að sérstaklega þurfi að taka fram að þeir hafi þessi mannréttindi eins og aðrir að það megi skipa þá í þessa stöðu. Slíkar lögskýringar eru fjarri öllu lagi og einungis settar fram til að breiða yfir lögbrot sem augljóslega liggur hér fyrir.

Hæstv. ráðh. hafði að öðru leyti ekki mikið meira um þessar tvær fsp. að segja, sem lúta að lagahlið málsins, en að hér væri um að ræða hagræðingarátak ríkisstj. sem væntanlega mundi ganga yfir öll rn. Það voru þá fréttir fyrir alþm. ef það reynist næst á dagskrá að gera samsvarandi breytingar í öðrum rn. í samræmi við allsherjar hagræðingarátak ríkisstj. Mjög væri æskilegt að forsrh. vildi nú koma hér — hann er væntanlega í húsinu — og svara því hvort það sé stefna ríkisstj. að þannig skuli farið að í öðrum rn.

Ég held að staðreyndin sé sú að ekki séu sjáanleg nein rök fyrir því að skrifstofustjórum sé fjölgað um tvo í menntmrn. nema þau ein að hæstv. menntmrh. vill setja pólitískan skjólstæðing sinn varanlega yfir öll grunnskóla- og framhaldsskólamál í landinu og jafnframt um leið að ráða sér annan aðstoðarmann í staðinn. Þannig tekst menntmrh. að ráða sér tvo aðstoðarmenn í eitt rn. Annan ætlar hæstv. ráðh. síðan að skilja eftir í rn. þegar hún lætur af störfum. Ég hygg að ef hæstv. menntmrh. kemst upp með þessi einstæðu áform muni margir ráðh. hugsanlega eiga eftir að leika þetta eftir henni á næstu árum. Ég vara við því mjög eindregið.