27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég er ekki talsmaður þess að fara að kalla saman Landsdóm vegna þessa máls. Hins vegar hefur mér fundist full ástæða til að finna að vissum embættisverkum hæstv. menntmrh. og sá vettvangur er nú einu sinni þingið sjálft, vettvangur okkar alþm. En svo refsiglaður er ég ekki að ég vilji fara að blása til þess að kalla saman Landsdóm út af þessu máli. Ég vona að við getum rætt málið án þess. En aðra möguleika hófum við nú kannske ekki til þess að fjalla um þetta mál fyrir dómi.

Það sem ég finn að í þessu máli er hvernig hæstv. ráðh. stendur að því að koma á skipulagsbreytingum í menntmrn. Ekki vegna þess að ég fallist ekki á að í því rn. þurfi að gera skipulagsbreytingar. Á það get ég vel fallist. En ég vil að staðið sé rétt og eðlilega að því. Hæstv. ráðh. hefur að mínum dómi staðið rangt að þessu, formlega rangt að þessu og undirbúið þetta mál mjög einhæft og illa, þannig að það er engin trygging fyrir því að eðlilegum markmiðum verði náð, eins og ég sagði hér áðan í ræðu minni, um það að starfshæfni rn. batni ellegar að það verði kostnaðarminna að reka það, sem ætti þó að vera sá tilgangur sem helst er fyrir augum þegar ráðist er í slíkar breytingar.

Það sem ég vil einnig leggja áherslu á enn á ný er það, að þar sem þetta er byggt á svo hæpnum lagagrundvelli sem verða má, með því að teygja lagabókstafinn í allar áttir, það kalla ég að sé hæpinn lagagrundvöllur ef ekki lögleysa, það sem ég óttast í þessu sambandi er það að hér sé verið að búa til fordæmi fyrir aðra ráðh., jafnvel þá sem nú starfa og svo aðra sem á eftir koma á komandi árum. Ég tel brýna nauðsyn að það séu vissar lagareglur sem ráðh. verða að fara eftir þegar um það er að ræða að gera skipulagsbreytingar á rn. og ég tel að það sé verkefni Alþingis að setja slíka löggjöf. Hún má að sjálfsögðu vera rúm og það má vel vera að eðlilegt sé að koma megi við rúmum lögskýringum á ýmsum sviðum. En þegar um er að ræða grundvallarbreytingar á rn., eins konar kollsteypu, þá held ég að nauðsynlegt sé að bera slíkt undir Alþingi og a. m. k. gera þeim viðvart sem styðja viðkomandi ríkisstj. og þ. á m. hlutaðeigandi ráðh., því að auðvitað geta ráðh. ekki leyft sér að ráðskast í embættum sínum algerlega án þess að taka nokkurt tillit til þess hvað þeir vilja sem hafa beinlínis komið þeim í þessi embætti. Af þessum sökum: að ég tel að þarna sé formlega rangt að staðið og fordæmið sem hæstv. ráðh. hefur verið að gefa sé slæmt, og svo hinu, að hér er efnislega illa að staðið, sé ég ástæðu til að finna að þessum embættisverkum. Ég vil nú samt sem áður ekki vera svo refsiglaður að leggja það til að Landsdómur verði kvaddur saman til að fjalla um þessi verk hæstv. ráðh.