27.03.1984
Sameinað þing: 71. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (3588)

184. mál, friðarfræðsla

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það má hafa langt mál og stutt mál. Í hinni alkunnu vísu þjóðskáldsins:

Trúðu á tvennt í heimi

tign sem æðsta ber.

Guð í alheimsgeimi

Guð í sjálfum þér,

er nú held ég fólginn sá friður sem menn leita eftir og öllum er sameiginlegt. Vissulega stendur það hvort tveggja í Biblíunni, að menn eigi að vera saklausir sem dúfur og slægir sem höggormar, en ætli friðurinn sé ekki einhvers staðar mitt á milli.

Það er ástæðulaust að vera með hártoganir þegar rætt er um mál eins og friðarfræðslu. Það hlýtur að vera að sitt sýnist hverjum í þeim efnum og hvernig túlka eigi mál. Það sem ég hef lagt á áherslu í fyrsta lagi er að það sé mjög vandmeðfarið að kynna börnum, ungum börnum hina flæktu stöðu pólitíkur í heiminum í dag. Það er fyrst og fremst þar sem ég tel að sé erfitt að skipuleggja og marka skil, sem ekki geti leitt til vandræða og misskilnings, skemmda á börnum.

Ég lagði einnig á það áherslu, sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir kom inn á, að ég teldi óþarfa að kyngreina valdbeitingu. Hv. þm. sagði í ræðu sinni að konur væru nátengdar tilurð og endalokum lífsins með líkama sínum. Það þarf nú tvo til og er óþarfi að vera sífellt að klifa á því að konur séu einn kynþáttur og karlmenn annar. Við hljótum að gera okkur fulla grein fyrir því hver sá munur er, sem er á konum og körlum, en að vera að búa alltaf til tvær fylkingar, það stuðlar ekki að friði og er furðulegt að þannig sé tekið til orða. Það er sagt að með því að ganga að fólki án þess að meiða það eða skemma, þá sé maður að stuðla að friði. Hvenær meiðir maður fólk og skemmir? Ef fólk vill vera í friði þá er það einstaklingurinn sem metur það en ekki sá sem að vill ganga.

Ég er ekki að mótmæla eða fjargviðrast út í friðarhreyfingar eða vinnubrögð þeirra, en ég sé ekki að friðarhreyfingar hafi rétt umfram aðra til þess að fara inn á ákveðin svæði, þar sem ákveðnar reglur gilda og menn vilja fara eftir. Og kenningin um konurnar, sem klifra yfir girðingarnar inn í herstöðvarnar og syngja þar og brosa, nú verra gat það verið. En ég sé ekki tilganginn til lengdar. Þetta eru eins konar uppákomur sem ég sé ekki að skili neinum árangri. Þær hafa kannske sungið „Kveikjum eld, kveikjum eld“ eða eitthvað slíkt og víst er það saklaust gaman ef laglega er sungið. En ég harma hártoganir um þessa umræðu og mér finnst svolítið einkennilegt að menn séu teknir á beinið með því að safna saman yfirlýsingum frá einhverjum skólaráðum og krefjast þess að menn svari hér já eða nei. Þetta er ekki spurning um já eða nei. Það hljóta allir að vera sammála um nauðsyn þess að stuðla að friði, en það hlýtur að vera túlkunaratriði hvernig á að standa að þeirri fræðslu. Og umfram allt er ég á móti því að ruðst sé inn á garðinn sem hýsir yngstu börnin. Ég vil leyfa þeim að vera í friði sem börn og tel þau ekki græða neitt á því að frétta af ógnandi atburðum víða í heiminum frá degi til dags.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir benti mér á að lesa Mattheus 5.9, með leyfi forseta: „Sælir eru friðflytjendur því þeir munu guðs synir kallaðir verða.“ Það má auðvitað halda áfram og minna á Mattheus 5.7 sem segir: „Sælir eru miskunnsamir því þeim mun miskunnað verða.“ Ég vona að það hafi ekki verið neitt á bak við það hjá hv. þm. að orðalagið í þessari grein Biblíunnar segir „guðs synir“ því víst eru konur og karlar synir guðs í senn og vona ég að það sé ekki neitt sem kvelur þar á bak við.

Það er líka undarlegt að segja að karlmenn séu að búa til kjarnorkusprengjur fyrir sig. Það sem ég sagði frekar í gamni en alvöru um heimilistækin var ekki ástæða til að taka svona háalvarlega þótt þetta sé staðreynd engu að síður. En við skulum athuga gang mála. Við skulum fara út fyrir það friðarsvæði og það frjálslynda svæði sem við búum á á norðurhveli jarðar. Við skulum fara inn í svörtustu Afríku eða hin ýmsu lönd Asíu og bera saman hvernig hættir hafa gengið þar fyrir sig öld eftir öld. Það er ekkert undarlegt að karlmaðurinn gekk á undan á hættuslóðum, einfaldlega vegna þess að karlmaðurinn er þannig líkamlega byggður að hann hafði meira afl en konan og börnin til þess að verjast hættum, til þess að verjast ófriði. Ég er ekki að mæla því bót að í ýmsum löndum Asíu og Afríku t. d. hefur konan verið látin vinna mun meira en karlmaðurinn, en karlmaðurinn hins vegar látinn verja sig og sína þegar svo hefur borið undir. En þetta hefur leitt þannig af skynsemissjónarmiði.

Nú þarf ekki afl til þess að framleiða kjarnorkusprengjur. Mál hafa snúist við og auðvitað leiðir það til breyttra aðstæðna í heiminum. Þeim mun fáránlegra er að vera að kyngreina sérstaklega meðferð valds, tilbúning á sprengjum. Hv. þm. gerði það svo greinilega með orðalagi sínu að ekki varð um villst. Ég vil aðeins vitna, með leyfi forseta, í Prédikarann, 11. kapítula, 5. vers:

„Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk guðs, sem allt gjörir. Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi; því að þú veist ekki, hvað mun heppnast, þetta eða hitt, eða hvort hvorttveggja verður gott. Indælt er ljósið og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina. Því þegar maðurinn lifir mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess að dagar myrkursins verða margír; allt, sem á eftir kemur, er hégómi. Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni og lát liggja vel á þér unglingsár þín og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast; en vit, að fyrir allt þetta leiðir guð þig fyrir dóm. Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum; því æska og morgunroði lífsins eru hverful.“

Þetta er það sem er mergurinn málsins. Það er mikill munur á því hvort þarna á að meðhöndla ungabörn, saklausar sálir, eða fólk sem er komið til nokkurs þroska. Ég tel það ekki stuðla að friði að efna til þess ófriðar sem slíkt hlýtur að leiða af sér þegar misvitrir kennarar, foreldrar og forsjármenn eiga að fara undir forsjá skólakerfis að leggja þannig línu fyrir ung börn. Ég tel þar of langt gengið. En á hinn bóginn hlýtur öll friðarfræðsla að vera jákvæð svo langt sem ekki sé gengið að rétti næsta manns.

Mér fannst ástæða til að þetta kæmi hér fram. Að öðru leyti var ekki margt sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir gagnrýndi í sjálfu sér í málflutningi mínum eða þeirra sem hún kvað sammála mér. Hún dró nokkuð í land og þykir mér vænt um það. Hún dró í land með það að ekki væri munur á lýðfrjálsum þjóðum og öðrum sem búa við einveldi eða valdbeitingu.

Auðvitað er alls staðar sama ástæða til vígbúnaðar. Það er ófriður, það skapast ófriður og ég geri ekki mikinn greinarmun á þeim ófriðarhættum sem eru vegna kjarnorkusprengju eða t. d. í einu litlu þorpi í t. d. Eþíópíu þar sem menn nota ekki nýjustu vopn. Þar sem menn nota gömul vopn eins og spjót. Söm er gjörðin og samur er dauðinn sem fylgir og þannig er æskilegt að vinna að þessum hlutum í einni heild markvisst og ákveðið og um það getum við verið sammála, en ganga þó ekki yfir mörkin þar sem um er að ræða óþroskaðar sálir og saklaus börn. Ég held að við eigum líka að sinna fyrst okkar eigin vandamálum í okkar eigin landi áður en við förum að bjarga heiminum. Við erum svo ógnarsmá að þótt við viljum gera öðrum gott og rétta hjálparhönd þá höfum við miklu fleiri vandamál við að glíma í okkar landi en svo að við getum og höfum leyfi til að eyða tíma okkar, orku, gáfum og peningum til þess að bjarga fyrst heiminum í einni heild.