13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég tel mjög eðlilegt að þessar umr. fari hér fram. Sú ákvörðun að Alþingi skyldi ekki koma saman í sumar hefur verið mikið gagnrýnd og ég skil þá gagnrýni vel. Ég ætla hins vegar ekki að ræða sérstaklega um liðna tíð, ekki um það sem málið hefur mest snúist um í þessum umr. eða svara neinu af því sem fram hefur komið þó af mörgu sé að taka. Ég tel gömlu stjórnarskrána býsna góða og það sé mikið vandaverk að breyta henni til hins betra. Hins vegar er auðvitað vandalaust að breyta henni til hins verra.

Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er tilvitnun í ræðu Eysteins Jónssonar frá 6. nóv. 1968. Ég hlustaði á þá ræðu og það er að sjálfsögðu góð ræða í þeim skilningi að hún var vel samin og vel flutt og rökstudd ágætlega, en engu að síður var ég henni ósammála í grundvallaratriðum og er enn í dag og miklu meira ósammála henni í dag en ég var þá. Þessari ræðu svaraði Bjarni Benediktsson þegar í stað og benti á hve háskasamlegt það væri ef allir alþm. Íslendinga, 60 talsins, yrðu opinberir embættismenn á fastalaunum og sætu á þingi meira og minna árið um kring og gæfist ekkert tækifæri til að vera í lifandi starfi úti í þjóðfélaginu.

Ég held að það hafi sannast að þingstörf gangi ekki betur nú en þau gerðu áður, þingið sé ekki afkastameira eða það sé ekki betri löggjöf sem nú komi en áður. Hún er stundum lengri og þar með verri, — langir lagabálkar, sumir meira og minna óskiljanlegir og eiga ekkert erindi. En aðalatriðið er að fólkið þarf — þm. alveg eins og aðrir — að vera í lifandi störfum einhverjum öðrum en stjórnmálum, a.m.k. í okkar litla þjóðfélagi. Ég get ekki hugsað mér að t.d. hv. þm. Geir Gunnarsson mætti aldrei fara út á trillunni sinni eða hv. þm. Guðrún Helgadóttir mætti ekki semja barnabækur eða þm. mættu yfirleitt ekki stunda læknisstörf eða arkitektúr, sjómennsku, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson eða Pálmi Jónsson mættu ekki vera bændur. Ég held að það væri mjög mikil afturför.

Mín skoðun er sú, og ég hef sannfærst um hana því meir sem á hefur liðið, og hef ég fylgst með þingstörfum alllengi, fyrst sem ritstjóri og varaþm. og síðan sem þm., að störf Alþingis hafi ekki batnað við það að starfstíminn lengist og ekki batnað við það að þm. eru nú orðnir fastlaunamenn í staðinn fyrir að áður fengu þeir þingfararkaup. — Það er víst kallað það enn í dag. Áður hét það auðvitað þingfararkaup af því að menn fóru til þings og höfðu kaup þann tíma sem þeir voru á þinginu en annars ekki og unnu fyrir sér með öðrum hætti, allir nema þá ráðherrar og kannske flokksforingjar eða einhverjir slíkir. — Ég mundi leggja til að þing stæði í 21/2 mánuð að hausti, eins og nú er, og síðan kæmi það ekkert saman aftur fyrr en kannske í marsmánuði og stæði þá síðari hluta vetrar og á vori svona þrjá mánuði eða eitthvað þvíumlíkt. Hins vegar væri ég alveg sammála því að þing yrði kallað saman alltaf ef eitthvert stórmál bæri upp á, það þyrfti að afgreiða einhverja löggjöf, við stjórnarskipti o.s.frv. Þá er ég auðvitað sammála því að þing væri kallað saman og sæti þá kannske tvær, þrjár vikur. Eins og samgöngur eru, þá geta menn auðvitað alltaf komið til þings.

En ég vildi ekki láta ómótmælt þessum skoðunum Eysteins Jónssonar og nú skoðunum, að mér virðist, hv. þm. Eiðs Guðnasonar og fleiri sem hér hafa talað. Ég held að við verðum að reyna að hugsa þetta mál. Ég get t.d. ekki hugsað mér annað en þetta nýja fólk, sem hér kemur inn núna, unga fólkið, verði orðið þreytt á í vor að geta ekkert gert annað en að sitja hér. Það er vafalaust spennandi að koma hér inn fyrst, en þó að við þm. séum yfirleitt mjög góðir, greindir og skemmtilegir menn, þá er mönnum nú farið að leiðast þegar komið er fram í apríl og maí og sólin skín að mega ekki gera neitt annað. Og sem betur fer gera menn yfirleitt ýmislegt annað. Ég get ósköp vel sagt það fyrir mína parta: Mér mundi ekki detta í hug að vera hér í þinginu ef ég mætti ekki t.d. stunda laxaræktartilraunir og reyna að koma upp laxarækt. Mér dytti það ekki í hug. Ég tel það vera miklu merkilegra að reyna það og ég tel að þessi störf, sem menn vinna — hver og einn þm. — og vonandi halda áfram að vinna, séu alveg eins merkileg og þingmennskan, kannske miklu merkilegri.

En ég leyfi mér, herra forseti, til þess að ég sé ekki að tefja hér tímann og lengja þessar umr., að lesa upp örlítinn kafla úr ræðu Bjarna Benediktssonar frá 6. nóv. 1968, því að að sjálfsögðu get ég ekki orðað þessa hugsun eins vel og hann gerði þegar hann óviðbúinn flutti þessa merku ræðu — miklu, miklu merkari að mínu mati en ræðu Eysteins Jónssonar. Þessi kafli hljóðar svo:

„Ef þessi háttur“ — þ.e. að þing sæti meiri hl. ársins — „ef þessi háttur væri upp tekinn, yrði sannarlega gerbreyting á aðstöðu þm. og aðstöðu Alþingis í íslensku þjóðlífi. Það má vel vera, að ætíð hafi nokkur hópur þm. verið, sem hafi mjög stuðst við þingmannslaun um sína afkomu. En þó hygg ég, að það hafi ætíð talist til undantekninga, og það er að vísu svo nú, að þingmannslaun eru orðin þannig, að menn geta dregið fram lífið á þeim launum. Það skal viðurkennt. En þá verður einnig að hafa í huga, að margfaldur kostnaður er þingmennsku samfara, sem þar kemur til frádráttar. En hv. þm. lætur sér þetta ekki nægja, heldur telur, að launakjör og starfsaðstaða þm. þurfi að breytast, svo að það verði meginregla, að þm. sinni ekki öðrum störfum, þ.e. þá á ekki að nægja að halda uppi hinu fasta embættiskerfi, stjórnkerfinu, ríkisstj., heldur ættum við til viðbótar að fá 60 manna hóp, sem sæti hér á Alþingi og hefði yfirleitt ekki öðrum störfum að sinna. Ég hygg, að hvað sem líður kostnaðarhliðinni á þessu máli, — og stundum hafa menn þó talið hana ekki vera einskis virði, og vitanlega yrði mjög að hækka laun þm. frá því sem er, ef menn ættu að fást til þess að sitja hér á þingi og sinna ekki öðrum störfum, — en hvað sem kostnaðarhliðinni líður, og ég álít að hún sé aukaatriði, þá sé hér um mjög varhugaverða breytingu að ræða. Ég hygg, að það sé nánast sagt lífsskilyrði fyrir Alþingi, að það sé í sem nánustum tengslum við hið almenna starfslíf í landinu, að það skapist ekki sérstök stétt stjórnmálamanna. Látum vera að tala um stétt stjórnmálamanna, þeirra sem hafa atvinnu af að skrifa í blöð sem stjórnmálamenn, þeirra sem starfa fyrir flokka, e.t.v. okkur hv. 1. þm. Austf., sem lengi höfum verið í ríkisstj., þó að við höfum sinnt öðrum störfum inn á milli, en ef til viðbótar slíkum undantekningum ætti að koma, að hér væri 60 manna hópur eða fast að því, sem fyrst og fremst stundaði stjórnmál sem sitt lífsuppihald og hefði sínar tekjur af því, þá mundi það verða til að veikja mjög Alþingi frá því sem er, bæði í skoðun almennings og á möguleika þm. til þess að sinna sínum störfum,“ hvorki meira né minna.

Það mundi — og ég hygg að þetta sé alveg rétt — líka minnka okkar möguleika, sem hér erum, til að sinna okkar þingstörfum, ef við værum ekki líka í einhverjum öðrum störfum. Og ég vona að sérstaklega þeir sem yngri eru og eru að byrja sín þingstörf núna hugleiði þetta, að það verði ekki örlög þeirra og ekki örlög Alþingis að einangrast frá þjóðlífinu. Það er öllum mönnum lífsnauðsynlegt að vera úti í þjóðlífinu og sinna þar störfum, og við eigum ekki að einangrast hér og vera talandi hvert við annað árið um kring og eingöngu um stjórnmál. Það er svo margt annað merkilegra til en þessi venjulegu þingstörf, bæði í menningarefnum og í hinu daglega lífi, atvinnulífinu öllu saman.