28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4229 í B-deild Alþingistíðinda. (3603)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þegar hefur verið gerð skilmerkileg grein fyrir áliti meiri hl. allshn. varðandi þetta mál. Mig langaði þó til að bæta örfáum orðum við þá umr. sem þegar hefur átt sér stað. Um það er enginn ágreiningur, og það hefur komið fram hjá þeim hv. þm. sem talað hafa hér á undan mér, að auðvitað er löngu tímabært að endurskoða vinnulöggjöfina. Gegnir raunar furðu að það skuli ekki hafa verið gert. Hún hefur verið óbreytt frá árinu 1938 en á þessum tíma hefur afar margt og kannske allt breyst frá því sem þá var.

Fyrst er til að taka í sambandi við þetta mál að sú hugmynd sem þar er fram sett hefur auðvitað ýmsa kosti. En hún hefur líka galla eins og hér hefur verið bent á. Í mínum huga eru gallarnir fleiri en kostirnir. Leggur n. því til að frv. verði fellt og er það raunar í samræmi við umsagnir, álit og afstöðu launþegasamtaka landsins sem fengu þetta mál til umsagnar.

Þetta frv. er, eins og hér hefur raunar verið á minnst, kannske ekki nema hálfhugsað, þetta er ekki nema hálf hugsun. Það vantar miklu ítarlegri útfærslu og raunar hef ég miklar efasemdir um að stjórnmálaflokkarnir eigi með þessum hætti að hafa afskipti af málum verkalýðsfélaganna. Það er áreiðanlega rétt að að mörgu leyti er starfsemi og skipulag verkalýðshreyfingarinnar úrelt og hefur ekki aðlagað sig þeim tímum sem við nú lifum. En ég held að breytingar og tillögur til breytinga verði að koma frá samtökunum sjálfum og eiga rætur og uppruna þar ef þær eiga að hafa einhver áhrif. Þess vegna held ég að ekki sé heppilegt að stjórnmálaflokkarnir og Alþingi hlutist til um þessi mál með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir, heldur eigi breytingar að koma frá grasrótinni, ef ég má nota það orð sem er í miklu dálæti og í hávegum haft hjá sumum um þessar mundir. Ég held að þetta gangi þvert á allt það sem menn á vondu máli kalla grasrótarhugmyndir og grasrótarstefnu. Ég bið eiginlega velvirðingar á því að nota þessi orð sem fara ákaflega illa í íslensku máli að mér finnst. (Gripið fram í.) Já, þau hafa verið notuð, en um aðra hluti. En menn hafa kosið á hinum síðari tímum að yfirfæra merkingu þess orðs og raunar tekið beint úr enskri tungu og er það heldur óheppileg orðnotkun að mínum dómi.

Stjórnmálaflokkar eiga ekki að hafa afskipti af þessum málum með þeim hætti sem hér um ræðir. Raunar hélt ég að það væri þvert á stefnu þeirra sem þetta mál flytja að hlutast til um þessi mál með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég hefði fellt mig miklu betur við þá málsmeðferð að málinu yrði vísað til ríkisstj. með þeim tilmælum að hún beitti sér fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins, samtök launþega og atvinnurekenda, hæfu umr. um þessi mál og endurskoðun á vinnulöggjöfinni. Það hefði mér fundist miklu eðlilegri og heppilegri afgreiðsla. En þetta var nú samt niðurstaðan í n. Var þá m. a. horft til þeirra álitsgerða sem bárust frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ég stend að því meirihlutaáliti sem hér hefur verið lagt fram.

Fyrirkomulagið sem frv. gerir ráð fyrir hefur ýmsa kosti, eins og ég áðan gat um, eins og þetta er sett hér fram er hugsunin ekki til enda hugsuð og sennilega yrði þetta, eins og menn hafa hér að vikið, fremur til þess að veikja samtök launþega frá því sem nú er. En ég ítreka það að skipulag launþegasamtakanna þarf vissulega endurskoðunar við. Um það er enginn ágreiningur. En ég held að stjórnmálaflokkarnir, hvort sem þeir heita Bandalag jafnaðarmanna, Alþfl., Alþb., Sjálfstfl. eða Framsfl. eigi ekki að ráða þessum málum fyrir launþega. Það eiga launþegar að gera sjálfir í sínum félögum. Það er hinn rétti vettvangur breytinganna.