28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4232 í B-deild Alþingistíðinda. (3605)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem ýmsir þm. hafa sagt um að tímabært sé að huga að endurskoðun á löggjöfinni um stéttarfélög og vinnudeilur, en sú löggjöf er, eins og fram hefur komið, orðin nærri hálfrar aldar gömul. Það eru ýmis ákvæði í þeim lögum sem væri ástæða til að endurskoða og endurmeta. Þar er af mörgu að taka. Ég vil aðeins geta þess að mér finnst það vera ákaflega óeðlilegt þegar teknar eru ákvarðanir t. d. af hálfu verkalýðsfélaga eða launþegafélaga um alvarlega hluti eins og verkfall að ekki sé hreinlega krafist ákveðinnar lágmarksþátttöku við slíka ákvörðun. Slíkt hefur gerst með tiltölulega lítilli þátttöku. Ég álít að þetta sé það alvarlegt mál og þýðingarmikið ekki aðeins fyrir launþegana heldur þjóðfélagið í heild að eðlilegt sé að krefjast lágmarksþátttöku, t. d. að helmingur félaga í stéttarfélagi, sem ætlaði að setja á verkfall, tæki þátt í ákvörðun um málið. Sumir hafa talað um að meira en helmingur þurfti að styðja slíka ákvörðun. Það er matsatriði hve langt á að ganga í þessu efni.

Annað er það í sambandi við samþykkt kjarasamninga og ákvarðanir um verkföll að mér fyndist alveg sjálfsagt að ef einhver óskar eftir því að fram fari leynileg atkvæðagreiðsla um slíka ákvörðun þá verði orðið við því. En það gerðist á Dagsbrúnarfundi um daginn að felld var till. um að hafa leynilega atkvæðagreiðslu um kjarasamningana. Ég skal ekkert reyna að meta það hvort þetta hefur haft einhver áhrif, en manni finnst þetta vera fornaldarlegt svo ekki sé meira sagt. Þetta er eiginlega dálítið svipað því og þegar menn greiddu atkvæði upphátt um það hvort menn styddu sýslumanninn sem var kannski í forsæti á fundinum og var sjálfur í framboði eða einhvern annan. Þannig að mér hefði fundist ástæða til þess, að þessu gefnu tilefni að setja hreinlega í lög að ef einhver óskar eftir því að atkvæðagreiðsla um kjarasamninga eða verkfallsákvörðun eða verkbann fari fram leynilega þá verði orðið við því. Svona eru ýmis fleiri ákvæði í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur sem ástæða væri til að taka til endurmats.

Þetta frv. mundi heimila stofnun félaga sem vinna hjá sama vinnuveitanda að stofna verkalýðsfélag. Ég hef efasemdir um að það væri heppilegt. Hins vegar gefur það augaleið að það kæmi í veg fyrir vissa hluti sem hafa viðgengist í þessum málum eins og t. d. það að félagar í Sókn, Dagsbrún og BSRB, sem hafa unnið hlið við hlið nákvæmlega sömu störf, hafa fengið mismunandi há laun. Frá því sjónarmiði séð kæmi slík heimild, ef hún væri notuð, sennilega í veg fyrir að slíkt gerðist.

En það er annað sem ég óttast ef þessi skipan mála yrði tekin upp og framkvæmd. Það er að það mundi torvelda allsherjarákvarðanir um kjaramálin. Það yrði meiri mismunur hjá fólki þó að það ynni kannske sömu störf vegna þess að það hefði ólíka samninga. Ég óttast að það mundi skapa meiri togstreitu og torvelda heildarkjarasamninga sem ég álít að sé ákaflega heppilegt fyrirkomulag, en heildarkjarasamningar hafa raunar oftast verið gerðir hér eins og menn þekkja. Ég held að heildarkjarasamningar stuðli að stöðugleika í efnahagsmálum og atvinnumálum og séu allt að því nauðsynlegir, enda eru þeir við líði hjá þeim þjóðum sem lengst eru komnar í jöfnuði og kjaramálum.

Fram kemur í grg. álit ýmissa þýðingarmikilla aðila um þessi efni. Það eru yfirleitt neikvæðar umsagnir sem berast og er ástæða til að taka eftir því. Ég hef tilhneigingu til að taka undir mál hv. 5. landsk. þm., að vísa þessu máli til ríkisstj. Það gæti orðið upphaf að því að þessi mál yrðu hreinlega tekin upp. Á Alþingi kemur fram frv. til l. sem snertir vinnulöggjöfina og gerir ráð fyrir breytingum á henni og ég hefði haft tilhneigingu til þess að styðja þá skoðun hv. þm. að vísa málinu til ríkisstj. á þann veg að hún tæki það upp við aðila vinnumarkaðarins og þessir aðilar beittu sér fyrir heildarendurskoðun á vinnulöggjöfinni. Ég er alveg reiðubúinn til þess að standa að till. með hv. þm. í þessa veru. Það var nú raunar tilefni þess að ég tók til máls, en ef slík till. kemur ekki fram mun ég standa að því að greiða atkvæði á móti frv.