28.03.1984
Efri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4234 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

260. mál, sjómannalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Fyrstu almennu siglingalög eru frá 1913 en ári síðar voru þau endurútgefin sem lög. Þar er að finna allítarleg ákvæði um réttarstöðu sjómanna. Árið 1930 voru ákvæði um kjör skipshafnar og skipstjóra numin úr siglingalögum, þau endurskoðuð og sett í sjómannalög. Núgildandi sjómannalög eru frá 1963. Þau eru að mörgu leyti unnin að fyrirmynd annarra Norðurlandaþjóða. Breyting var gerð á 18. gr. laganna með lögum nr. 49 frá 1980, þar sem aukin voru réttindi sjómanna til greiðslu launa í veikinda- og slysatilfellum til samræmis við aukin réttindi landverkafólks á þessu sviði.

Á síðustu tveimur áratugum hefur orðið talsverð þróun í kjaramálum sjómanna sem og annarra launþega og hafa aðrar Norðurlandaþjóðir þegar endurskoðað sín sjómannalög. Þar sem ljóst þótti að gildandi sjómannalög frá 1963 þurftu endurskoðunar við skipaði þáv. samgrh. 8. sept. 1981 nefnd til að endurskoða gildandi siglingalög og sjómannalög, aðallega um réttindi og skyldur sjómanna og útvegsmanna í veikinda- og slysatilfellum sjómanna, svo og líf- og öryggistryggingu sjómanna og gildissvið þeirra trygginga. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda og Vinnuveitendasambandi Íslands vegna kaupskipaútgerðar. Páll Sigurðsson dósent var skipaður formaður nefndarinnar.

Við skipun framangreindra nefndarmanna var m. a. leitast við að gæta þess að í nefndinni ættu sæti fulltrúar hinna helstu hagsmunasamtaka eða hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi. Nefndin skilaði í janúarmánuði því frv. sem hér er lagt fram.

Breytingar þær sem gert er ráð fyrir í frv. frá gildandi sjómannalögum miða fyrst og fremst í þá átt að gera mikilvæg atriði ljósari og lögin í heild aðgengilegri til notkunar en nú er, enda mikilvægt að réttarstaðan í samskiptum sjómanna og útvegsmanna sé sem skýrust. Á hitt er þó að líta, að aldrei verður með lögum mælt fyrir um allt það sem hugsanlega getur valdið ágreiningi milli sjómanna og útgerðarmanna, og hefur frv. helst að geyma ákvæði um þau svið sem reynslan hefur sýnt að raunhæft er að lögbinda. Mörg atriði er heppilegra að skera úr um í kjarasamningum milli þeirra stétta sem við sjómennsku, siglingar og sjávarútveg starfa.

Erfitt er að semja frv. sem átt getur við alla sjómenn á íslenskum skipum. Það má fullyrða að sjómannalög Íslendinga sem og annarra þjóða hafi einkennst af ákvæðum sem fremur lúta að stöðu farmanna en fiskimanna og má e. t. v. einnig finna þess merki í þessu frv., enda þótt sjónarmiða fiskimanna og fiskiskipaútgerðarinnar hafi einnig verið gætt.

Efni frv. skiptist í sex kafla. Í I. kafla eru almenn ákvæði um gildissvið laganna og skýrð eru meginhugtök sem notuð eru í frv. Auk þess er þar almennt ákvæði í 3. gr. um tilteknar skyldur allra þeirra manna sem á skipi eru staddir, án tillits til tengsla þeirra við skipið eða útgerð þess. Af l. kafla leiðir að horfið er frá þeirri skiptingu gildandi laga að þeir sem á skipi eru flokkast í venjulega skipverja, aðra skipverja og í þriðja lagi aðra sem á skipi eru. Skv. frv. gilda öll ákvæði þess um sjómenn (skipstjóra og skipverja) en skv. 5. gr. þess er með „skipverja“ átt við hvern þann sem ráðinn er á skip til skipsstarfa.

II. kafli fjallar um ráðningarsamning o. fl. Ákvæði kaflans eiga sér að nokkru leyti fyrirmynd í gildandi sjómannalögum, en eru um margt fyllri. Hann skiptist í undirkafla:

Í fyrsta lagi um samningsgerðir o. fl. sem hefur að geyma almennar reglur um skiprúmssamninga við skipverja. Ákvæði þessi eiga sér að nokkru leyti fyrirmynd í lögunum frá 1963.

Í öðru lagi um ráðningartíma. Um þetta efni er nú ákvæði í 12.–17. gr. laganna frá 1963. Í síðari hluta 2. mgr. 9. gr., sem fjallar um uppsagnarfrest á skiprúmssamningi yfirmanns, er mikilvæg breyting frá því sem er að gildandi lögum. Hafi ekki verið sérstaklega um annað samið gildir sú regla að sá sem starfað hefur sem afleysingamaður í yfirmannsstöðu í níu mánuði samfleytt hjá sama útgerðarmanni öðlast rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests eins og aðrir yfirmenn. Enn fremur er það nýmæli í 15. gr. að réttur til ókeypis heimferðar skapist þegar skip hefur ekki komið í íslenska höfn í fjóra mánuði frá því skipverji kom um borð. Í þriðja lagi um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi. Hér eru nokkrar breytingar og nýmæli frá gildandi lögum sem fela í sér kjarabætur handa sjómönnum. Þó er byggt á sömu grundvallarreglum og í lögunum frá 1963, 35.–40. gr.

Í fjórða lagi um rétt skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi. Um þetta efni eru ákvæði í gildandi lögum. Þó er það nýmæli í síðari hluta 1. mgr. 25. gr. að sá sjómaður sem starfað hefur í 15 ár eða lengur í þjónustu sama útgerðarmanns á rétt til sérstakrar uppbótar, sem nema eins mánaðar launum, sé um yfirmann að ræða, en 15 daga launum sé um undirmann að ræða.

Í fimmta lagi um kaup skipverja. Ákvæði þess kafla svara að nokkru leyti til 18.–25. gr. núgildandi laga. Sá kafli fjallar þó bæði um ýmis almenn atriði varðandi launagreiðslur og um kaup til sjúkra eða slasaðra skipverja. Hér þykir fara betur á því að halda þessum tveimur þáttum aðskildum og er fjallað um umönnun og kaup sjúkra skipverja í II. kafla, 6.

Í sjötta lagi umönnun og kaup sjúkra skipverja. Hér er ástæða til að benda sérstaklega á 36. gr. sem fjallar um réttindi og skyldur í slysa- og veikindatilfellum sjómanna. Flestir sem um sjómannalögin fjalla telja að ákvæði þeirrar greinar um slys og veikindi séu langþýðingarmestu ákvæði sjómannalaganna. Ágreiningur hefur risið um nánast allt sem verða má í þessum efnum, enda um vandmeðfarin og viðkvæm efni að ræða. Meginmarkmið þessara ákvæða um slys og veikindi er að standa vörð um forfallakaupsrétt þeirra sem með réttu eiga tilkall til hans, jafnframt því að aðhald verði aukið á þann hátt að þessi réttur sé ekki misnotaður.

Varðandi 36. gr. þykir mér rétt að benda á að þrír nm. skiluðu sérstakri till. um orðalag þessarar greinar og er hún prentuð hér sem fskj. með frv.

Skv. gildandi lögum frá 1980 um breytingu á 18. gr. laganna frá 1963 getur forfallakaupstími lengstur orðið sjö mánuðir. Í fyrstu íslensku sjómannalögunum gat sá tími lengstur orðið sjö dagar. Skv. 36. gr. er gert ráð fyrir að þessi tími geti lengstur orðið 12 mánuðir vegna vinnuslysa en 10 mánuðir vegna annarra forfalla.

Í 7. mgr. er nýmæli er mælir fyrir um skyldu skipverja til að tilkynna um óvinnufærni sína án tafar. Í 8. mgr. mælir fyrir um skyldu þess skipverja er gerir kröfu um forfallakaup að hann staðreyni óvinnufærni sína með læknisvottorði. Það er nýmæli að lækni er skylt að tilgreina í læknisvottorði hver sé ástæða óvinnufærninnar, hvert sé nafn sjúkdómsins og hver meiðslin séu. Veigamiklar ástæður verða að liggja fyrir til þess að það verði ekki gert.

Í 9. mgr. felst mikilvægt nýmæli sem á sér fyrirmynd í norrænum lögum. Hún fjallar um þau tilvik þegar fyrir liggur að sá sem vill ráða sig á skip er haldinn einhverjum meiðslum eða sjúkdómi og miklar líkur eru á því að til forfalla komi af völdum þess sama sjúkdóms eða meiðsla. Í þeim tilvikum er gert ráð fyrir því að sjómaður og útgerðarmaður geti gert með sér sérstakt samkomulag, að fengnu samþykki stéttarfélags sjómannsins, þess efnis að verði sjómaður óvinnufær af þessum ástæðum þá sé útgerðarmaður undanþeginn greiðsluskyldu forfallakaups.

Loks má þess geta að í 10. mgr. er nýmæli sem gerir ráð fyrir því að samtök sjómanna og útgerðarmanna geti samið um aðra skipan mála en í greininni segir, enda séu slík ákvæði, þegar á heildina er litið; sjómönnum ekki óhagstæðari en ákvæði greinarinnar.

Í 37. gr. er fjallað um umönnun sjúkra skipverja og ferða- og fæðiskostnað skipverja til útgerðarstaðar skips. Í 3. mgr. er nýmæli á þá leið að fari skipverji úr skiprúmi vegna veikinda eða meiðsla er útgerðarmanni skylt að greiða ferðakostnað og fæðiskostnað fyrir skipverja til útgerðarstaðar skips eða til heimilis hans hafi það eigi í för með sér aukinn kostnað.

Í sjöunda lagi andlát skipverja og greftrun. Um þetta efni eru ákvæði í gildandi lögum, en ákvæði frv. eru þó nokkuð ítarlegri.

Í áttunda lagi ráðningarsamningur skipstjóra. Um þetta efni eru ítarleg ákvæði í I. kafla núgildandi sjómannalaga, en í frv. m. a. lagt til að ákvæðin verði gerð nokkru einfaldari en er að gildandi rétti. Skipstjóri hefur að ýmsu leyti það mikla sérstöðu að rétt þykir nú sem fyrr að helga ráðningarsamningi við hann sérstakan kafla í sjómannalögum.

III. kafli frv. fjallar um skipsstörfin. Efni hans svarar í stórum dráttum til III. kafla gildandi sjómannalaga, en í frv. eru þó margvíslegar breytingar á einstökum ákvæðum, þar sem haft er mið af raunhæfum þörfum nú á tímum, auk þess sem þar er að finna nokkur önnur nýmæli. III. kaflinn skiptist í undirkafla sem fjalla um yfirmenn og stjórnun, starfstilhögun og varúðarreglur, almennar starfsskyldur, um upphaf vistar skipverja og fjarveru hans. Rétt er að vekja athygli á því að skv. 2. mgr. 59. gr. hvílir sú skylda á skipstjóra eða útgerðarmanni að veita skipverja greiðar upplýsingar um ferðir skips, eftir því sem kostur er, en skipverja er þó skylt að fylgjast með ferðum skipsins og vera reiðubúinn að taka upp sín störf.

Í fimmta lagi er kafli um bótaskyldu skipverja. Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. 51. gr. í núgildandi lögum nema hvað áréttað er að þegar sérstaklega standi á megi fella bótaskyldu niður með öllu. Um aðra launþega hefur gilt sú regla að bætur til vinnuveitenda í slíkum tilvikum hafa numið jafngildi launa í hálfum uppsagnarfresti. Eðlilegt þykir að sjómenn sitji við sama borð og aðrir launþegar að þessu leyti. Með tilliti til þess hve ítarleg ákvæðin um ráðningarsamninga eru í frv. þykir rétt að setja slíkt ákvæði í þetta frv. til sjómannalaga.

Þá eru kaflar um viðurværi skipverja og aðbúð, haffærisskoðun, hvíldar- og matartíma, landgönguleyfi skipverja, farangur skipverja og aðrar eignir. Eru þessir kaflar mjög áþekkir því sem er í gildandi lögum.

Þá er kafli um agavald skipstjóra. Þær greinar svara að miklu leyti til ákvæða í gildandi lögum.

IV. kafli fjallar um ágreining út af starfsskyldum og réttarstöðu sjómanna.

Í 72. gr. er nýmæli sem ekki á sér hliðstæður í sjómannalögum annarra Norðurlanda. Skv. greininni er samgrh. heimilt að koma á fót föstum gerðardómi, sem dæmi um ágreining út af reikningsgerð útgerðarmanns eða skipstjóra, eða um ágreining sem rís af starfi skipverja, ef báðir málsaðilar óska þess. Augljóst hagræði hlýtur að vera að því að starfandi sé fastur gerðardómur sem skipaður er hæfum, óvilhöllum og þjálfuðum mönnum. Skv. greininni greiðist kostnaður við störf gerðardómsins úr ríkissjóði. Fyrir ríkissjóð er vart um aukna greiðslubyrði að ræða frá því sem nú er, því ella færu mál þau sem skjóta mætti til gerðardóms fyrir almenna dómstóla sem kostaðir eru af almannafé. Einnig má ætla að í starfi gerðardómsins myndist meira samræmi í dómsúrlausnum en nú er. Stuðlar það að auknu réttaröryggi á þessu sviði.

V. kafli frv. fjallar um brot á lögum þessum og um refsingar. Þar er safnað saman ýmsum ákvæðum sem mæla fyrir um refsingu eða viðurlög handa skipstjóra, útgerðarmanni eða skipverjum vegna brota skv. sjómannalögum. Í kaflanum er m. a. um að ræða endurskoðuð ákvæði VI. kafla en einnig koma fram nokkur nýmæli. Sérstaklega skal tekið fram að lagt er til að ákvæði um refsivald skipstjóra, — sem fjallað er um í IV. kafla núgildandi laga, falli að mestu brott. Kaflinn skiptist í tvo undirkafla, almenn ákvæði og refsiákvæði.

Hér er um viðamikinn lagabálk að ræða sem ég geri mér fullkomlega grein fyrir að er ekki gerlegt að afgreiða á þessu þingi þar sem svo er liðið á þingið. En ég legg á það áherslu að sú n. sem fær þetta frv. til meðferðar sendi frv. þeim aðilum til umsagnar sem hún telur rétt að senda það til, svo að umsagnir geti verið unnar þegar frv. yrði lagt að nýju fyrir í upphafi næsta þings.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.