01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

33. mál, könnun á kostnaði við einsetningu skóla

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem hv. flm. þessarar till., 10. landsk. þm. sagði í sinni ræðu áðan að það mundi einhver finna hjá sér hvöt til að upplýsa það að nú væri verið að vinna í hliðstæðum málum á vegum núv. hæstv. menntmrh. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka flm., hv. 10. landsk. þm. fyrir að flytja þessa till. til þál. um skólamálin ásamt meðflm. hennar. Ég leyfi mér að líta svo á að till. sé góður stuðningur við það starf sem hæstv. menntmrh. setti í gang 12. júlí s.l. með skipun vinnuhóps til að vinna m.a. að þeim atriðum sem tilgreind eru í till. þeirri sem hér er til umr. Þar sem hæstv. menntmrh. hefur ekki tök á því að upplýsa þessi mál vegna fjarveru í opinberum erindum þá þykir mér rétt að gefa nokkrar upplýsingar um störf vinnuhópsins við þessa umr.

Vinnuhópurinn, sem var skipaður með bréfi menntmrh. 12. júlí s.l., hefur það verkefni að athuga sérstaklega tengsl fjölskyldu og skóla og gera till. um hvernig bæta megi þau tengsl. Honum er ætlað að athuga sérstaklega hvernig má samræma betur vinnutíma foreldra og skólabarna, hvað er unnt að gera í skólastarfi til að styrkja samband barna og foreldra og þar með stuðla að samheldni fjölskyldna. Og hvaða ráðstafanir í ofangreindu skyni væri hægt að gera án tilkostnaðar, eða með litlum tilkostnaði. Og inn í hvaða námsgreinar væri eðlilegast að flétta verkefni sem tengdust verkefninu. Sérstök áhersla er lögð á athugun á samfelldum skóladegi og skynsamlegu fyrirkomulagi á nestismálum í samráði við samtök foreldra- og kennarafélaga.

Við erum níu í þessum vinnuhópi, það eru 8 konur og 1 karl, í öfugu hlutfalli við hefðbundnar nefndarskipanir, og ég vil segja skemmtileg tilbreyting, e.t.v. ekki síst fyrir þennan eina.

Nú væntanlega eru allir sammála um að skólinn er til fyrir nemendurna, börnin, en ekki öfugt. Og vegna breyttra þjóðfélagshátta hefur uppeldishlutverkið í auknum mæli verið fært yfir á skólana. Það er því þýðingarmikið að þeir, skólarnir, geti aðlagað sig þessu hlutverki og gefur auga leið hversu miklu máli það skiptir að gott og náið samstarf sé milli heimila og skóla. Skólinn í dag gegnir því hlutverki að vera fræðslustofnun, uppeldisstofnun, mótunarstofnun og gæslustofnun. Það er því augljóst að þetta er viðamikið verkefni sem vinnuhópurinn hefur með höndum og verður ekki unnið á skömmum tíma ef eitthvað raunhæft á að koma út úr því. Reyndar höfum við sett okkur það markmið að geta látið eitthvað marktækt frá okkur fara í upphafi næsta árs og þá varðandi þá þætti sem mætti bæta án tilkostnaðar eða með litlum tilkostnaði.

Varðandi samstarf heimila og skóla er það ljóst að því er víða ábótavant og í lágmarki, og þar væri auðvelt að bæta úr, t.d. með upplýsingastreymi. Bent hefur verið á að ef hægt væri að senda skóladagatal inn á heimilin strax að vorinu fyrir næsta skólaár eða í upphafi skólaárs, þar sem fram kæmu frídagar, foreldrafundir og fleira þess háttar, þá mundi það vera til mikilla bóta þar sem foreldrar, og e. t.v. enn þá í flestum tilfellum mæður, sem vinna utan heimilis, hafa þá möguleika á að skipuleggja vinnutíma sinn með tilliti til stundaskrár barna sinna. Upplýsingabæklingur um skólastarfið væri einnig til mikilla bóta.

Inn í þetta fléttast sveigjanlegur vinnutími foreldra og kennara sem eru líka foreldrar, hlutastörf, kjaramál kennara og viðveruskylda þeirra í skólum og svigrúm til að sinna foreldrasamstarfi. Vinnuhópurinn hefur fengið á fund til sín formann og varaformann Sambands foreldra- og kennarafélaga í grunnskólum til að ræða um foreldrasamstarfið. Þeim voru reyndar sendir spurningalistar sem umræðugrundvöllur. Ég er að hugsa um með leyfi forseta að leyfa hv. þm. að heyra hvernig þessi spurningalisti hljóðar. Hann hefur núna verið sendur jafnframt til allra foreldra- og kennarafélaga hér í Reykjavík og á Reykjanesi. Og það er e.t.v. rétt að geta þess að þetta starf er tvíþætt að því leyti að annars vegar verður fjallað um það sem varðar þéttbýlið og hins vegár dreifbýlið. Og eins og ég sagði áðan er starfið það viðamikið að við erum ekki komin lengra en svo þrátt fyrir þessa 8 fundi sem við höfum nú þegar haldið að við erum enn að fjalla um málefni þéttbýlisins. En spurningarnar eru svona:

Það virðist vera almenn skoðun foreldra að samstarf heimila og skóla þurfi að aukast og batna.

Á hverju er þessi skoðun byggð?

1. Er þörf á meira upplýsingastreymi frá skóla til heimila? Frá heimilum til skóla báðar leiðir?

2. Eru misfellur í skólastarfi sem foreldrar vilja laga? Óska foreldrar eftir meiri þátttöku í skólastarfinu, t.d. kennslu? Óska foreldrar eftir meiri áhrifum í stjórn skóla, skipulagi, ákvarðanatöku o.s.frv., eða telja foreldrar að þörf sé á auknu eftirliti með störfum skóla? Og enn er spurning: Eru foreldrar almennt tilbúnir að leggja fram þá vinnu og tíma sem aukið samstarf krefst?

3. Er starfsfólk skóla tilbúið að leggja fram þá vinnu og tíma sem aukið samstarf krefst?

4. Hvaða form á starfsemi foreldra- og kennarafélaga hefur reynst vel?

5. Í hvaða mátum hafa foreldra- og kennarafélög fyrst og fremst beitt sér: upplýsingar, fræðsla fyrir félagsmenn, áhrif á stjórnun, námsumhverfi, félagsmát, nám og kennsla o.s.frv.

6. Liggja fyrir upplýsingar um hve almenn þátttaka foreldra er í starfsemi foreldra- og kennarafélaga? Niðurstöður af þessum fundi með formanni og varaformanni Foreldra- og kennarasambands í grunnskólum Reykjavíkur voru þær að margt megi lagfæra við foreldrasamstarfið ef það á að vera markvisst samstarf um innra starf skólanna, en ekki aðeins föndur og skemmtistarf sem auðvitað er líka sjálfsagt og nauðsynlegt. Inn í þetta fléttast vinnutími foreldra og kennara og ótal margt fleira sem yrði of langt að fara út í hér. En við fengum fróðlegan samanburð á slíku samstarfi um innra starf skóla eins og það gerist erlendis, t.d. í Bretlandi. Við höfum fengið skólamenn á fund til að ræða þann þátt einnig. Þar mættu formaður skólamálaráðs, Kennarasambands Íslands og skólastjóri Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Þar kom einnig fram að allir eru hlynntir bættum tengslum og vilja taka þátt að einhverju leyti í því að skóli og heimili vinni saman um barnið sem einstakling.

Það væri ánægjulegt ef sú hugarfarsbreyting gæti komist á að skóli og heimili þurfi og eigi að vinna saman um barnið sem einstakling í stað þess að ábyrgðinni sé velt yfir á annan aðilann og hvor um sig viti lítið um aðstæður hins í þessu vandasama og ábyrgðarmikla hlutverki. Allir hafa verið sammála um að hægt sé að gera mikið til að bæta úr í þessum efnum ef viljinn er gagnkvæmur. Eitt af sameiginlegum baráttu- og hagsmunamálum skólamanna og foreldra er einsetinn skóli og samfelldur skóladagur. Gagnasöfnun er í gangi varðandi þessi atriði og það hefur nú þegar verið sendur út spurningalisti til skólastjóra í Reykjavík og Reykjanesumdæmi varðandi skilgreiningu á samfelldum skóladegi. Það er ekki sama hvernig þetta er skilgreint, það er jafnvel mismunandi hjá skólamönnum. Sumir álíta samfelldan skóladag ef stundaskrá er ekki sundurslitin. Aðrir álíta það sama ef nemendur fá verkefni í götunum, sem kallað er, eða hléum, jafnvel þótt um sé að ræða samfellda stundaskrá eru ekki tengsl á milli verkefna. Það skiptir máli að börnin séu í samfelldum náms- og viðverutíma og margir álíta að samfelldur skóladagur sé það þegar vinnutími barna og foreldra fellur saman.

Við höfum jafnframt hug á að skoða stundaskrár og fá upplýsingar um ástæður fyrir sundurslitinni stundatöflu og það er vitað að m.a. eru ástæður víða þær sem komu fram í máli hv. 10. landsk. þm. að nemendur verða að sækja sértíma eins og hún nefndi og eru kallaðar aukagreinar, þ.e. íþróttir, handmennt og tónmennt, og þurfa að sækja það oft um langan veg eða í aðra skóla. Það má upplýsa það að einnig hafa komið fram vandamál skólastjóra vegna kennararáðninga. Kennararáðningar leysast oft ekki fyrr en á síðustu stundu og ástæðan er oft sú að kennari sækir um fleiri en eina stöðu. Hann fær síðan betra tilboð rétt áður en skóli hefst að haustinu og tekur því jafnvel þó hann hafi verið búinn að ráða sig um vorið og þetta skapar skólastjóranum vandamál og gerir m.a. það að verkum að ekki er hægt að upplýsa foreldra um skólatíma barna með góðum fyrirvara næsta skólaár, t.d. til hagræðis vegna vinnutíma foreldra.

Á seinasta fundi — eða næstseinasta fundi var það reyndar — þá ræddum við um nestismál skólabarna og á þann fund kom sölustjóri Mjólkursamsölunnar og skólastjóri Seljaskóla en hann hefur reynslu í sölu nestispakka samsölunnar. Ég hef að sjálfsögðu ekki tíundað nema brot af því sem hópurinn hefur fjallað um enda viljum við nú meina að við séum rétt á byrjunarstigi og kannske ekki tímabært að gera slíkt og eins og ég sagði áðan þá erum við ekki farin að fjalla um dreifbýlissjónarmiðin eða hagsmuni dreifbýlisins, nemendanna, fjölskyldnanna eða skólanna þar. Ég hef kannske verið nokkuð langorð um þetta mál en mér þótti það sjálfsagt reyndar og sanngjarnt að upplýsa 1. flm. þessarar till., hv. 10. landsk. þm., um það að við erum að fjalla um þessi mál eins vel og okkur er mögulegt að gera og teljum að nokkur árangur sé að nást þó kannske lítill verði en ég vil sérstaklega taka það fram að samvinnan innan þessa hóps er sérstaklega góð. Það er mjög góð samstaða og ég held að það séu engin ágreiningsmál innan hópsins þannig að við erum einhuga öll um það að vilja lagfæra þessi mál eftir bestu getu. Ég vona að hv. þm., sem hér hafa lagt það á sig að sitja enn á fundi, hafi fengið nokkra innsýn í störf þessa vinnuhóps og ég vil einnig við þetta tækifæri láta þess getið að við höfum áhuga á samstarfi við sem flesta aðila og allar ábendingar eru mjög vel þegnar hvaðan sem þær koma sem mættu verða þessu máti til framdráttar.

Ég hef nú ekki talið upp nöfn þeirra sem eru í þessum starfshópi en mér er ljúft að gera það. Það eru líka upplýsingar út af fyrir sig. Vinnuhópinn skipa Salome Þorkelsdóttir alþm., Sólrún Jensdóttir sagnfræðingur, Guðrún Agnarsdóttir alþm., Helga Hannesdóttir læknir, Áslaug Friðriksdóttir skólastjóri, Sigrún Magnúsdóttir kaupmaður, Þórunn Gestsdóttir blaðamaður, Hrólfur Kjartansson námsstjóri og Bryndís Steinþórsdóttir námsstjóri.

Mér þótti rétt, herra forseti, að gera nokkra grein fyrir störfum vinnuhópsins svo að það komi skýlaust fram að það er nú þegar verið að vinna að þeim málum sem um er fjallað í þessari ágætu till. til þál. sem hér er til umr. og ég vænti þess að hv. 10. landsk. þm. verði ánægður með þá staðreynd.