28.03.1984
Neðri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4242 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

200. mál, ríkisábyrgð á launum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. gat um á þetta frv. sér nokkurn aðdraganda. Tilgangurinn með endurskoðun laganna var fyrst og fremst sá að sniða af gildandi lögum tæknilega vankanta og skýra einstök ákvæði laganna þannig að þau yrðu einfaldari í framkvæmd og ekki eins flókin úrlausnarefni og þau hafa reynst. Þegar slík endurskoðun fer fram vakna hins vegar ýmsar efnislegar spurningar um lögin að öðru leyti úr því að þau eru tekin upp hvort eð er.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að koma á framfæri af minni hálfu fáeinum athugasemdum við frv. eins og það liggur hér fyrir og þá jafnframt við lögin eins og þau eru nú. Ég vil áður en ég kem að þeim athugasemdum undirstrika það að svona málum verður að ráða til lykta í mjög góðu samstarfi við verkalýðssamtökin. Þetta er mál sem upphaflega var til orðið fyrir kröfugerð samtaka launafólks eða Alþýðusambands Íslands árið 1971 og 1972 – ég trúi að Björn Jónsson hafi verið félmrh. þegar þessi lög voru sett á sínum tíma. Hér var um að ræða mikilvægt réttindamál launafólks og verkalýðshreyfingarinnar, en verkamenn og aðrir launamenn höfðu oft orðið að sæta því að missa algjörlega sín laun við gjaldþrot fyrirtækja og vera þannig gjörsamlega réttlausir.

Ekki hefur verið vegið að þessum lögum síðan. Þau hafa í raun og veru verið talin eðlileg, sanngjörn og sjálfsögð. Þó var gerð tilraun til þess á síðasta þingi að gagnrýna þessi lög mjög harðlega og draga forsendur þeirra í efa í málflutningi hv. þm. Halldórs Blöndals sem veittist mjög harkalega að framkvæmd þessara laga, taldi að hún hefði í rauninni verið undir flokkspólitísku yfirskini eingöngu af hálfu þeirra sem þá fóru með stjórn mála í félmrn. En ég held að orð hans í þessu tilviki hafi í raun og veru dæmt sig sjálf bæði dauð og ómerk og sé í sjálfu sér þarflaust að fara um þau neinum orðum hér, nema að benda á að þrátt fyrir að hæstv. ríkisstj., sem nýtur stuðnings Framsfl. og Sjálfstfl., flytji frv. af þessum toga er bersýnilega ekki tekið neitt mark á þeirri gagnrýni sem hv. þm. Halldór Blöndal viðhafði um ríkisábyrgð á launum á síðasta þingi.

Meginatriðið, herra forseti, sem ég vil gera athugasemd við í sambandi við þetta frv. er við 4. gr., staflið b. Í 4. gr. er kveðið á um það til hvaða krafna ábyrgð ríkissjóðs tekur að því er varðar kröfur launafólks í bú atvinnurekenda. Í 4. gr. eru taldir upp fimm eða sex kröfuflokkar. Annar aðalkröfuflokkurinn varðar orlofsfé, eða eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Kröfu um orlofsfé, sem fallið hefur til vegna launa launþega síðustu tólf starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda, að því leyti, sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra, sem orlofsfjárkröfu fylgir forgangsréttur í búið.“

Hæstv. félmrh. gat þess að í frv. væri ekki komið til móts við það sjónarmið að launatengd gjöld ættu einnig að fylgja forgangskröfu um vinnulaun. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sjónarmið að launatengd gjöld eigi ekki í öllum tilvikum að fylgja slíkri kröfu og fylgja ábyrgð ríkissjóðs þegar um slíka kröfu í gjaldþrotabú er að ræða. En ég tel hins vegar óeðlilegt að undanskilja þarna lífeyris- og sjúkrasjóðina. Lífeyris- og sjúkrasjóðirnir eru eign launafólks og mjög stór hluti af réttindum verkafólks. Ég vil benda hæstv. félmrh. á það að sjúkrasjóðirnir eru ekki mjög þungir í þessu efni að því er varðar útgjöld og mundu mjög litlu breyta varðandi útgjöld efnislega fyrir ríkissjóð, en mundu hins vegar skipta mjög miklu fyrir það fólk sem á réttindi í sjúkrasjóðunum. Ef menn missa úr greiðslu í sjúkrasjóðina um skeið getur það þýtt stórfelldan réttindamissi við veikindi og vinnuslys hjá verkafólki. Ég vil fara þess á leit við hæstv. félmrh. að hann íhugi það mjög alvarlega hvort ekki er sjálfsagt og eðlilegt að bæta sjúkrasjóðunum við þessa kröfu um ábyrgð ríkissjóðs.

Annað atriði sem ég held að eigi líka að taka þarna inn og ég vil biðja hæstv. ráðh. að hugleiða mjög vandlega, það eru lífeyrissjóðirnir. Segja má sem svo að óeðlilegt væri að taka þarna inn bæði hlutdeild atvinnurekanda og launamanns, þ. e. bæði fjögur prósentin og sex prósentin. Mér fyndist hins vegar koma til greina að taka bara fjögur prósentin, þ. e. hlut launamannsins, enda er það óumdeildur hluti launa. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að verkafólk eigi lífeyrissjóðina og þar með sex prósentin í raun og veru líka vegna þess að menn hafi gefið eftir sem því svarar af sínu kaupi. En engu að síður teldi ég koma til greina og ég vil fara þess á leit við hæstv. félmrh. að hann skoði fjögur prósentin alveg sérstaklega.

Ef bæði lífeyrissjóðirnir og sjúkrasjóðirnir falla út getur fylgt þessu óskapleg réttindaskerðing fyrir verkafólk sem verður fyrir því að missa laun hjá gjaldþrota fyrirtæki. Ég held að hérna sé ekki um stórkostlega fjármuni að ræða fyrir ríkissjóð en hins vegar stórt réttindamál fyrir þá launamenn sem vinna hjá slíkum fyrirtækjum.

Þetta er meginatriðið, herra forseti, sem ég vil gera athugasemd við í sambandi við þetta frv. og ég veit að hæstv. ráðh. kannast við þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram.

Það er rétt sem hæstv. ráðh. tók fram í sambandi við launatengdu gjöldin, að dómstólar hafa hrundið kröfum um þau. Þess vegna er í raun og veru alveg nauðsynlegt að tekin verði afstaða til þess í þinginu hvort launatengdu gjöldin, þ. e. sjúkra- og lífeyrissjóðirnir verða látnir fylgja forgangskröfu í gjaldþrotabú. Ég vil fyrir mitt leyti segja það að ég teldi ekki eðlilegt að afgreiða þetta frv. frá hv. Alþingi án þess að á það verði látið reyna hvort Alþingi vill taka þessa sjóði með þegar fyrirtæki kemur til gjaldþrotaskipta.

Ég vil því af minni hálfu boða brtt. við frv. En ég verð að sjálfsögðu að vona — sem er aðalatriðið — að menn fallist á að skoða þetta sjónarmið sem ég hef hér rakið þannig að um það geti orðið samstaða, enda held ég að það eigi að geta orðið ef allrar sanngirni er gætt.

Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að ríkisábyrgðin nái 18 mánuði aftur í tímann með samspili annars vegar þessara laga um ríkisábyrgð á launum og hins vegar gömlu skiptalaganna frá 1878. Í inngangi 4. gr. er vísað til 84. gr. gömlu skiptalaganna nr. 3/1878, sem var breytt á þinginu um 100 árum síðar, 1978. Ég spyr hæstv. ráðh.: Er,endilega nauðsynlegt að setja þessi tímatakmörk á kröfur? Er ekki hugsanlegt að þessi tímatakmörk verði felld niður þannig að hér verði ekki til tekið hversu langt aftur í tímann ríkisábyrgðin nær eða þá að þessi tími verði lengdur? Ég held að aldrei hafi reynt á þetta atriði fyrir dómstólum eða í kröfum um laun frá gjaldþrotabúi og þess vegna sé í raun og veru óþarfi að hafa þetta, en í örfáum tilvikum hefur komið fyrir að þetta hefur verið erfitt mál, fyrst og fremst vegna þess að, eins og menn þekkja, tekur langan tíma að fá fram gjaldþrot og ganga frá þeim. Það getur því verið á tæpasta vaði með launakröfuna þegar gjaldþrotið loksins hefur verið viðurkennt og það liggur fyrir.

Varðandi önnur atriði þessa frv. vil ég vísa til 5. gr. þess, þ. e. stafliða a og b, en þar segir: „Eftirtaldir launþegar geta þó ekki krafið ríkissjóð um greiðslu krafna skv. a-, b- og c-liðum 4. gr.“ Það eru í fyrsta lagi þeir sem sæti áttu í stjórn gjaldþrotafélags eftir að fjárhag þess tók verulega að halla og í öðru lagi þeir sem átt hafa 5% hlutafjár eða meira í gjaldþrota hlutafélagi. Í núgildandi lögum mun þetta vera 2% minnir mig. Mér finnst álitamál hvort þessi takmörkun á að vera í lögunum vegna þess að það er mjög algengt og færist í vöxt að starfsmenn kaupi hlut í félögum. Með fyrirkomulagi af þessum toga er hugsanlegt að kannske vel flestir starfsmenn ákveðins fyrirtækis útilokist við gjaldþrotaskipti og ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Þannig að mér finnst koma til álita — og ég tek fram að þetta eru mín persónuleg viðhorf — að þetta ákvæði verði endurskoðað eða jafnvel alveg fellt niður.

Ég vil einnig taka fram að ég felli mig ekki við orðalagið „launþegi“ og „vinnuveitandi“. Ég minni á að löggjafinn hefur vikið frá þessari orðalagsnotkun á síðari árum með lögunum um starfsskilyrði launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í því frv. var um að ræða endurskoðun á gömlum lögum þar sem jafnan voru notuð orðin „launþegi“ og „vinnuveitandi“. Ég teldi að það færi betur á því að halda áfram þeirri stefnumörkun sem þar var ákveðin með því að nota að jafnaði í svona lögum orðin „launafólk“ og atvinnurekandi“ frekar en orðin „launþegi-“ og „vinnuveitandi“.

Í grg. frv. er fjallað um það hvernig innheimtu er háttað á orlofsfé og ábyrgð ríkissjóðs í þeim efnum í samræmi við lög nr. 202/1979. Í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skv. b-lið 4. gr. nær ríkisábyrgð til orlofsfjárkrafna, sem til komnar eru vegna launa launþega síðustu tólf starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda. Starfsmánuðir þessir þurfa að falla innan þeirra tímamarka, að forgangsréttur fylgi kröfunni skv. lögum nr. 3/1878. Tekið skal fram, að með frv. er ráðgert að einungis launþegi sjálfur geti gert kröfur skv. því. Hafi launþegi fengið greidda orlofsfjárkröfu á hendur vinnuveitanda hjá Póstgíróstofunni, án þess að vinnuveitandi hafi staðið skil á fénu til hennar, með stoð í reglugerðum nr. 150/1972 og nr. 202/1979, á Póstgíróstofan ekki tilkall til greiðslu úr ríkissjóði.“

Eins og þarna kemur fram er hér um að ræða vissa ábyrgð ríkissjóðs sem Póstgíróstofan hefur orðið að kosta af sínum fjármunum. Stoðin á bak við þetta er í reglugerðum. Ég vil benda hæstv. félmrh. á það — og hann hefur sjálfsagt rekist á það í sínu starfi líka — að komið hefur fram ágreiningur í þessum efnum við ríkissjóð. Þannig að ríkissjóður hefur í ákveðnum tilvikum neitað að greiða þessar kröfur sem Póstgíróstofan hefur gert á ríkissjóð. Af þeim ástæðum lágu vegna ágreinings þó nokkrar upphæðir á milli ríkissjóðs og Póstgíróstofunnar um nokkurra ára skeið þegar um var að ræða orlofsfjárkröfu í gjaldþrotabú. Ég vil fara þess á leit við hæstv. félmrh. að hann kynni sér þetta mál vegna þess að mér finnst koma til greina að það sé afdráttarlaust orðað að ábyrgð ríkissjóðs sé á bak við þessar greiðslur Póstgíróstofunnar því að óeðlilegt er að Póstgíróstofan fari að liggja með stórfellda fjármuni til þess að standa undir þessum kröfum þegar þær falla til.

Síðasta atriðið, herra forseti, sem ég ætlaði að gera athugasemd við er í sambandi við tekjuskilgreininguna. Þar er um að ræða nokkra breytingu frá því sem er í gildandi lögum. Ég held að í gildandi lögum sé miðað við þriggja mánaða lágmarkstekjur. En í 1. mgr. 3. gr. frv. er þetta orðað öðruvísi og miðað við nokkuð annan tíma. Í 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Með hugtakinu vinnulaun er í lögum þessum átt við endurgjald fyrir starf hjá vinnuveitanda, sem stoð á í gildandi kjarasamningi eða vinnusamningi milli aðila, er rýmri rétt veitir launþega. Til vinnulauna teljast skv. lögum þessum hvorki greiðslur, sem vinnuveitandi hefur haldið eftir við útborgun launa, né greiðslur, sem reiknast sem ákveðið hlutfall launa eða eru ákveðnar sem tiltekin fjárhæð, og vinnuveitanda ber að lögum eða skv. kjarasamningi að standa skil á til þriðja manns.“

Hér er um að ræða almennu skilgreininguna á þessu og nánar er farið út í hana í grg. þar sem segir:

„Skv. a-lið 4. gr. getur launþegi í mesta lagi krafist greiðslu úr ríkissjóði á ógreiddum launum vegna sex síðustu starfsmánaða sinna hjá vinnuveitanda, og verður sex mánaða tímabil þetta að falla innan þeirra tímamarka, sem forgangsréttur helst á vinnulaunakröfu, en skv. 84. gr. laga nr. 3/1878 með áorðnum breytingum nær forgangsréttur til launa, sem falla í gjalddaga síðustu átján mánuði fyrir upphaf skipta.“

Heimild þessi um hámarksgreiðslu er talsvert rýmri en mælt er fyrir um í 5. mgr. 2. gr. núgildandi laga. Ég held að það sé til bóta að rýmka þetta frá því sem verið hefur, en það er aðeins spurning hvort ekki er ástæða til þess, úr því að menn eru á annað borð að endurskoða þessi lög, að rýmka þennan rétt enn frekar.

Nú hefur nýlega verið stofnað embætti ríkislögmanns ef ég hef tekið rétt eftir skv. fréttum í blöðum síðustu daga. Ég vil að lokum spyrja hæstv. félmrh. hvort það er ætlunin að ríkislögmaður, sem er undirmaður fjmrh. trúi ég, fari með þessi mál framvegis þannig að þau verði flutt út úr félmrn.

Þær athugasemdir sem ég gerði eru tæknilegs eðlis og ég tel að þær eigi ekki síður rétt á sér í umr. af þessum toga en almennar pólitískar athugasemdir. Ég legg á það áherslu að um þetta mál þarf að verða sem allra best samkomulag svo sem verið hefur á liðnum árum og að sjálfsögðu verður að leita til verkalýðssamtakanna með umsagnir. En meginmálið er — og ég endurtek — í mínum huga að sú breyting náist fram að lífeyris- og sjúkrasjóðsiðgjöldin verði tekin með í þeim forgangskröfum sem flokkaðar eru í 4. gr. þessa frv.